Tungudalur Halldór V. Magnússon framkvæmdastjóri veitusviðs, Elías orkubússtjóri, Sölvi R. Sólbergsson framkvæmdastjóri orkusviðs og Elena Dís Víðisdóttir verkefnastjóri á orkusviði kampakát yfir niðurstöðunni.
Tungudalur Halldór V. Magnússon framkvæmdastjóri veitusviðs, Elías orkubússtjóri, Sölvi R. Sólbergsson framkvæmdastjóri orkusviðs og Elena Dís Víðisdóttir verkefnastjóri á orkusviði kampakát yfir niðurstöðunni. — Ljósmynd/ov.is
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristján Jónsson kris@mbl.is Á dögunum greindi Orkubú Vestfjarða frá því að fundist hefði heitt vatn eftir borun í Tungudal í Skutulsfirði. Yfirleitt hefur verið litið á Vestfirði sem kalt svæði í gegnum tíðina þótt þar sé jarðhiti ekki óþekktur, til að mynda í Reykjanesi í Ísafjarðardjúpi og á Reykhólum þar sem rekin er jarðhitaveita.

Fréttaskýring

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Á dögunum greindi Orkubú Vestfjarða frá því að fundist hefði heitt vatn eftir borun í Tungudal í Skutulsfirði. Yfirleitt hefur verið litið á Vestfirði sem kalt svæði í gegnum tíðina þótt þar sé jarðhiti ekki óþekktur, til að mynda í Reykjanesi í Ísafjarðardjúpi og á Reykhólum þar sem rekin er jarðhitaveita.

Má því segja að um óvænta ánægju sé að ræða fyrir Vestfirðinga en frekari rannsóknir munu leiða í ljós hvort magnið verði nægilegt til að nýta jarðhitann á hagkvæman hátt fyrir byggðina á Ísafirði.

Leit hófst árið 1963

„Þetta eru mjög stór tíðindi fyrir jarðhitaleit á Vestfjörðum vegna þess að leitað hefur verið mjög víða á Vestfjörðum og á Ísafirði hefur verið leitað frá árinu 1963. Eftir 61 ár fannst 58 gráða heitt vatn en áður hafði fundist vatn í kringum 30 gráður. Það eru stór tíðindi því vatnshitinn er nálægt því sem dugir beint inn á hitaveitu,“ segir Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestjarða.

„Miðað við þetta hitastig má alveg reikna með því að við þurfum að nota varmadælu til að nýta þetta en við erum að freista þess að sjá hvort 65 gráða heitt vatn finnist. Það er auðvitað spennandi tilhugsun en einnig spurningin um magnið. Borinn var tekinn upp í framhaldinu og farið í að rýmka holuna. Sett í hana stálfóðring og holan gerð tilbúin sem vinnsluhola. Stálfóðring fer niður á tæpa 300 metra og kemur í veg fyrir að kaldar sprænur fari inn í holuna enda viljum við hafa hana eins heita og hægt er.“

Bora allt að 700 metra niður

Eftir rannsóknirnar í gegnum tíðina beindust böndin að Tungudal. Þar töldu sérfræðingar að finna mætti heitt vatn þótt ekki væri vitað hvort það væri nógu heitt til að koma að gagni eða magnið nægilega mikið. Næsta skref er að bora dýpra.

„Borað var með rannsóknarbor og menn voru vongóðir um að jarðhiti væri í holunni. Það hefur sýnt sig að þegar menn bora neðar er vaxandi hiti. Í þessu tilfelli hittum við á vatnsæð í 482 metrum og hún er 58 gráða heit. Næsta skref í málinu er að bora áfram og fara niður fyrir þessa 480 metra, líklega 600-700 metra. Verður það gert til að kanna hvort neðar sé meira innstreymi í holuna. Þá kemur endanlega í ljós hvað þessi hola gefur í magni og hvert endanlegt hitastig er. Þá má gera sér væntingar um að vatnið hitni aðeins eftir því sem neðar dregur en við vitum það ekki,“ segir Elías og vinnan heldur áfram.

Ánægja og eftirvænting

Spurður um viðbrögðin við þessum tíðindum segir hann þau hafa verið talsverð. „Í nærumhverfinu hafa viðbrögðin verið mjög jákvæð og reyndar víðar. Fólk er himinlifandi og vonandi eru væntingarnar ekki of miklar en það fylgir því þegar um góðar fréttir er að ræða. Ég hef einungis lýst staðreyndum og við förum ekki fram úr okkur. Borunin heldur áfram og við sjáum hvað kemur út úr því.“

Þegar niðurstöður um afköst holunnar liggja fyrir fer í hönd valkostagreining á búnaði, hönnunarvinna, útreikningur á hagkvæmni og áætlanagerð um mögulegan framgang verkefnisins. Mikil framþróun mun hafa orðið í nýtingu á heitu vatni sem er innan við 50-60 gráða heitt.

Jarðhitaleit

Farið í átak árið 2018

Orkubúið hefur unnið að jarðhitaleitinni ásamt Íslenskum orkurannsóknum (Ísor). Einnig var borað á þremur öðrum stöðum í Tungudal en forsaga málsins er sú að farið var í átak.

„Ákveðið var að fara í leitarátak árið 2018 og við fengum Ísor til að búa til áætlun um hvar og hvernig við ættum að leita. Við sáum einfaldlega í hvað stefndi varðandi rekstur á rafkyntum hitaveitum. Þær eiga í miklum rekstrarvanda með hækkandi raforkuverði og eru illa samkeppnisfærar. Við höfum leitað leiða til að koma þeim yfir í jarðvarma ef hægt er. Við höfum einnig leitað í grennd við rafkyntar hitaveitur í Bolungarvík, Súgandafirði, Önundarfirði og Patreksfirði. Á Patreksfirði er búið að finna 25 gráða heitt vatn og við höldum að með varmadælu gæti það dugað fyrir núverandi hitaveitu en myndum gjarnan vilja finna aðeins meira,“ segir Elías.

Höf.: Kristján Jónsson