Samkeppni Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Samkeppni Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins. — Morgunblaðið/Ómar
Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur ógilt kaup Skeljungs á landbúnaðarfyrirtækinu Búvís. Búvís, sem var stofnað árið 2006, er með höfuðstöðvar á Akureyri og sérhæfir sig í sölu og þjónustu búvéla og rekstrarvara til bænda svo sem áburði, rúlluplasti og rúlluneti

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur ógilt kaup Skeljungs á landbúnaðarfyrirtækinu Búvís.

Búvís, sem var stofnað árið 2006, er með höfuðstöðvar á Akureyri og sérhæfir sig í sölu og þjónustu búvéla og rekstrarvara til bænda svo sem áburði, rúlluplasti og rúlluneti.

Í tilkynningu á vef SKE kemur fram stofnunin meti það sem svo að Búvís sé mikilvægur keppinautur á markaði fyrir innflutning og sölu á áburði og að samruninn hefði að öllu óbreyttu haft umtalsverð skaðleg áhrif á þeim markaði. Því sé óhjákvæmilegt að ógilda samrunann. Fram kemur að Búvís hafi á sínum tíma verið stofnað sem andsvar við verulegum verðhækkunum á áburði og skorti á samkeppni. Þá sýni umsagnir bænda, sem SKE aflaði, að Búvís hafi breytt samkeppnisaðstæðum til hins betra, haldið verði niðri og bætt þjónustu og viðskiptakjör til bænda. Því hafi verið hætta á því að aðstæður á markaði færu í fyrra horf ef samruninn hefði gengið eftir.

Tilkynnt var um kaup Skeljungs á Búvís í ágúst sl. Skeljungur, sem er sem kunnugt er í eigu SKEL fjárfestingafélags, flytur einnig inn áburð en í ákvörðun SKE er því helst borið við að Búvís og Skeljungur séu keppinautar við sölu áburðar. Þá metur SKE það sem svo að ef yfirtaka Skeljungs á Búvís hefði náð fram að ganga hefði burðugum keppinautum fækkað úr fjórum í þrjá. SKE tekur einnig fram að samrunaaðilar hafi ekki óskað eftir sáttaviðræðum né lagt fram tillögur að mögulegum skilyrðum. Þá hafa þeir ekki nýtt heimild samkeppnislaga til þess óska framlengingar á tímafrestum í málinu.