Guðmundur Karl Jónsson
Efasemdir um arðsemismat og innheimtu veggjalds á hvern bíl í Vaðlaheiðargöngum vekja spurningar um hvort þetta samgöngumannvirki verði kallað minnisvarði um ákvarðanir sem hafa fyrr og síðar verið teknar á fölskum forsendum gegn vilja heimamanna. Það snertir líka hin umdeildu Héðinsfjarðargöng, Múlagöngin, Strákagöngin, tvo einbreiða gangamunna í Vestfjarðagöngum og gömlu Oddsskarðsgöngin sem enginn flutningabíll komst í gegnum án þess að stórtjón hlytist af.
Þessu andmælti Ögmundur Jónasson til að verja tilefnislausar árásir Vegagerðarinnar á íbúa Mið-Austurlands og á sunnanverðum Vestfjörðum. Góð og gild rök voru færð fyrir því að Norðfirðingar skyldu fá örugga vegtengingu við sitt nýja sveitarfélag vegna fiskflutninganna frá Síldarvinnslunni og einangrunar stóra Fjórðungssjúkrahússins, sem þarf líka að fá öruggar heilsársamgöngur við Egilsstaðaflugvöll. En hvað ef Vegagerðin og flugmálastjórn setja fram ósvífnar kröfur um að banna allt sjúkraflug til Neskaupstaðar þegar snjómokstur á Fagradal er óframkvæmanlegur vegna illviðris? Þá einangrast Norðfirðingar og heimamenn búsettir norðan Fagradals þegar vonlaust er að keyra þá til vinnu hjá Alcoa á Reyðarfirði.
Áður kom þetta vandamál líka í veg fyrir að Austfirðingar búsettir utan Norðfjarðar treystu sér á Fjórðungssjúkrahúsið þegar þeir tóku aldrei í mál að keyra í of miklum blindbyl upp í 620 m hæð. Fljótlegra væri fyrir íbúa Seyðisfjarðar að sækja læknisþjónustuna til Reykjavíkur eða Akureyrar í stað þess að keyra tvisvar sinnum upp í þessa hæð yfir sjávarmáli. Annars lokast þeir inni þegar starfsmenn Vegagerðarinnar gefast upp á samfelldum snjómokstri í 640 m hæð vegna illviðris á Fjarðarheiði. Nógu erfitt er fyrir Seyðfirðinga að sitja uppi með þennan farartálma án þess að þeir þurfi að keyra samanlagt um 200 km yfir þrjá erfiða fjallvegi alla leið til Neskaupstaðar og aftur heim.
Þessi einangrun veldur því að Seyðfirðingar sem eru án jarðganga og hafa engan flugvöll geta ekki treyst á sjúkraflugið frá Egilsstaðaflugvelli vegna snjóþyngsla og veðurhæðar sem hefur farið upp í 80 metra á sekúndu. Sjálfgefið er það ekki að Seyðfirðingar, sem voru sviptir allri löggæslu, geti keyrt árið um kring upp í Egilsstaði á 10-15 mínútum, yfir Fjarðarheiði.
Umferðaróhöpp sunnan Oddsskarðsganga og á Fjarðarheiði vekja spurningar um hvort allir þingmenn Norðausturkjördæmis hefðu frekar átt að kynna sér þetta vandamál og leggja enn meiri áherslu á að flýta útboði Mjóafjarðarganga en að samþykkja ríkisábyrgðina um fjármögnun Vaðlaheiðarganga, sem margir alþingismenn snerust gegn á þeim forsendum að alltof fáir bílar væru í umferð á Eyjafjarðarsvæðinu og austan Vaðlaheiðar til að veggjald á hvert ökutæki gæti staðið undir launum starfsmanna. Hefði kostnaðurinn við svona dýrt samgöngumannvirki farið vel yfir 23 milljarða króna eins og talsmenn FÍB óttuðust.
Best hefði verið fyrir alla landsbyggðarþingmenn að kynna sér fyrst ástandið í samgöngumálum Fjarðabyggðar, suðurfjarða Austurlands og á Vestfjörðum áður en þeir samþykktu misheppnaða fjármögnunargildru Vaðlaheiðarganga ehf. sem Vegagerðin festist í næstu áratugina.
Verði önnur þarfari verkefni lögð á hilluna næstu 50 árin, eins og þingmenn Norðlendinga berjast fyrir, situr ríkissjóður fastur í rándýru samgönguhneyksli við Eyjafjörð með ófyrirséðum afleiðingum sem menn munu brátt iðrast. Í kjölfarið verða allar tilraunir til að fjármagna þessa einkaframkvæmd með innheimtu vegtolla dæmdar til að mistakast. Árangurslaust var þingmönnum Norðausturkjördæmis sagt að óskynsamlegt hefði verið að hefja framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng á undan tvíbreiðum Norðfjarðargöngum, sem leystu af hólmi gömlu Oddsskarðsgöngin.
Alltaf fara þessir landsbyggðarþingmenn undan í flæmingi þegar meirihluti alþingismanna telur útilokað að innheimta veggjalds standi undir rekstri Vaðlaheiðarganga ehf. Áður hafa þingmenn Norðausturkjördæmis andmælt því að önnur jarðgöng á Mið-Austurlandi og milli Djúpavogs og Hornafjarðar skipti enn meira máli.
Rjúfum einangrun Fjarðabyggðar og Seyðisfjarðar við Egilsstaðaflugvöll. Tryggjum Austfirðingum betra aðgengi að stóra Fjórðungssjúkrahúsinu.
Höfundur er fv. farandverkamaður.