Smáraskóli í Kópavogi varð í gær fyrsti grunnskóli landsins til að halda svonefnda Styrkleika, sem er viðburður á vegum Krabbameinsfélags Íslands. Gengur hann út á að sýna þeim stuðning sem hafa greinst með krabbamein og aðstandendum þeirra.
„Mætingin var vonum framar og nánast enginn lét sig vanta, hvorki nemendur né starfsfólk,“ segir Rakel Ýr Sigurðardóttir, sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu. Nemendur og starfsfólk mættu í fjólubláum fötum, lit félagsins, í skólann til að sýna samstöðu. Þau gengu síðan að fótboltavellinum við íþróttahúsið Fífuna þar sem þau mynduðu saman stórt fjólublátt hjarta. » 15