Samband íslenskra sveitarfélaga gagnrýnir frumvarp innviðaráðherra um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og hvernig staðið var að gerð þess í umsögn til Alþingis. „Tíma stjórnarmanna og starfsmanns sambandsins var sóað í sýndarsamráð þar sem ekkert tillit var tekið til athugasemda eða leiða til að sætta mismunandi sjónarmið,“ segir í umsögn sambandsins.
Í frumvarpinu er kveðið á um árlegt framlag úr ríkissjóði á árunum 2024-2027 sem Jöfnunarsjóður úthluti til sveitarfélaga sem bjóða nemendum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Er það byggt á sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Sambands ísl. sveitarfélaga vegna kjarasamninganna. Í umsögninni er minnt á að þar sagði að ríki og sveitarfélög myndu útfæra þetta í sameiningu fyrir lok maí 2024. Annað hefur komið á daginn.
„Eftir töluverða eftirfylgni fékk sambandið það í gegn að settur yrði á fót starfshópur til að útfæra verkefnið og tilnefndi sambandið tvo fulltrúa úr stjórn og einn starfsmann til verksins enda einlægur vilji hjá sambandinu til að reyna að finna lausn sem væri ásættanleg fyrir sem flesta. Frá ríkinu kom einn aðili úr innviðaráðuneytinu. Frumvarpið er hins vegar samið af aðila sem sat engan fund og tók ekkert tillit til vinnu hópsins,“ segir í umsögninni.
Eftir yfirlestur gerði sambandið ýmsar athugasemdir við frumvarpið en segir skemmst frá því að segja að ekkert hafi verið komið til móts við þær. Þvert á móti hafi verið gengið lengra og upphæðin sem ríkið ætli að leggja til verkefnisins verið tekin út úr frumvarpinu að kröfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, með þeim rökum að hún ætti að koma á fjárlögum hvers árs.
„Verulegar áhyggjur eru af því að koma eigi kostnaði vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða smátt og smátt yfir á sveitarfélögin en gagnrýni sveitarfélaganna hefur að mestu einmitt snúist um það. Frumvarpið gefur heimild til ríkisins til að ákveða framlag ríkisins árlega í fjárlögum,“ segir m.a. í umsögninni.
Leggst sambandið gegn því að frumvarpið verði samþykkt í óbreyttri mynd. omfr@mbl.is