Belgorod Þessi mynd var sögð sýna eftirleik árásar Úkraínumanna innan landamæra Rússlands.
Belgorod Þessi mynd var sögð sýna eftirleik árásar Úkraínumanna innan landamæra Rússlands. — Ljósmynd/Telegram
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Sergei Rjabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, varaði við því í gær að Bandaríkjamenn myndu þurfa að þola „banvænar afleiðingar“ ef þeir heimiluðu Úkraínumönnum að beita bandarískum vopnum innan landamæra Rússlands.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Sergei Rjabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, varaði við því í gær að Bandaríkjamenn myndu þurfa að þola „banvænar afleiðingar“ ef þeir heimiluðu Úkraínumönnum að beita bandarískum vopnum innan landamæra Rússlands.

Greint var frá því fyrir helgi að bandarísk stjórnvöld hefðu veitt Úkraínuher takmarkað leyfi til þess að bregðast við árásum Rússahers á sig með árásum innan landamæra Rússlands, og bárust óstaðfestar fregnir á sunnudaginn um að Úkraínumenn hefðu beitt HIMARS-eldflaugakerfinu til þess að eyða einu af loftvarnarkerfum Rússa í nágrenni við borgina Belgorod. Birtu rússneskir herbloggarar ljósmyndir á samfélagsmiðlum í gær, sem sýndu brunnin farartæki og þykkan reyk, og áttu þær að sýna eftirleik árásarinnar.

Rjabkov sagði í gær að Bandaríkjamenn þyrftu að taka átökin alvarlega og forðast að „misreikna sig“. „Af ókunnum ástæðum vanmeta þeir alvöru svarsins, sem þeir kunna að fá.“ Vísaði hann m.a. í orð Pútíns Rússlandsforseta, sem sagði um helgina að vesturveldin myndu bera ábyrgð á því ef Úkraína réðist inn í Rússland, þar sem slík árás væri ekki möguleg án aðstoðar þeirra.

Reyna að vega að ráðstefnunni

Dmítró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði í gær að Rússar væru að reyna að fæla önnur ríki frá því að sækja friðarráðstefnu, sem úkraínsk stjórnvöld standa fyrir í Sviss 15. júní nk. Væru Rússar að reyna að draga úr mikilvægi ráðstefnunnar, og hefðu þeir m.a. hvatt þau ríki sem væru staðráðin í að sækja hana til að senda lágt setta embættismenn frekar en kjörna fulltrúa.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði á sunnudaginn að Kínverjar hefðu einnig ákveðið að beita sér í þágu Rússlands og sakaði hann kínversk stjórnvöld um að hafa þrýst á önnur ríki um að senda ekki fulltrúa sína til Sviss. Kínversk stjórnvöld neituðu ásökunum Selenskís í gær, og sögðust ekki hafa beitt neitt ríki þrýstingi í þessa veru. Þá væri stefna Kínverja bæði „opin og gagnsæ“.

Bandaríkjastjórn tilkynnti svo í gær að varaforseti Bandaríkjanna, Kamala Harris, myndi sækja ráðstefnuna, en Joe Biden Bandaríkjaforseti hafði áður lofað sér á fjáröflunarkvöldverð í Kaliforníu fyrir forsetakosningarnar í nóvember sem leikarinn George Clooney stendur fyrir. Jake Sullivan þjóðaröryggisráðgjafi mun einnig sækja ráðstefnuna.

Lavrov til Gíneu

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hóf í gær heimsókn til nokkurra Afríkuríkja, en Rússar hafa reynt að auka ítök sín í álfunni undanfarin misseri. Hófst ferðalag Lavrovs í Gíneu, þar sem hann fundaði með Mamady Doumbouya, yfirmanni herforingjastjórnarinnar sem rændi völdum í landinu árið 2021. Sagði Lavrov Rússa áhugasama um aukin viðskipti og varnarsamstarf við Gíneu á komandi árum.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson