Abbas Milani
Stanford | Ebrahim Raisi, forseti Írans, sem lést í þyrluslysi 19. maí, var óverulegur maður í ómerkilegu starfi. Völdin í Íran eru ekki hjá forsetanum heldur æðstaklerkinum Ali Khamenei og íranska byltingarvarðliðinu. Vígasveitinni sem í raun og veru stjórnar og stendur fyrir kúgunarstefnu íslamskra stjórnvalda landsins. Íranska byltingarvarðliðið hefur einnig efnahagslegt ægivald yfir öllu sem máli skiptir í hagkerfinu.
Fyrir utan að vera gagnslaus var Raisi alræmdur fyrir þátt sinn í fjöldaaftökum á meira en 4.000 pólitískum föngum árið 1988. Fyrir nokkrum árum, þegar smá opinskáa umræðu mátti þó finna um þennan smánarblett á sögu Írans, dirfðist Raisi að gefa það í skyn að hann ætti skilið að fá mannréttindaverðlaun fyrir að hreinsa heiminn af spillandi áhrifum þeirra sem hann dæmdi til að deyja. Og áhrifamikill ræðumaður við jarðarför Raisis „lofaði“ að morðæðið í „starfi níunda áratugarins“ myndi óhindrað halda áfram.
Fyrir innan við þremur árum var Raisi að nafninu til „kjörinn“ í forsetaembættið í handstýrðustu kosningum allra handstýrðra kosninga í sögu þessa íslamska lýðveldis. Með því að útrýma öllum öðrum raunhæfum umsækjendum var fátt eftir fyrir Khamenei annað en að skipa Raisi í stöðuna.
Fyrir utan nálægð við æðstaklerk og leiðtoga Írans, Ayatollah Ali Khamenei, er forsetaembættið í Íran valdalaust og holróma embætti. Það skiptir máli, því að arftakadraugurinn hefur fylgt írönskum stjórnmálum allt frá því að hinn hálfníræði Khamenei greindist með krabbamein.
Það er orðið nokkurs konar spurningaleikur í Íran að geta sér til um hverjum sé nú verið að ryðja braut til að taka við af Khamenei í kosningum og hvaða erfiða keppinaut sé verið að ryðja úr vegi.
Í ljósi þess að Raisi kleif metorðastigann úr minniháttar en þó morðóðum dómara, í yfirmann dómsmála og síðan í forsetaembættið, gerðu margir ráð fyrir að verið væri að gera hann kláran sem næsta æðstaklerk og leiðtoga. Nú þegar Raisi er allur tala sumir um arftakakreppu. Raunar hefur dauði hans hrundið af stað heilmikilli lögmætiskreppu fyrir stjórnina um rétta goggunarröð næsta arftaka.
Í ljósi stórfenglegs álits Khameneis á eigin vitsmunalegum ljóma og trú hans á að hann sé rödd Guðs á jörðinni, rödd sem hann gaf einu sinni til kynna að væri í raun predikun Allah, og í ljósi viðurkennds vitsmunaskorts Raisis, er erfitt að trúa því að Raisi hafi nokkurn tíma verið valinn kandídat. Í það minnsta varla í sjálfhverfri sýn Khameneis. Þrátt fyrir yfirgnæfandi vísbendingar um að valinn arftaki Khameneis sé einn af sonum hans, hinn dularfulli Mojtaba sem lengi hefur falið sig í skugganum, benda sumir sérfræðingar á Vesturlöndum á andúð Khameneis á því að völd gangi í erfðir sem vísbendingu um að hann vilji ekki að sonur hans taki við af honum.
En slík tilgáta gengur í berhögg við hegðun Khameneis og trúarkenningu sjía. Khamenei, sem með skipun eða lögum viðrar skoðanir á nánast öllum hliðum stjórnmála og stefnu, menningar og bókmennta, og sem stuðningsmenn hans hafa lýst yfir að séu Fasl-il-Khitab eða „endir umræðunnar“, gæti einfaldlega lýst því yfir að hans sonur sé ekki í framboði til að taka við af honum. Hann hefur ekkert slíkt gert. Þar að auki greinir Reuter frá því að „heimildir sem þekkja til málsins“ hafi sagt að sérfræðingaþingið, ráðgefandi stofnun sem hefur umsjón með æðsta leiðtoganum, hafi strikað út nafn Raisis af framboðslistanum fyrir sex mánuðum.
