[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þátttaka í nýafstöðnum forsetakosningum var um 80,8% sem er sú mesta frá kjöri Ólafs Ragnard Grímssonar árið 1996. Þátttakan var betri nú en árið 2016 þegar Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn. Birgir Guðmundsson, doktor í stjórnmála- og…

Sveinn Valfells

sveinnv@mbl.is

Þátttaka í nýafstöðnum forsetakosningum var um 80,8% sem er sú mesta frá kjöri Ólafs Ragnard Grímssonar árið 1996. Þátttakan var betri nú en árið 2016 þegar Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn.

Birgir Guðmundsson, doktor í stjórnmála- og fjölmiðlafræðum við Háskólann á Akureyri, segir kjörsóknina endurspegla það að raunveruleg samkeppni hafi verið um embættið.

„Þar sem ekki var um endurkjör að ræða er nokkuð augljóst að áhugi manna er mun meiri, þar sem kjósendur búast almennt við því að sitjandi forseti nái endurkjöri,“ segir Birgir í samtali við Morgunblaðið.

Breið flóra frambjóðenda bjóði jafnframt upp á marga valkosti þannig að kjósendur ættu að geta fundið einhvern við sitt hæfi, segir Birgir.

Ef þátttakan nú er borin saman við kjörsókn í þingkosningum síðastliðinna ára er hún nokkuð svipuð. Kjörsókn í þingkosningunum árið 2021 var um 80,1%.

Auðveldara að taka afstöðu

Birgir nefnir að þar sem um persónukosningar sé að ræða séu kjósendur mögulega líklegri til þess að mynda sér skoðun.

Kosningarnar kalli ekki á að fólk setji sig jafn vel inn í einstök mál með sama hætti og í alþingiskosningum. „Kosningarnar byggjast því frekar á tilfinningu og hvað kjósendum raunverulega finnst,“ bætir Birgir við.

Hann telur því líklegra að ímynd frambjóðenda á samfélagsmiðlum skipti máli til þess að ná til kjósenda, og þá sérstaklega ungs fólks. Frambjóðendur geti því komið sinni persónu á framfæri með aukinni áherslu á skemmtanagildi frekar en stefnumál.

„Þó er alltaf sá hópur sem ekki tekur þátt. Það er ekki hægt að ná til allra og áhugi hefur að hluta til minnkað á kosningum,“ segir Birgir.

„Sumir kjósendur eru því ekki þátttakendur í almennri umræðu með sama hætti og áður og beina einfaldlega áhuga sínum annað.“

Höf.: Sveinn Valfells