Sigurður Snævar Gunnarsson fæddist á Hofstöðum í Reykhólahreppi í A-Barðastrandarsýslu 10. október 1945. Hann lést á heimili sínu í Innri-Njarðvík 22. maí 2024.

Foreldrar hans voru Elísabet Sveinsdóttir, f. 24. janúar 1918 á Hofstöðum í Reykhólahreppi, d. 23. mars 2001, og Gunnar Gísli Þórðarson, f. 10. apríl 1918 á Hallsteinsnesi í Gufudalssveit, d. 16. september 2005.

Sigurður var elstur af systkinum sínum. Hin eru: Ingimar Þór, f. 1948, kvæntur Þorgerði Steinsdóttur, f. 1949; Sveinn Óttar, f. 1950, kvæntur Guðnýju Svavarsdóttur, f. 1950; Gísli Arnar, f. 1954, í sambúð með Höllu Guðrúnu Jónsdóttur, f. 1955; Gunnur Rannveig, f. 1957, í sambúð með Helga Helgasyni, f. 1952.

Hinn 17. maí 1969 giftist Sigurður eftirlifandi eiginkonu sinni, Erlu Pálmadóttur, f. 25. mars 1950. Synir þeirra eru: 1) Gunnar Snævar, f. 1969, synir hans eru Friðrik Þór, f. 1992, og Jakob Þór, f. 1996. 2) Ástráður Þorgils, f. 1973, börn hans eru Alexander Leo, f. 2000, Alva Elina, f. 2003, og Ísabella Marín, f. 2012. Sambýliskona Ástráðs er Hrafnhildur Sesselja Mooney, f. 1971. Sonur hennar er Dagur, f. 1999.

Sigurður ólst upp í Reykjavík. Hann lauk námi í bifvélavirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1966. Í framhaldi af námi vann hann í nokkur ár hjá Vegagerð ríkisins og síðar við margvísleg störf, þ.m.t. hjá Rafmagnsveitum ríkisins, Sindra-Stáli og SÁÁ. Erla og Sigurður bjuggu lengstan hluta 55 ára hjúskapartíðar sinnar á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík, Kópavogi og loks í Innri-Njarðvík síðustu ár.

Sigurður var mikill íþróttaáhugamaður og lék á yngri árum knattspyrnu með Val. Hann var mikill Valsmaður og fylgdist alla tíð náið með árangri félagsins í hinum ýmsu íþróttagreinum. Sigurður var einnig virkur í ýmsum félagsstörfum og sinnti þeim af áhuga og alúð.

Útför Sigurðar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 4. júní 2024, klukkan 13.

Pabbi fæddist á því herrans ári 1945. Hann var stoltur maður. Hann fæddist á Vestfjörðum og talaði ávallt af stolti um sína heimasveit þrátt fyrir að alast upp í höfuðborginni. Hann ólst upp sem elsti sonur foreldra sinna og í hópi fimm systkina. Hann átti þrjá bræður og eina systur. Hann var stoltur af þeim og þeirri fjölskyldu sem í kringum hann var. Hann eignaðist tvo syni, mig og Adda, og var afar stoltur af okkur. Síðan eignaðist hann fimm barnabörn og hann var mest stoltur af þeim. Öll með tölu hugsa með hlýhug til þeirra stunda sem þau vörðu með afa Sigga og ömmu Erlu.

Pabbi var mikill íþróttaáhugamaður. Á unga aldri gerðist hann Valsmaður og elskaði félagið alla tíð. Hann keppti á sínum yngri árum og var einn af efnilegum drengjum Vals. Árið 1960 urðu hann og Pétur Sveinbjarnarson fyrstu „gulldrengir“ Vals með því að vinna gullmerki KSÍ fyrir árangur sinn í knattþrautum sem nutu mikilla vinsælla á þeim tíma. Fyrir honum lá þó ekki afreksferill sem leikmaður heldur var hann mjög áhugasamur og virkur þátttakandi í félagsstarfi tengdu íþróttum og öðrum áhugamálum sem snertu hug hans. Hann sinnti þessu til margra ára hjá Val og síðar hjá Golfklúbbi Reykjavíkur og SÁÁ, svo eitthvað sé nefnt. Hann var líka mikill stuðningsmaður Manchester United en hann byrjaði að halda með þeim árið 1958. Þá frétti hann af hinu hræðilega flugslysi í München þar sem fjölmargir leikmenn og aðstandendur liðsins létu lífið. Þegar hann til viðbótar uppgötvaði að félagið spilar í rauðum peysum og hvítum buxum var teningunum kastað!