Sömuleiðis er það grundvallarkenning sjía-trúarinnar að Múhameð spámaður hafi smurt tengdason sinn, Ali, sem eftirmann sinn og að beinir karlkynsafkomendur sama Alis séu, sem ímamar, einu lögmætu höfðingjar hinna rétttrúuðu sjía. Uppgangur Khameneis sjálfs í hlutverk æðstaklerks fylgdi sömu hefð. Þó að hann skorti augljóslega eitthvað af stjórnarskrárbundnum skilyrðum fyrir hlutverkið var hann lýstur arftaki Ayatollahs Ruhollahs Khomeinis, stofnanda stjórnarhersins, í kjölfar óstaðfestrar yfirlýsingar þáverandi forseta, Alis Akbars Hashemis Rafsanjanis, næstvaldamesta mannsins á eftir Khomeini sem nýlega lést, um að einhver hefði heyrt Khomeini segja að Khamenei væri verðugur arftaki sinn.
Á þeim tíma kvað stjórnarskrá Írans á um að æðstiklerkur yrði að vera leiðandi ayatollah í sjíasamfélaginu. Khamenei var aðeins minniháttar klerkur. Að lokum, eftir að hann hafði verið skipaður í stöðuna, var stjórnarskránni breytt til að falla betur að lítilli hæfni Khameneis. Smám saman tók Khamenei, sumum af æðstu ayatollunum til skelfingar, á sig möttul ayatollahs. En Khamenei er enginn spámaður, né heldur er Íran í dag nokkuð í ætt við arabíska samfélagið fyrir 1.400 árum, og því er engin trygging fyrir því að Khamenei geti framfylgt áætlun sinni, eða, jafnvel þótt hann geri það, að Mojtaba geti siglt örkumla ríkisskútunni til stöðugleika.
Lögmætiskreppan heltekur stóran og vaxandi hluta íransks samfélags. Mótmælahreyfingin Konur, Líf, Frelsi er nýjasta birtingarmynd andstöðu við það sem margir Íranar telja að sé tímavillt, spillt, vanhæf og kvenhatandi ógnarstjórn einræðisherra í landinu. Áreiðanlegar kannanir, sumar framkvæmdar af stjórninni og aðrar af GAMAAN í Hollandi, benda til þess að innan við 20% íbúanna vilji halda sig við óbreytt stjórnkerfi.
Skýrari vísbending um þessa lögmætiskreppu var að þrátt fyrir fullyrðingar stjórnvalda syrgja fáir Íranar, innan og utan landsins, dauða Raisis. Á meðan fjöldi fólks í Íran, á samfélagsmiðlum og vítt og breitt um heiminn fagnaði dauða Raisis hörmuðu aðrir að hann hefði ekki lifað ekki nógu lengi til að verða dæmdur fyrir glæpi sína, og enn aðrir bentu á vanhæfni stjórnarinnar til að vernda lykilmenn sína.
Annað merki um innri kreppu stjórnarinnar er að enginn af þremur núlifandi fyrrverandi forsetum Írans fékk að taka þátt í jarðarförinni. Enn merkilegra er að allir fyrrverandi forsetar, nema Khamenei, sem var forseti undir stjórn Khomeinis, hafa annaðhvort dáið í útlegð, verið myrtir eða dáið við grunsamlegar aðstæður. Þeim sem enn eru á lífi hefur verið útskúfað, nánast sem óvinum ríkisins.
Á sama tíma er landið áfram þjakað af tveggja stafa verðbólgu og miklu atvinnuleysi. Verðmæti gjaldmiðilsins hríðfellur og menntafólk, fjármagn og mikill fjöldi faglærðra er að yfirgefa landið. Stór hluti alþjóðasamfélagsins, annaðhvort óupplýstur um Íran eða, sem er líklegra, einblínir á skammtímaávinninginn af því að koma til móts við stjórnina með því að fylgja diplómatískum borðsiðum, hefur vottað þjóðinni samúð vegna fráfalls manns sem Ayatollah Montazeri, sem fram til ársins 1988 var tilnefndur arftaki Khomeinis, kallaði „glæpamann“.
Stjórnin er að herða einræðisvald sitt og gefur út ógnvekjandi viðvaranir um getu sína til að framleiða kjarnavopn. Þegar Khamenei yfirgefur vettvanginn verður byltingarvörðurinn einráður valdamiðlari og Mojtaba líklegastur sem æðsti leiðtogi þeirra.
Það er kaldhæðnislegt að sumir talsmenn Mojtaba, sem augljóslega eru meðvitaðir um eðli kreppunnar, gefa í skyn að hann verði umbótasinni í ætt við Mohammed bin Salman krónprins Sádi-Arabíu, fús til og fær um að draga landið aftur frá brún hyldýpisins. Þó að það sé ólíklegt, þá er seigla íranskra kvenna í baráttu sinni fyrir lýðræði ljósgeisli. Til skamms tíma virðist óstöðugleiki þó óumflýjanlegur og eins og vanalega mun það sem gerist í Íran ekki eingöngu gerast þar.
Höfundur er sagnfræðingur og framkvæmdastjóri Iranian Studies Program við Stanford-háskóla og vinnur að rannsóknarverkefnum við Hoover-stofnunina. © Project Syndicate