Sigurður Eiríkur Aðalsteinsson fæddist á Landspítalanum í Reykjavík 19. maí 1953. Hann lést á Umdæmissjúkrahúsinu í Neskaupstað 25. maí 2024 eftir skammvinn veikindi.
Foreldrar Sigurðar voru Aðalsteinn Ingólfur Eiríksson, f. 13. október 1925 í Hafnarfirði, d. 9. maí 2003, og Pálína María Guðmundsdóttir, f. á Flateyri við Reyðarfjörð 12. ágúst 1927, d. 14. nóvember 2016.
Systkini Sigurðar eru Þorvaldur, f. 20.8. 1950, maki Birna Guðmundsdóttir, f. 3.9. 1952, Kristín, f. 22.3. 1956, Hugrún, f. 24.9. 1959, maki Árni Guðmundsson, f. 3.8. 1954, Árdís Guðborg, f. 12.2. 1967, maki Karl Bóasson, f. 15.4. 1965, Sigríður Helga, f. 8.4. 1969, maki Kristján Bóasson, f. 26.1. 1967.
Sigurður kvæntist 26. desember 1982 Ernu Arnþórsdóttur frá Reyðarfirði, f. 15. mars 1954, dóttir hjónanna Sigríðar Eiríksdóttur, f. á Eskifirði 26. febrúar 1931, d. 14. desember 2017, og Arnþórs Þórólfssonar, f. á Reyðarfirði 14. apríl 1927, d. 12. desember 1999.
Þau Sigurður og Erna bjuggu sinn búskap á Reyðarfirði.
Börn þeirra eru: 1) Arnþór Ingi, f. 17. mars 1978, d. 26. júlí 1997. 2) Sigurður Örn, f. 8. júlí 1982, kona hans er Hulda Björk Haraldsdóttir, f. 12. apríl 1985, börn þeirra eru Rakel Lilja, f. 2. júní 2009, Amelía Dröfn, f. 22. júní 2011, Arnþór Ingi, f. 27. nóvember 2014, og Elma Júlía, f. 1. júní 2018.
Útförin fer fram í Reyðarfjarðarkirkju í dag, 4. júní 2024, klukkan 14. Streymt verður á facebooksíðu Reyðarfjarðarkirkju.
Elsku bróðir, mig langar að minnast þín í örfáum orðum.
Andlát þitt bar brátt að og ég er ekki búin að ná áttum ennþá.
Þar sem þú varst næstelstur en ég næstyngst af sex systkinum, 14 ára aldursmunur, þá man ég ekki mikið eftir þér heima í foreldrahúsum en þó aðeins. Þú fórst snemma á sjóinn og man ég vel þegar þú varst að koma heim, sérstaklega úr siglingunum, alltaf með eitthvað handa okkur yngstu systrum þínum. Það er margt sem kemur upp í hugann, efst situr þó hvað þú vildir alltaf allt fyrir mig gera.
Þú varst alltaf tilbúinn að veita aðstoð eða gera eitthvað fyrir mig ef það bara var í þínu valdi að geta það, þannig varstu.
Þar sem þú varst mikill fótboltaáhugamaður en ég ekki þá kom það fyrir, þótt ég reyndi nú að muna það, að ég hringdi í þig þegar þú varst að horfa á boltann og þá var símtalið stutt og ég sagði þér að ég hringdi seinna, þetta fór auðvitað svolítið eftir því hvaða leikur var.
Mikið sem mér þykir vænt um eftir að ég flutti frá Reyðarfirði þegar þið Erna kíktuð í heimsókn þegar þið voruð á ferðinni.
Siggi bróðir, mikið sem ég á eftir að sakna þín.
Erna, Siggi Örn og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur og stórt faðmlag til ykkar.
Þín systir,
Árdís.