Framboð Nigel Farage tilkynnti í gær að hann myndi bjóða sig fram.
Framboð Nigel Farage tilkynnti í gær að hann myndi bjóða sig fram.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Keir Starmer, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hét því í gær að ríkisstjórn undir sinni forystu myndi varðveita kjarnorkuvopnabúr landsins, auk þess sem Bretar myndu smíða fjóra kjarnorkukafbáta til viðbótar við þá sem nú þegar eru í breska flotanum

Keir Starmer, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hét því í gær að ríkisstjórn undir sinni forystu myndi varðveita kjarnorkuvopnabúr landsins, auk þess sem Bretar myndu smíða fjóra kjarnorkukafbáta til viðbótar við þá sem nú þegar eru í breska flotanum.

Starmer sagði á sérstökum blaðamannafundi að Verkamannaflokkurinn væri nú sá flokkur sem myndi verja þjóðaröryggi Breta. Voru orð hans túlkuð sem tilraun flokksforystunnar til þess að færa sig fjær Jeremy Corbyn, fyrrverandi leiðtoga Verkamannaflokksins, en stefna hans í varnarmálum þótti vera einn helsti veikleiki flokksins í kosningunum 2019.

Starmer hét því jafnframt að Verkamannaflokkurinn myndi auka útgjöld Breta til varnarmála upp í 2,5% af þjóðarframleiðslu Breta, en Rishi Sunak forsætisráðherra hefur einnig heitið því að það takmark muni nást fyrir árið 2030.

Hann gagnrýndi jafnframt Íhaldsflokkinn, sem hefur verið við völd frá árinu 2010, og sagði að ríkisstjórnin hefði skorið herafla landsins svo mjög niður, að breski herinn hefði ekki verið fámennari frá því á tímum Napóleons. Sagði Starmer að Bretar yrðu að vera „klárir í slaginn“.

Þá tók Starmer sérstaklega fram að hann myndi „ýta á hnappinn“ ef þörf krefði, en sagði jafnframt að fælingarmáttur kjarnorkuvopna fælist m.a. í því að hafa ákveðna óvissu um það hvenær þær aðstæður myndu koma upp.

Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins UKIP, greindi frá því síðar um daginn að hann hygðist bjóða sig fram í þingkosningunum 4. júlí fyrir breska Umbótaflokkinn, sem talinn er yst til hægri í breskum stjórnmálum. Hafði Farage áður heitið því að hann myndi ekki fara í framboð.