Sveinn Valfells
sveinnv@mbl.is
Inntökupróf í læknisfræði, tannlæknisfræði og sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands verður haldið 6. og 7. júní næstkomandi.
Að þessu sinni þreyta 416 manns prófið, en 343 tóku prófið í fyrra og er því um að ræða 20% aukningu milli ára. Þar af eru 274 skráðir í inntökuprófið í læknisfræði, 53 í tannlæknisfræði og 89 í sjúkraþjálfun, en umsækjendur þreyta allir sama prófið. Fjöldi þeirra sem hljóta inngöngu miðast við afkastagetu deilda og sjúkrahúsa við þjálfun nemenda.
Vegna samkomulags stjórnvalda um fjölgun starfsmanna í heilbrigðisþjónustu verða fleiri sæti í boði nú við læknadeild en áður, og fá því 75 efstu á inntökuprófinu boð um að hefja nám við deildina í haust. 35 nemendur verða teknir inn í nám í sjúkraþjálfun og 40 í tannlæknisfræði. Þó munu aðeins átta nemendur í tannlæknisfræðum hljóta boð um áframhaldandi nám við deildina, að loknu öðru samkeppnisprófi sem fer fram í desember.
Inntökuprófið hefur löngum þótt afar krefjandi, en í því reynir á fjölbreytta þekkingu þátttakenda. Mest er prófað úr raungreinum s.s. líffræði, efnafræði og stærðfræði, en þó reynir einnig á kunnáttu í íslensku, ensku og sögu. Einnig er prófað úr sálfræði, siðfræði og almennri þekkingu.