Snorri Friðriksson fæddist 10. desember 1933. Hann lést 16. maí 2024.

Útför hans fór fram 28. maí 2024.

Elsku besti afi minn.

Ég kveð þig með söknuði og það er skrýtið til þess að hugsa að ég sjái þig ekki aftur í þessari jarðvist.

Þú varst svo hlýr og innilegur, knúsaðir mann og kreistir alltaf þegar maður kom til ykkar ömmu. Það rifjast upp margar dýrmætar minningar þegar hugurinn fer til baka, allir bryggjurúntarnir niður á Granda, heimsóknirnar í Kolaportið að kaupa flatkökur, nýjar kartöflur og harðfisk. Þegar ég gisti hjá ykkur ömmu á Þinghólsbrautinni og þú færðir mér og ömmu kaffi, te og ristað brauð í rúmið. Ferðin á Hofsós með ykkur ömmu og Snorra frænda.

Það var upplifun að velja sér morgunkorn í búrinu á Þinghólsbrautinni og þú komst úr siglingunum með alls konar framandi gotterí sem maður hafði aldrei séð eða smakkað áður.

Það eru svo ótal margar minningar sem maður getur yljað sér við og hugsað til þín með þakklæti í hjarta.

Ég sakna þín mikið elsku afi minn og ég trúi því að strákarnir þínir hafi tekið vel á móti þér á fallega staðnum sem þið eruð á núna.

Ég lofa að passa ömmu fyrir þig elsku afi og hugsa vel um hana.

Ég elska þig og takk fyrir allt!

Þín

Karólína.