Pabbi hafði margvísleg góð áhrif á mig og mitt líf. Hann kenndi mér að verða sjálfstæður í hugsun, að trúa og treysta á sjálfan mig og eigin getu. Ég hef skipulagsgáfuna frá honum sem og dugnaðinn. Þá var hann mikill áhrifavaldur í því hversu mikill íþróttaáhugamaður ég varð. Þegar ég var tveggja daga gamall skráði hann mig sem félagsmann í Val með pomp og prakt. Þó að ég hafi aldrei búið í „Valshverfinu“ varð ég og er ástríðufullur Valsmaður eins og hann. Ég spilaði handbolta og fótbolta með félaginu á mínum yngri árum og hef stutt það alla mína tíð. Ég held líka með Manchester United út af honum. Ég hef þó aldrei spilað með þeim.

Pabbi var ekki fullkominn maður frekar en nokkur annar. En hann elskaði börnin sín og barnabörnin sín mjög mikið og vildi allt fyrir okkur gera. Ég er þakklátur fyrir góðar minningar sem og fyrir þá góðu kosti í mínum eigin persónuleika sem hann hjálpaði mér að finna.

Hvíl í friði, elsku pabbi.

Þinn

Gunnar (Gunni).

Það er oft stutt á milli gleði og sorgar. Við glöddumst með lítilli sonardóttur sem varð fimm ára 22. maí, um kvöldið fengum við sorgarfregnina að Siggi hefði orðið bráðkvaddur.

Siggi var elstur í hópi okkar systkinanna, fjórir bræður og systirin yngst. Siggi sagði mér fyrir stuttu að þegar að ég fæddist heima í Teigagerði 9 árla morguns og hann að fara í skólann þá hafi hann boðið bekknum sínum heim í frímínútum til að sjá litlu systurina.

Strengurinn milli okkar Sigga var alla tíð sterkur. Æskuárin skipta miklu máli í þeim efnum. Pabbi og mamma voru bæði úr Reykhólasveitinni, þau áttu bæði stóran systkinahóp og systkinabörnin mörg og heimili okkar fyrir sunnan sá staður þar sem gist var þegar komið var í bæinn. Það var því mikill gestagangur og líf á heimilinu. Siggi var í sveit á sumrin hjá móðursystur sinni Dísu í mörg ár og þótti mjög vænt um fóstru sína. Hann elskaði líka Reykhólasveitina þar sem hann fæddist á Hofstöðum við Þorskafjörð. Hann var ættrækinn og notaði Fésbókina til að hafa uppi á ættingjum.

Þegar ég komst til vits og ára var Siggi orðinn ungur maður. Hann lærði bifvélavirkjun enda hafði hann mikinn áhuga á bílum, átt marga bíla um ævina sem hann hugsaði vel um enda mikill snyrtipinni í einu og öllu. Hann keypti plötuspilara og síðan sjónvarp á æskuheimilið sem var komið í stofu fyrsta útsendingardag Sjónvarpsins.

Svo flaug hann úr hreiðrinu. Hann hafði fundið ástina, hana Erlu. Í 56 ár gengu þau saman í gegnum þykkt og þunnt, súrt og sætt. Þau eignuðust drengina sína Gunna og Adda, ljósin í lífi þeirra. En lífið var ekki alltaf dans á rósum, Siggi glímdi við Bakkus í nokkur ár, en sigraðist sem betur fer á honum og Erla á heiður skilinn að hafa ekki gefist upp, ástin sigraði.

Siggi var mikill Valsari, byrjaði ungur að æfa fótbolta og var einn af Gulldrengjum Vals en hætti ungur vegna meiðsla. Hann smitaði okkur yngstu systkinin sem fórum í Val þrátt fyrir að við byggjum í Víkingshverfinu og þyrftum að taka strætó.

Á æskuheimilinu voru stjórnmál mikið rædd. Kannski þess vegna voru stjórnmálin honum hugleikin. Þá var gott að hafa Fésbókina til að koma sínum skoðunum á framfæri og hann lá ekki á þeim. Reyndar var ég stundum að reyna að átta mig á hvar hann stæði, fannst það ekki alltaf augljóst en hann sagðist vera umkomulaus krati.

