Sjómannaskólinn Félag skipstjórnarmanna telur að siglinganám hafi orðið undir og sé afskipt í Tækniskólanum.
Sjómannaskólinn Félag skipstjórnarmanna telur að siglinganám hafi orðið undir og sé afskipt í Tækniskólanum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óskar Bergsson oskar@mbl.is Félag skipstjórnarmanna gagnrýnir hvernig haldið er utan um skipstjórnarnám í Tækniskólanum og leggur til að nú þegar verði hafinn undirbúningur að nýjum skóla sem yrði mennta- og þekkingarsetur sjávarútvegs á Íslandi.

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Félag skipstjórnarmanna gagnrýnir hvernig haldið er utan um skipstjórnarnám í Tækniskólanum og leggur til að nú þegar verði hafinn undirbúningur að nýjum skóla sem yrði mennta- og þekkingarsetur sjávarútvegs á Íslandi.

„Okkur hafa borist upplýsingar frá nemendum, kennurum og frá útgerðum, að skipstjórnarmenntun hafi hrakað undir stjórn Tækniskólans. Stýrimannaskólinn og Vélskólinn voru sjálfstæðir skólar í 110 ár þar til þeir voru sameinaðir Tækniskólanum ásamt átta öðrum skólum. Þróunin hefur orðið sú að Stýrimannaskólinn hefur orðið undir og mönnum finnst að hann sé afskiptur. Sem dæmi má nefna að stærstur hluti gjafa sem hagsmunasamtök sjómanna og vinir hafa fært skólanum er horfinn úr húsinu í geymslur úti í bæ og lítið minnir á upprunann,“ segir Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna, við Morgunblaðið.

Gjafir til skólans í geymslum

Hann segir námið hafa þróast meira út í fjarnám og það vanti utanumhald og stýringu. Um sé að ræða alþjóðleg réttindi og því mikilvægt að skólinn uppfylli þær kröfur sem því fylgi. Skólanum hafi lengst af verið stýrt af skipstjórnarmönnum sem voru miklir áhugamenn um framgang skólans.

„Það er kannski ekkert óeðlilegt þegar stjórnendur eru með margt undir og þurfa að stýra mörgum skólum að erfitt sé að gera þeim jafn hátt undir höfði. Sumir skólar eru kannski erfiðari en aðrir og nemendahópurinn mismunandi. Það er okkar skoðun að þessu námi væri betur fyrir komið undir einu og sama þaki. Í skólanum okkar sem stéttinni var gefinn á sjómannadaginn 4. júní 1944.“

Árni bendir á að skólastjórinn sé sá sami og í Vélskólanum og fyrir málmtækninámið og flugvirkjanámið. Hann vill ekki kasta rýrð á Tækniskólann heldur benda á að málið snúist um að efla nám í sjávarútvegi. Náminu hafi hrakað og það skorti töluvert á faglegar áherslur í kennslunni.

Leggja áherslu á verknám

„Við leggjum til breytingar. Í stað þess að skólinn þurfi að eiga tæki og tól þá fari námið meira fram undir handleiðslu reyndra skipstjórnarmanna um borð í skipum þar sem öll nýjustu tæki eru til. Í nágrannalöndunum er verknámið mun meira notað en hér. Þetta er svokallað „kadettanám“, þar sem nemendur fara á hverju ári til sjós og það er hluti af náminu.“

Hann telur mikilvægt að þátttakendur í sjávarútvegi og menntastofnanir komi að borðinu með opnum huga.

„Markmiðið er að sækja fram, efla menntun, gera hana skilvirkari og betri. Nám í skipstjórn og mögulega vélstjórn þarf að skilja frá Tækniskólanum því reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að það á ekki heima þar. Það er fullreynt. Skynsamlegra er að efla nám í greinum sjávarútvegs og siglinga í einum og sama skólanum,“ segir Árni.

Höf.: Óskar Bergsson