Sjávarútvegsfyrirtækið Þorbjörn hf. í Grindavík hefur sagt upp 56 starfsmönnum sínum sem hafa starfað við landvinnslu. Í tilkynningu vegna uppsagnanna segir að félagið hafi reynt til hins ýtrasta að halda starfsfólki í vinnu þrátt fyrir krefjandi aðstæður vegna jarðhræringanna.
Gunnar Tómasson framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir í samtali við 200 mílur að ákvörðun um uppsagnir hafi ekki verið tekin af neinni léttúð. „Þetta er búið að vera erfitt, alveg rosalega erfitt.“
Hann segir að nú taki við endurskipulagning rekstursins sem mun standa yfir í sumar og er tilgangurinn að skoða hvernig framhaldinu skal háttað með tilliti til jarðhræringanna.
„Það var niðurstaða okkar að menn treysta sér ekki til að halda áfram eins og verið hefur og við ætlum að taka okkur góðan tíma til að endurskipuleggja okkur og vonum að þetta ástand fari að róast.“
Er Þorbjörn að hætta landvinnslu alfarið?
„Vonandi ekki, en það er ekki hægt að stunda hana við þessar aðstæður. Við viljum ekki byggja hana upp annars staðar,“ segir Gunnar.