Síðustu ár hefur Siggi glímt við hjartabilun. Hann fór í aðgerð fyrir nokkrum mánuðum og maður vonaði að hann ætti mörg góð ár eftir. Hann bar sig vel, við hittumst síðast systkinin og makar á föstudaginn langa, þá var hann svolítið slappur en var bjartsýnn því að samkvæmt læknunum gæti þetta tekið einhvern tíma að gera sig. Því er það með sorg í hjarta sem ég kveð elsku Sigga. Hann var alla tíð trúaður enda alinn upp hjá séra Friðriki sem ungur drengur. Hann hafði miklar mætur á honum og var leiður yfir hans ærumissi.

Elsku Erla, missir þinn er mikill, þið voruð svo samrýnd og töluðuð svo fallega hvort til annars.

Elsku Gunni, Addi og fjölskyldur, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Gunnur Rannveig.

Sæl Skotta mín, gaman að sjá þig. Svo fylgdi fast og innilegt faðmlag. Fagnaðarfundir. Ég hitti Sigga óvænt á förnum vegi í vetur og svona heilsaði hann mér. Þau hjónin, Erla og Siggi, kölluðu mig aldrei neitt annað en Skottuna sína frá því ég var lítil stelpa og það hefur fylgt mér alla tíð. Ég veit ekki af hverju en líklega af því að ég var alltaf lítil, nett og kannski smá fjörkálfur þegar ég var yngri. Mér leið alltaf eins og prinsessu og fannst ég heppnust í heimi. Þau hafa alltaf átt og munu alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu. Minningarnar eru margar. Heimsóknir til þeirra og þau til okkar. Utanlandsferð þar sem mér er minnisstætt þegar Addi mátti ekki fá brjóstsykur nema bryðja hann því hann hafði næstum kafnað einhvern tímann með heilan mola uppi í sér. Siggi var ökukennarinn minn þegar kom að því að læra að keyra og ég man hvað hann var þolinmóður. Hann gætti þess að ég væri alveg tilbúin í umferðina. Pabbi og Siggi kynntust í félagsheimilinu hjá Val og voru mjög góðir vinir alla tíð þótt samgangurinn hafi minnkað með árunum eins og oft vill verða. Ég er stolt að Valshjartað þeirra náði til mín. Það heldur áfram að slá í mér fyrir Sigga minn.

Ég kveð kæran fjölskylduvin með söknuði og bið góðan Guð að styrkja og styðja elsku Erlu, Gunna, Adda og fjölskyldur þeirra. Missir ykkar er mikill en minningarnar ylja og munu gera um ókomna tíð.

Hafðu þökk fyrir allt og allt kæri vinur. Ég veit þú tekur vel á móti mér þegar minn tími kemur.

Guð blessi minningu Sigurðar Snævars Gunnarssonar.

Þín Skotta,

Hrafnhildur
Garðarsdóttir.

Látinn er félagi í Rótarýklúbbi Keflavíkur, Sigurður Snævar Gunnarsson.

Með örfáum orðum er hans nú minnst. Sigurður gekk til liðs við klúbbinn fyrir nokkrum árum og hafði þá áður verið félagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík Breiðholt. Hann hafði reynslu af störfum og tilgangi Rótarýhreyfingarinnar, sem unnt er að draga saman í nokkrum orðum: að láta gott af sér leiða og leggja okkar af mörkum til þess að gera heiminn betri og létta undir með þeim sem minna mega sin í heiminum.

Stærsta einstaka verkefni Rotary International á heimsvísu er útrýming lömunarveiki, Polio Plus, en að auki leggja Rótarýfélagar sitt af mörkum á alþjóðavísu með framlögum til bættrar menntunar, ekki síst í fátækari hluta heimsins, Afríku og Asíu, og aðstoð við öflun drykkjarhæfs vatns þar sem það skortir.

Hér heima hefur klúbburinn unnið að gróðursetningu og fleiru í nærumhverfi sínu, auk framlaga til skóla og nemenda meðal annars með tölvugjöfum.

Öll þessi verkefni voru Sigurði Snævari vel kunn og tók hann þátt í þeim líkt og góðum Rótarýfelaga sæmdi. Hann hafði langa reynslu af störfum Rótarýs og miðlaði henni til klúbbfélaga. Nú er komið að leiðarlokum og þakkað fyrir þátttökuna í mannúðarstarfi Rótarýs. Eiginkonu, börnum, tengdabörnum og barnabörnum eru færðar samúðarkveðjur við leiðarlok. Blessuð sé minning Sigurðar.

Fyrir hönd Rótarýfélaga,

Ólafur Helgi Kjartansson, fyrrverandi forseti
Rótarýklúbbs Keflavíkur.