Frjálsar íþróttir virðast blessunarlega vera aftur á uppleið á Íslandi. Átta Íslendingar taka þátt á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Róm 7.-12. júní, sem er mesti fjöldi síðan árið 1958. Athygli vekur að sjö kastarar eru í hópnum en greinilegt er að vakning er í kastgreinum

Haraldur

Hróðmarsson

haraldurarni@mbl.is

Frjálsar íþróttir virðast blessunarlega vera aftur á uppleið á Íslandi.

Átta Íslendingar taka þátt á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Róm 7.-12. júní, sem er mesti fjöldi síðan árið 1958.

Athygli vekur að sjö kastarar eru í hópnum en greinilegt er að vakning er í kastgreinum.

Daníel Ingi Egilsson langstökkvari sker sig úr, enda ekki í kastgrein, en hann setti glæsilegt Íslandsmet á dögunum og sló 30 ára gamalt met goðsagnarinnar Jóns Arnars Magnússonar.

Við eigum tvo spjótkastara á háu stigi, þá Sindra Hrafn Guðmundsson og Dagbjart Daða Jónsson, en Sindri Hrafn gæti tryggt sér farseðil á Ólympíuleikana ef vel tekst til á EM.

Sleggjukastararnir Elísabet Rut Rúnarsdóttir, Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir og Hilmar Örn Jónsson fara einnig til Rómar en Elísabet og Guðrún Karítas hafa báðar sett Íslandsmet á árinu og eru í harðri samkeppni. Lengsta kast Hilmars Arnar á árinu er 75,79 metrar en hann á Íslandsmetið, 77,10 metra.

Síðast en ekki síst vil ég nefna kúluvarparann Ernu Sóleyju Gunnarsdóttur og kringlukastarann Guðna Val Guðnason sem eru bæði Íslandsmethafar í sínum greinum.

Það má sannarlega hrósa félögunum og frjálsíþróttasambandinu fyrir vel unnin störf en sambandið er fjársvelt eins og öll íþróttahreyfingin.

Ég vona að við sjáum íslenskt frjálsíþróttafólk á Ólympíuleikunum í sumar og á næstu árum. Saga Íslands í frjálsum íþróttum er löng og farsæl og það er augljóslega vor í lofti.