Eyjólfur Jónsson fæddist á Akranesi 25. júlí 1941. Hann lést á Hrafnistu 26. maí 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Jón Arason, f. 1916, d. 1981, og Jórunn Eyjólfsdóttir, f. 1921, d. 2010. Systkini Eyjólfs eru Arndís, f. 1945, og Gunnar, f. 1951.

Eyjólfur giftist 5. ágúst 1961 Sigríði Sigurðardóttur, f. 21. júlí 1937, d. 21. september 2004. Börn þeirra eru: 1) Hjördís, f. 1961, börn hennar eru Ingþór og Hafdís. 2) Jón, f. 1964, synir hans eru Eyjólfur og Kristinn. 3) Anna, f. 1971, gift Magnúsi Þorsteinssyni, f. 1961, sonur þeirra er Þorsteinn. Barnabarnabörn Eyjólfs og Sigríðar eru sjö talsins.

Eyjólfur ólst fyrstu árin upp á Akranesi en fluttist svo með fjölskyldu sinni í Laugarnesið. Eyjólfur fór ungur maður til sjós á fiskveiðibátum, einnig starfaði hann hjá Mjólkursamsölunni þar sem hann kynntist eiginkonu sinni og vann hann þar og hjá Emmessís nær allan sinn starfsferil. Eyjólfur hafði mikinn áhuga á fótbolta og missti ekki af beinum útsendingum frá sínum fótboltaliðum en hann var heitur stuðningsmaður Skagamanna og Arsenal. Þau hjónin höfðu gaman af því að ferðast um Evrópu og til Kanaríeyja.

Útför Eyjólfs fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 4. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Eyfi bróðir var alltaf „stóri bróðir“ í mínum huga. Það voru 10 ár á milli okkar. Æskuminningarnar eru sterkastar, þú 16 ára og ég bara sex ára. Sérstaklega er mér minnisstætt hvað þú varst sterkur. Samt leyfðir þú mér að vinna þig í sjómanni.

Þú varst berserkur til vinnu; vinnan gekk fyrir öllu. Þú varst ekki nema 14 ára þegar þú skrökvaðir til um aldur hjá Oddi bússtjóra í gömlu Mjólkurstöðinni og sagðist vera 15 „alveg að verða 16“. Það gekk eftir. Hjá MS kynntist þú svo Siggu; „Siggu mágkonu“.

En hafið heillaði þig, enda kominn af sjómönnum í báðar ættir. Fyrst var það Sæfari frá Akranesi og síðan Neptúnus, togari frá Reykjavík. Á honum varstu í nokkur ár og sigldir m.a. til Þýskalands að selja aflann á mörkuðum þess tíma. Alltaf komstu með eitthvað skemmtilegt handa mér, sem ekki fékkst á Íslandi. Þá allt í einu komust strákarnir í Holtinu í kynni við nýjan fótbolta, „gatabolta“, en ekki „reimabolta“ eins og fengust í Hellas. Mikið var ég stoltur þegar ég hljóp út á róló með nýja boltann og fékk að vera allt í senn, fyrirliði, „stroffískytta“ og senter af því að ég átti boltann.

Leið þín lá svo aftur í land, en áfram í fiskinum. Þú varst bílstjóri og síðan verkstjóri hjá Einari ríka í Hraðfrystistöðinni. Þar unnum við saman, ég sem sumarstrákur og þú sem minn yfirmaður. En hugurinn leitaði nær Siggu, sem þá vann hjá MS. Lengst af varstu starfsmaður Emmessíss og endaðir svo ferilinn sem húsvörður MS á Bitruhálsinum.

Þótt mikið væri unnið brölluðum við samt margt saman. Við ræktuðum kartöflur, þurrkuðum og flokkuðum og gengum svo í hús og seldum. Arnarnesið var gjöfulast enda meira af aurum þar en víðast hvar. Við tókum við þorskanetum og „skárum af“ eins og það var kallað svo hægt væri að nýta teinana en henda netinu. Furðulegast var þó að tína ánamaðka og selja laxveiðimönnum. Móður okkar var ekkert sérstaklega skemmt að þurfa að tína maðkana í dós fyrir kaupendur þegar við vorum báðir í vinnu.

Þegar börnin ykkar þrjú, Dísa, Nonni og Anna, voru vaxin úr grasi fóruð þið Sigga að ferðast, fyrst til Lignano á Ítalíu með alla krakkana og síðan tvö. Þá var flogið til Lúx og síðan keyrt um byggðir Þýskalands. Uppáhaldsstaðurinn ykkar var við Titisee, virðulegt fjölskylduhótel. Þar var gist, oftast í íbúð 102. Aldrei að breyta því sem vel virkar. Næst á óskalista ferðalaga voru Kanaríeyjar. Þangað var farið ár eftir ár, stundum tvær ferðir á ári á meðan Sigga lifði. Eftir fráfall hennar hélst þú uppteknum hætti og fórst áfram til Kanarí.

Þegar heilsan gaf sig áttir þú bókaða ferð, sem ekki tókst að fara. Erfiðisvinna áratugum saman hafði sett á þig mark. Mjaðmaskipti, ekki bara einu sinni, heldur oft. Síðustu mánuðina varstu á Hrafnistu þar sem vel var hugsað um þig.

Kæri bróðir. Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú kenndir mér, einkum það er snýr að vinnu með höndunum. Nú hverfur þú til annarra heima og hittir Siggu þína aftur. Blessuð sé minning þín. Fjölskyldum Eyfa færi ég og fjölskylda mín samúðarkveðjur. Margs er að minnast, margs er að sakna.

Þinn litli bróðir,

Gunnar og
fjölskylda.