Íbúðarhús Fólk í öllum aldurshópum, 18 ára og eldri, fékk greiddar húsnæðisbætur í fyrra eða samtals tæplega 22 þúsund einstaklingar.
Íbúðarhús Fólk í öllum aldurshópum, 18 ára og eldri, fékk greiddar húsnæðisbætur í fyrra eða samtals tæplega 22 þúsund einstaklingar. — Morgunblaðið/Eggert
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Húsnæðisbætur til leigjenda íbúðarhúsnæðis hafa hækkað mun minna en húsaleiga á síðustu sjö árum. Gildandi lög um húsnæðisbætur tóku gildi 1. janúar árið 2017. Frá þeim tíma og fram í janúar á þessu ári hækkuðu grunnfjárhæðir bótanna um 31,1%. Á sama tíma hefur undirvísitala greiddrar húsaleigu hækkað um 41,9%.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Húsnæðisbætur til leigjenda íbúðarhúsnæðis hafa hækkað mun minna en húsaleiga á síðustu sjö árum. Gildandi lög um húsnæðisbætur tóku gildi 1. janúar árið 2017. Frá þeim tíma og fram í janúar á þessu ári hækkuðu grunnfjárhæðir bótanna um 31,1%. Á sama tíma hefur undirvísitala greiddrar húsaleigu hækkað um 41,9%.

Þessar upplýsingar koma fram í svari innviðaráðherra á Alþingi við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni alþingismanni.

Húsnæðisbætur eru greiddar mánaðarlega til að aðstoða fólk sem leigir íbúðarhúsnæði. Björn Leví spurði einnig hvernig grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hefðu hækkað í samanburði við þróun launa, verðlags og efnahagsmála. Í svari ráðherra kemur fram að frá janúar 2017 til janúar 2024 hækkaði neysluverðsvísitalan um 39,1%, launavísitalan hækkaði á sama tímabili um 63,1% og landsframleiðsla á mann um 39,9% en grunnfjárhæðir húsnæðisbóta um 31,1% eins og áður segir. Frítekjumörkin hækkuðu á sama tíma um 59,8%.

Björn Leví spurði einnig ráðherrann hvaða ályktanir hann drægi af þróun húsnæðisstuðnings á undanförnum árum í ljósi þessa og segir í svari ráðherra að húsnæðisbætur hafi haldið nokkuð vel í við þróun efnahagsmála. „Þó má sjá að grunnfjárhæðir hafa hækkað minna en vísitala greiddrar leigu en til stendur að hækka grunnfjárhæðir um 25% hinn 1. júní nk. sem hluta af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til þess að styðja við kjarasamninga. Það er aðgerð sem færir tekjulægri heimilum á leigumarkaði níu milljarða kr. á gildistíma kjarasamninga,“ segir í svari innviðaráðherra.

Í svarinu eru einnig birtar ítarlegar upplýsingar um upphæðir og fjölda þeirra einstaklinga sem fengu húsnæðisstuðning á síðasta ári. Skipt eftir aldursbilum kemur í ljós að af alls tæplega 22 þúsund einstaklingum sem fengu húsnæðisbætur í fyrra voru flestir á aldrinum 18 til 42 ára eða tæplega 13.600.

2.180 sem fengu greiddar húsnæðisbætur voru á aldrinum 18 til 22 ára. Ríflega 5.300 á aldrinum 43 til 62 ára fengu greiddar húsnæðisbætur og í elstu aldurshópunum má sjá að 427 einstaklingar á aldrinum 83 til 97 ára fengu greiddar húsnæðisbætur í fyrra.

Í svarinu er einnig heimilum með einn heimilismann sem fengu húsnæðisbætur í fyrra skipt niður í tíu jafna tekjuhópa. Kemur m.a. í ljós að 1.265 einstaklingar voru í neðstu tekjutíundinni og fengu samtals 333 milljónir kr. Stærstu hóparnir voru í þriðju eða fjórðu tekjutíund eða tæplega 5.300, sem fengu samtals um tvo milljarða í fyrra. 1.112 einstaklingar í þremur efstu tekjuhópunum fengu húsnæðisbætur í fyrra, samtals 172 milljónir.

Höf.: Ómar Friðriksson