Hefð hefur skapast fyrir því á sjómannadeginum að heiðra sjómenn. Sjómannadagsráð ákvað að þessu sinni að heiðra forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, og þakka honum sérstaklega fyrir hlýhug í garð sjómanna fyrir að vera hollvinur sjómannastéttarinnar.
Að sögn Aríels Péturssonar, formanns Sjómannadagsráðs, hefur Guðni tekið þátt í öllum viðburðum sjómannadagsins bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Þannig hringdi Guðni sjálfur til Grindavíkur fyrir nokkrum árum til að spyrja hvort hann mætti vera með á Sjóaranum síkáta. Þá hefur hann gert þorskastríðunum ítarleg skil í skrifum sínum. Síðast en ekki síst hefur hann siglt með varðskipum Gæslunnar. Fannst Sjómannadagsráði mikill heiður að því að Guðni skyldi þekkjast þetta boð, að vera sæmdur heiðursmerki Sjómannadagsráðs fyrir framlag sitt.
Af þessu tilefni var honum afhent sjómannadagsmerki og styttan Horft til hafs. sigridurh@mbl.is