Gáfaða dýrið Sæunn Kjartansdóttir og Rán Flygenring í útgáfuhófinu.
Gáfaða dýrið Sæunn Kjartansdóttir og Rán Flygenring í útgáfuhófinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Gáfaða dýrið. Í leit að sjálfsþekkingu, er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur sálgreinis. Þar vekur hún athygli á mikilvægi þess að hver þekki sjálfan sig og útskýrir hvernig aukin sjálfsþekking getur unnið gegn ómeðvitaðri sjálfsblekkingu og minnkað streitu.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Gáfaða dýrið. Í leit að sjálfsþekkingu, er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur sálgreinis. Þar vekur hún athygli á mikilvægi þess að hver þekki sjálfan sig og útskýrir hvernig aukin sjálfsþekking getur unnið gegn ómeðvitaðri sjálfsblekkingu og minnkað streitu.

„Mig langaði til þess að miðla ýmsu sem ég hef lært sem sálgreinir á langri starfsævi,“ segir Sæunn um útgáfuna. Bókin sé skrifuð fyrir alla sem vilji auka þekkingu sína og skilning á sjálfum sér og öðrum. „Þess vegna skrifaði ég hana á almennu og aðgengilegu mannamáli.“ Aftast eru tilvísanir og viðamikil heimildaskrá auk lesefnis. Teikningar eru eftir Rán Flygenring.

Sæunn segir að ekki sé allt gáfulegt í fari mannskepnunnar. „Maðurinn er mótsagnakenndasta dýrið af öllum því við erum gáfuðust en líka grimmust. Enginn hefur farið eins illa með lífríkið, eigin tegund og jörðina og maðurinn. Það ber ekki vott um miklar gáfur. Vandamálið er samt ekki að við séum grimm og höfum alls konar hliðar sem við erum ekki stolt af heldur að við viljum ekki vita af þeim.“ Á meðan dýrinu sé afneitað leiki það lausum hala með fyrrgreindum afleiðingum. „Í bókinni hvet ég til þess að við göngumst við þeim hlutum okkar sem okkur finnst ekki til fyrirmyndar, bæði tilfinningum og hugsunum. Mikið af ótta okkar er ekki rökrænt en er samt okkur öllum eiginlegt. Ef við viðurkennum óttann, bæði fyrir okkur sjálfum og þá kannski líka smátt og smátt meira fyrir hvert öðru, verðum við minna hrædd og getum betur nýtt gáfurnar. Það er nefnilega ekki hægt að hugsa skýrt þegar maður er hræddur.“

Óttinn er sem rauður þráður í bókinni. Sæunn segir að hann eigi sér tvær rætur. Annars vegar úr þróun mannsins og hins vegar úr þróun einstaklingsins. Maðurinn hafi þurft að vera hræddur til þess að vernda sig og sína og halda lífi. Í öðru lagi fylgi óttinn okkur frá fæðingu. Lítið barn sé algerlega ósjálfbjarga og þar af leiðandi oft hrætt. Hvernig umhverfi barnið fæðist inn í og hvernig hjálp það fái til þess að halda óttanum í skefjum hafi áhrif á mótun persónuleikans. „Á meðan við viðurkennum ekki óttann tökumst við ekki á við hann,“ segir Sæunn og leggur áherslu á að spyrja hvað gerðist frekar en hvað sé að.

Tengsl, samskipti og vellíðan

Tengsl og jákvæð samskipti hafa mikil áhrif á vellíðan. Sæunn bendir á að maðurinn ráði engu um fyrstu tengslin, en þar mótist sjálfsmyndin. „Þar verða hugmyndir okkar um okkur sjálf og umheiminn til. Óafvitandi veljum við okkur alltaf svipuð tengsl og við erum mótuð í.“ Það sé ekki vandamál nema þau hafi verið erfið eða sársaukafull. „Við leitum alltaf í það kunnuglega, líka það sem hefur verið erfitt. Því er hægt að breyta en til þess þurfum við hjálp. Heiðarlega speglun frá öðrum. Við erum mótuð sem félagsverur og höfum jafn mikla þörf fyrir annað fólk og fæðu eða súrefni, en við afneitum því gjarnan, því við höfum svo mikla trú á sjálfstæði og dugnaði.“ Maður eigi ekki að vera upp á aðra kominn. „Það er í raun afneitun á eðli okkar. Við getum oft verið ein og notið einveru en við þurfum samt alltaf á öðru fólki að halda fyrir næringu og speglun til að finna hver við sjálf erum.“

Gæfa mannsins og mikilvæg lífsgæði felast í nærveru og hjálp annarra, að sögn Sæunnar. Þessi atriði séu sérstaklega brýn nú, þegar tæknin verði sífellt meira ráðandi. Hraðinn sé orðinn mikill og hann komi niður á samskiptum. Fólk sendi textaskilaboð og sé á tölvufundum í stað þess að hittast. „Gott er að hafa þennan möguleika en hann kemur aldrei í staðinn fyrir að sitja andspænis annarri manneskju. Við skynjum hvert annað allt öðruvísi þegar við erum í líkamlegri nálægð heldur en með þennan millilið sem tæknin er.“

Sæunn segir að mörg vandamál, sem gjarnan séu kölluð sjúkdómar, séu í grunninn óhamin streita og óviðeigandi viðbrögð við henni. „Oft þurfum við aðra manneskju til að ná niður eigin streitu, sérstaklega börn. Raunsærri sýn á manninn gæti unnið gegn ranghugmyndum um hvernig okkur eigi að líða og hvernig við eigum að hugsa, því að þegar óraunhæfar hugmyndir stangast á við raunverulega líðan okkar höldum við gjarnan að eitthvað sé að okkur.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson