Á bak við falsaða vöru er glæpastarfsemi

Víða má finna eftirlíkingar af merkjavöru. Erlendir hönnuðir og framleiðendur verða ekki aðeins fyrir barðinu á þessum óskunda, heldur einnig íslenskir.

Í Morgunblaðinu í gær var greint frá því hvernig kínverska netverslunin Temu selur eftirlíkingar á gjafverði. Fréttin snerist um reiði Dana vegna þessa, en einnig kom fram að flækjupúðar Ragheiðar Aspar Sigurðardóttur væru skrumskældir á síðunni fyrir brot andvirðisins í búð hér á landi. Hjá Temu kostar púðinn 2.500 krónur, en í Epal 21.900 krónur.

Temu er í fréttinni lýst sem skrímsli. Fyrirtækið hafi miklu meira umleikis en til dæmis Ali Express, sem hefur verið atkvæðamikið á netinu. Hinar fölsuðu vörur séu allsráðandi og ekki nokkur leið að rekja uppruna þeirra.

Um miðjan maí var Sigríður Heimisdóttir iðnhönnuður í viðtali í Dagmálum Morgunblaðsins. Þar sagði hún að Íslendingar þyrftu að koma sér upp stefnu í þessum efnum. Íslendingar bæru ekki nægilega mikla virðingu fyrir hönnun og fyndist í lagi að kaupa falsaðar töskur, klúta og slæður en líka fölsuð lyf, barnaleikföng og vodka.

Sigríður var beðin um að setja saman sýningu þar sem sýndar voru sams konar vörur hlið við hlið, annars vegar upprunalegar og hins vegar eftirlíkingar.

Hún sagði að niðurstaðan hefði verið óhugnanleg: „Það sem kom mér á óvart er að þessar eftirlíkingar eiga ekki bara við einhverjar töskur, trefla og slæður og eitthvað slíkt, heldur er þetta miklu víðar. Það er til dæmis mjög stór svartamarkaður með lyf og það er eitthvað sem við viljum aldeilis vita hvaðan kemur … Mér leið ekki vel þegar ég sá hvernig viðskiptin eru á bak við þetta erlendis. Það er skipulögð glæpastarfsemi á bak við þetta. Það er eitthvað sem við verðum að tala um.“

Þetta er hárrétt hjá hönnuðinum. Eftirlíking kann að virðast stáss, en með því að kaupa hana er verið að grafa undan höfundum og hönnuðum og styrkja glæpastarfsemi.