Halla Hrund Logadóttir
Halla Hrund Logadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Halla Hrund Logadóttir snýr aftur til starfa hjá Orkustofnun í vikunni. Þetta staðfestir Bára Mjöll Þórðardóttir, meðeigandi ráðgjafarfyrirtækisins Langbrókar sem annast samskipti fyrir hönd stofnunarinnar, í samtali við Morgunblaðið

Klara Ósk Kristinsdóttir

Iðunn Andrésdóttir

Halla Hrund Logadóttir snýr aftur til starfa hjá Orkustofnun í vikunni.

Þetta staðfestir Bára Mjöll Þórðardóttir, meðeigandi ráðgjafarfyrirtækisins Langbrókar sem annast samskipti fyrir hönd stofnunarinnar, í samtali við Morgunblaðið.

„Hún snýr aftur til starfa um miðja viku, líklegast á fimmtudaginn,“ segir Bára Mjöll.

Halla Hrund hefur verið í leyfi sem forstjóri stofnunarinnar síðan hún tilkynnti framboð sitt til embættis forseta hinn 7. apríl, en Sara Lind Guðbergsdóttir hefur gegnt embættinu í fjarveru Höllu.

Halla Hrund var ekki eini embættismaðurinn í framboði, en Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar bauð sig einnig fram til embættis forseta Íslands.

„Maður tekur þátt í leik til þess að vinna hann. Það greinilega náðist ekki þannig að maður er náttúrlega bara mannlegur hvað það varðar,“ segir Helga í samtali við Morgunblaðið, innt eftir viðbrögðum við niðurstöðum forsetakosninganna.

Helga, sem hefur verið í leyfi frá störfum forstjóra Persónuverndar síðan hún tilkynnti framboð sitt í lok mars, fékk alls 275 atkvæði í kosningunum, eða 0,1%. Hún segir kosningu Höllu Tómasdóttur hafa verið glæsilega og óskar henni til hamingju með það.

Spurð hvað taki nú við og hvort hún sé á leið aftur til Persónuverndar svarar Helga:

„Já, ég meina ég var náttúrlega bara í leyfi.“

Helga kveðst hafa fengið mikla aukna orku af gleðinni sem fylgdi kosningabaráttunni „þótt hún hafi ekki skilað sér í kassana“.

„Það gefur manni aukna orku og styrk, en vissulega þarf ég að ná fyrri kröftum,“ segir Helga sem kveðst ætla að taka sér sumarfrí.

„Svo þarf ég að eiga salt í minn graut og stend bara mína vakt þar til annað kemur í ljós.“

Helga segir kosningabaráttuna eitt mesta tækifæri sem hún hafi tekist á við og einhvern áhugaverðasta feril sem hún hafi farið í gegnum.

„Eftir stendur jákvæðnin, gleðin og snerting við fólk úti um allt land. Það að hafa verið löglegur forsetaframbjóðandi var mögnuð lífsreynsla.“

Ýmislegt alvarlegt

Þannig að þú lærðir margt af þessu?

„Já, mér líður best meðal fólks. Það er bara þannig og það var fallegt og gefandi. Að sama skapi var ýmislegt alvarlegt sem gerðist á þessum ferli líka,“ segir Helga og útskýrir mál sitt fyrir blaðamanni.

„Eins og það þegar einkareknir fjölmiðlar með ríkisstyrk til að tryggja lýðræðislega umræðu ákveða að loka fyrir neðri part hópsins út frá skoðanamyndandi skoðanakönnunum.“

„Þar með var það bara búið,“ segir Helga, ósátt við umfjöllun fjölmiðla í kosningabaráttunni.

Höf.: Klara Ósk Kristinsdóttir