Klútur Halla Tómasdóttir með fallegan klút.
Klútur Halla Tómasdóttir með fallegan klút. — Morgunblaðið/Kristinn
Þá er teitinni lokið, búið að kjósa forseta og fólk getur farið að tala um eitthvað annað í heitum pottum og grillveislum. Halla Tómasdóttir tekur við af Guðna og klútar seljast sem heitar lummur. Er það vel því klútar eru fallegir þótt þeir veiti litla hlýju

Helgi Snær Sigurðsson

Þá er teitinni lokið, búið að kjósa forseta og fólk getur farið að tala um eitthvað annað í heitum pottum og grillveislum. Halla Tómasdóttir tekur við af Guðna og klútar seljast sem heitar lummur. Er það vel því klútar eru fallegir þótt þeir veiti litla hlýju. Halla er stundum með klút, líkt og margar konur aðrar, sem ætti ekki að vera í frásögur færandi. En einhverra hluta vegna hafa klútar Höllu vakið athygli og undir lok kosningabaráttunnar fóru stuðningsmenn hennar að bera klúta, óháð kyni, sem var gaman að sjá.

En hvaða máli skiptir þetta? Ekki neinu en þetta er krydd í tilveruna. Og hvað með karlana? Þeir hafa allir verið með sín hálsbindi í kosningabaráttunni nema Jón Gnarr sem kýs að þrengja ekki að hálsi sínum og hefur auk þess verið í fallegum og litríkum fötum. Hinir karlarnir hafa ekki roð við Jóni og eru öllu ófrumlegri, flestir með sín karlalegu bindi.

Grýlurnar, ein svalasta hljómsveit Íslandssögunnar, veltu fyrir sér á plötunni Mávastellinu frá árinu 1983 hvað gæti gerst ef öll þau bindi færu í hnút sem eru tekin út og komust að þeirri niðurstöðu að þá færi allt í hnút. „Hefur þú séð hárið sem er bak við bindishnútinn?“ spurðu Grýlurnar. Er kominn tími til að hleypa því út? Ég segi já.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson