Bretar, Frakkar og Þjóðverjar sendu frá sér í gærkvöld drög að ályktun fyrir stjórn alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar IAEA, þar sem lagt er til að Íran verði ávítt fyrir skort á samráði við stofnunina varðandi kjarnorkuáætlun sína

Bretar, Frakkar og Þjóðverjar sendu frá sér í gærkvöld drög að ályktun fyrir stjórn alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar IAEA, þar sem lagt er til að Íran verði ávítt fyrir skort á samráði við stofnunina varðandi kjarnorkuáætlun sína.

Tveir sendifulltrúar ríkjanna sögðu við AFP-fréttastofuna í gær að ályktunartillagan hefði verið lögð fram, en Bandaríkjastjórn mun hafa lagst gegn henni.

Heimildarmenn AFP sögðu að ályktunin væri nauðsynlegt viðbragð vegna alvöru þeirrar stöðu sem komin væri upp, en Íran er eina ríkið, sem ekki á kjarnorkuvopn, sem hefur auðgað úran upp að 60% markinu. Auðga þarf úran upp að 90% til þess að framleiða kjarnorkuvopn, en einungis upp að 3,67% til að knýja kjarnorkuver.

Rafael Grossi, framkvæmdastjóri IAEA, sagði á fundi stjórnarinnar, að skorturinn á vitneskju um það sem væri að gerast innan Írans gerði allar viðræður um framhaldið mjög erfiðar.