Egill Aaron Ægisson
egillaaron@mbl.is
Rauði krossinn hélt í gær fyrsta mánudagskaffið fyrir Grindvíkinga, sem hafa orðið að flýja heimili sín vegna jarðhræringanna. Kaffiboðið var haldið á Smiðjuvöllum 9 í Reykjanesbæ og verður þar alla mánudaga út mánuðinn.
Starfsmenn Rauða krossins segja markmið verkefnisins að ná til þeirra Grindvíkinga sem eru einangraðir.
Frá 15. nóvember hafði Rauði krossinn, í samstarfi við ríkislögreglustjóra og Grindavíkurbæ, rekið þjónustumiðstöð Almannavarna í Tollhúsinu í Reykjavík en ákveðið var að þeirri starfsemi yrði hætt núna um mánaðamótin. Bæjarskrifstofur Grindavíkur verða áfram starfandi í Tollhúsinu og sérstak þjónustuteymi fyrir bæjarbúa er til húsa í Borgartúni 33.
Í samtali við Morgunblaðið segir Fanney Grétarsdóttir, deildarstjóri hjá Rauða krossinum á Suðurnesjum, að þjónustumiðstöð hafi einnig verið starfandi á Suðurnesjum en þeirri þjónustu hafi verið breytt. „Það er alltaf gerð þarfagreining og núna er meiri þörf hér fyrir að breyta verkefninu í meira svona félagslegt. Þau koma og fá kaffisopa og spjalla saman.“
Vel mætt og andrúmsloft gott
Helena Björk Rúnarsdóttir, sjálfboðaliði í áfallateymi Rauða krossins, segir mætinguna í gær hafa verið góða miðað við fyrsta fund. 15-16 manns hafi mætt í gær og andrúmsloftið hafi að mestu leyti verið mjög gott.
„Þau hafa verið allan tímann með jákvæðni í fyrirrúmi og það er seigla í þessum hópi, en það er náttúrlega farið að reyna á þolinmæði fólks,“ segir Fanney.
Kaffiboðið fyrir Grindvíkingana verður haldið alla mánudaga í júnímánuði en að sögn Fanneyjar og Helenu munu þá starfsmenn deildarinnar fara í frí.
Spurðar hvort kaffiboðið verði tekið upp að nýju eftir sumarfrí, ef aðstæður skyldu ekki breytast í Grindavík, segja þær að það sé undir hópnum komið en Rauði krossinn verði alltaf til staðar:
„Ef þau vilja það. Ef hópurinn sjálfur vill gera eitthvað eins og að dansa eða spila á spil þá er þetta bara opið og hægt að vera í samskiptum við okkur,“ segir Fanney og Helena bætir við:
„Við setjumst örugglega niður eftir sumarfrí og púslum þetta aftur og sjáum hver þörfin er.“
Mánudagskaffið er sem fyrr segir á Smiðjuvöllum 9 í Reykjanesbæ og opið er frá klukkan 14-16.