Dagrún Sigurðardóttir fæddist 25. apríl 1953 í Hjarðardal í Dýrafirði. Hún lést 5. maí 2024 á Landspítalanum í Fossvogi.

Foreldrar hennar voru Sigurður Guðmundsson og Sigurbjörg Árndís Gísladóttir.

Hún var gift Svavari Gísla Stefánssyni sem lést 17. desember 2015.

Hún skilur eftir sig tvo syni: Sigurð Vilberg Svavarsson, hann er giftur Elínu Káradóttur og eiga þau saman tvö börn, þau Svövu Dís 8 ára og Vigni Kára 6 ára, og Halldór Þór Svavarsson, á hann tvo syni, þá Ágúst Mána 15 ára og Rökkva Frey 12 ára.

Útför Dagrúnar fór fram í kyrrþey.

Mamma er látin.

Þessi dagur kom mun fyrr en ég átti von á. Þrátt fyrir að hún hafi glímt við veikindi síðasta eina og hálfa árið, þá var sá tími mjög góður. Á þeim tíma gerði hún það sem veitti henni tilgang í lífinu, að hjálpa öðrum – hvort sem það var að tína dún í æðarvarpinu á Mýrum, sinna handavinnu með heimilismönnum á elliheimilinu á Þingeyri eða hjálpa til á heimilum barnabarna sinna í Hveragerði og á Selfossi.

Mamma var alveg ótrúleg kona. Hún var alltaf til staðar fyrir mig og eyddi stórum hluta af lífi sínu í að berjast við að koma mér í gegnum lífið. Það var henni klárlega oft erfitt verkefni. Ég get ekki ímyndað mér hvernig hún fór að því að hafa mig, son sinn sem er fíkill í neyslu stærstan partinn af ævi minni.

En hún gafst ekki upp á mér, eins og maður sér svo oft hjá fólki sem var í minni stöðu. Þvert á móti, þegar sem verst gekk barðist hún fyrir því að ég fengi þá aðstoð sem ég þurfti, þótt það þýddi að hringja heim til forstjóra barnaverndarstofu um miðjar nætur til þess að krefjast þess að einhver meðferðarstöðin tæki mig inn. Svona var mamma, hún lét ekkert stoppa sig.

Það veitir mér mikla huggun að hún hafi kvatt þetta líf, búin að sjá mig loksins edrú í lengri tíma, og það leyndi sér ekki að hún var stolt af mér. Þótt hún hafi ekki sagt það beinum orðum sýndi hún það í verki. Þannig var mamma, hún lét verkin tala. Einhvern veginn tókst henni að ala upp í mér góð gildi og lífsreglur þó að ég hafi ekki oft verið meðtækilegur fyrir þeim.

Við vorum miklir vinir og gátum endalaust talað saman um lífið, tilveruna, pólitík og málefni líðandi stundar. Við vorum alls ekki alltaf sammála og gátum sko alveg rifist, en svo var það bara búið eftir einn kaffibolla. Aldrei nein eftirmál eða illindi.

Ég fer klárlega betur búinn út í lífið með þá vitneskju og þær lífsreglur sem hún kenndi mér. Elsku mamma, takk fyrir að hafa ekki gefist upp á mér, takk fyrir að hafa verið alltaf til staðar fyrir mig, sama hvað gekk á hjá mér. Takk fyrir öll góðu ráðin sem þú gafst mér, takk fyrir lífsreglurnar sem þú lagðir mér, takk fyrir alla trúna sem þú hafðir á mér þegar ég hafði hana ekki sjálfur, takk fyrir að hafa haldið í mér lífinu þegar ég hafði litla löngun til þess sjálfur. Takk fyrir allt saman elsku mamma.

Og ekki hafa áhyggjur af mér, ég er á góðum stað í lífinu og við bræðurnir hjálpumst að. Hafðu það gott í eftirlífinu, skilaðu kveðju til pabba og vonandi er langur tími þangað til við hittumst aftur.

Þú varst alltaf svo góð við mig,

ég fékk athygli þína óskipta,

þú lifðir fyrir mig,

hlustaðir á mig,

talaðir við mig,

leiðbeindir mér,

lékst við mig,

sýndir mér þolinmæði,

agaðir mig í kærleika,

sagðir mér sögur,

fræddir mig

og baðst með mér.

Þú varst alltaf svo nærgætin

og skilningsrík,

umhyggjusöm og hjartahlý.

Þú varst skjól mitt og varnarþing.

Við stóðum saman í blíðu og stríðu,

vorum sannir vinir.

Mér þótti svo undur vænt um þig,

elsku mamma mín.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Þinn sonur,

Halldór Þór (Dóri).

Við vorum svo heppin að hafa þig hjá okkur inni á heimilinu í fimm mánuði síðastliðinn vetur. Ég, Elín og krakkarnir erum þakklát fyrir þann tíma sem reyndist vera þínir síðustu mánuðir.

Hún mamma aðstoðaði okkur mikið og gerði líf okkar, sem oft er flókið, einfaldara. Hún tók á móti Svövu Dís og vinkonu hennar þegar skóladagurinn var búinn, gaf þeim að borða og oftar en ekki föndruðu þær eitthvað, bökuðu eða spiluðu. Hún hafði til kaffi og eldaði ofan í vinnuflokk í rúman mánuð á meðan þeir skiptu um þak á húsinu okkar. Þegar tími gafst til hljóp hún út og tíndi saman allt rusl sem féll til við framkvæmdina. Hún þvoði þvott og gekk frá, snyrti garðinn, mokaði snjó, blettaði veggi þar sem þess þurfti, eldaði kvöldmatinn og svo margt annað.

Á þessum fimm mánuðum sá ég mömmu í því hlutverki sem ég held að henni hafi liðið best í, þ.e. að hugsa um og aðstoða annað fólk. Eða eins og hún sagði sjálf „að gera eitthvert gagn“.

Mamma átti alls ekki auðvelt líf, hún missti móður sína aðeins 12 ára gömul, einhverjum árum seinna missti hún tvo frændur sína í slysi. Í meira en tvo áratugi barðist hún með kjafti og klóm við að halda bróður mínum á lífi og á hún mjög stóran þátt í að Dóri bróðir minn er á mjög góðum stað í dag. Hún fylgdi pabba í gegnum hans baráttu við krabbamein sem hafði að lokum sigur. Í allri þeirri streitu og stressi sem fylgdi þessu komst hún að því að hún var með leyndan hjartagalla og ekki löngu seinna fékk hún vægt heilablóðfall. Það er því óhætt að segja að hún mamma hafi ekki farið auðveldu leiðina í gegnum lífið enda hefði það ekki verið hennar stíll.

Þrátt fyrir allt sem gekk á var mamma alltaf til staðar og tilbúin að aðstoða mig og alla aðra eins og hún gat. Þeir voru t.a.m. ófáir drengirnir sem fengu að vera í kjallaraherberginu í Fífuselinu á meðan þeir biðu eftir að fá pláss í meðferð. Einnig hýsti hún ættingja og aðra sem vantaði húsnæði á meðan þau voru í námi í Reykjavík. Á hverju vori hljóp hún um æðarvarpið á Mýrum og tíndi dún og svona mætti lengi telja. Þegar ég lít til baka snerist líf hennar alveg frá því að ég man eftir mér meira og minna um að aðstoða ættingja, vini og annað samferðafólk.

Elsku mamma, takk fyrir allt sem þú kenndir mér, ég mun búa að því um ókomna tíð.

Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur Elínu, Svövu Dís og Vigni Kára.

Sigurður Vilberg Svavarsson.