Matthías Matthíasson fæddist í Arnardal 8. desember 1935. Hann lést á Vífilsstöðum 22. maí 2024.

Foreldrar hans voru Matthías Berg Guðmundsson sjómaður og Halldóra Friðgerður Katarínusdóttir.

Systkini Matthíasar voru Guðríður Jóhanna, Sigríður Guðný, Guðmundur, Katarínus Halldór, Rannveig og drengur Matthíasson. Öll eru nú látin.

Eiginkona hans var Jónína Kristín Jensdóttir, f. 31. maí 1940, d. 22. janúar 2024. Þau giftust þann 29. desember 1962. Foreldrar hennar voru Jens Guðmundsson og Aðalbjörg Aðalsteinsdóttir.

Börn Jónínu og Matthíasar eru: 1) Kristín Aðalbjörg, f. 10. ágúst 1959. 2) Halldóra Matthildur, f. 3. janúar 1966, gift Karel Guðmundi Halldórssyni, börn þeirra eru: Kristín Ísabella, f. 1993, í sambúð með Guðmundi Gunnari Sveinssyni og barn þeirra er Elísabet Embla, f. 2021, Matthías Örn, f. 1998, Kolfinna Ýr, f. 1999, sambýlismaður hennar er Davíð Arnar Ágústsson, Karel Halldór, f. 2006. 3) Jens, f. 27. júlí 1971, kvæntur Dagnýju Ásgeirsdóttur, börn þeirra eru Ásgeir Óli, f. 2005, og Benedikt Óliver, f. 2009. 4) Friðrik Guðfinnur, f. 4. maí 1974, börn hans og fyrrverandi eiginkonu eru Helena Sólveig, f. 2001, Brynjar Máni, f. 2005, og Matthías Björgvin, f. 2010. 5) Herdís Ágústa, f. 29. maí 1977, sambýlismaður hennar er Ragnar Stefánsson, börn hennar og fyrrverandi eiginmanns eru Kristófer Ingi, f. 1999, Jakob Fannar, f. 2001, og Aðalbjörg Emma, f. 2005. Börn Ragnars eru Stefán Sindri, Hera Rún og Arnór.

Matthías ólst upp í Arnardal. Hann hóf störf ungur og flutti snemma að heiman. Hann vann á sjó og var til dæmis fyrsti vélstjóri á Gullfaxa 1954 og hjónin kynntust er hann var að læra rennismíði á Þingeyri. Þau hófu búskap sinn á Þingeyri og á meðan hann var við nám þar vann hann einnig sem leigubílstjóri og sýningarstjóri í Þingeyrarbíói. Hann lauk sveinsprófi í rennismíði 1959. Þau fluttu til Reykjavíkur árið 1960 og bjuggu þar um stutta hríð en fluttu fljótlega í Kópavog og bjuggu þar alla tíð síðan, í Skólagerði, á Ásbraut, Kársnesbraut og nú síðast í Boðaþingi.

Eftir að þau fluttu í höfuðborgina vann hann til dæmis hjá Handriðasmíði Bjössa og Dóra og hjá Borgarsmiðjunni. Aðalvinnustaður Matthíasar um ævina var síðan Vatnsveita Kópavogsbæjar. Hann vann þar í fjöldamörg ár með smá stoppi þegar hann breytti til og fór að vinna við það sem hann lærði og var rennismiður hjá Vegagerðinni 1988-1990 en hann sneri svo aftur til Vatnsveitunnar og var þar allt til starfsloka.

Síðustu árin nutu hjónin þess að búa í Boðaþingi, fá barnabörnin í heimsókn og þá hafði barnabarnabarn bæst í hópinn sem þau sáu ekki sólina fyrir.

Heilsunni hafði hrakað nokkuð síðasta árið og helgina fyrir útför eiginkonu sinnar lenti Matthías á sjúkrahúsi, eftir það fór hann aldrei aftur heim í Boðaþing.

Útför hans fer fram frá Lindakirkju í dag, 4. júní 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi, tengdó og afi verður borinn til grafar í dag, við minnumst nú alls hins góða sem hann kenndi okkur og rifjum upp góðar og ljúfsárar minningar af góðum manni sem vildi alltaf öllum vel og var alltaf boðinn og búinn að hjálpa. Maður sem var alt-muligt-maður, maður sem hafði alltaf ráð undir rifi hverju ef leitað var til hans. Hann var rólegur og yfirvegaður, ekki maður margra orða en þess í stað lét hann verkin tala. Hann var reddarinn, lagaði allt og kenndi og útskýrði og hafði yndi af því að dunda sér í bílskúrnum. Þegar þau hjónin festu sér Kársnesbraut 131 þá fylgdi með 51 fermetra bílskúr og í raun hefði ekkert hús þurft að fylgja með hans vegna, því hann hefði unað sér glaður bara í bílskúrnum.

Hann var besti afi í heimi, alltaf tilbúinn með opinn faðminn, lét allt eftir barnabörnunum og var alltaf hreykinn af þeim. Áhugi hans á viðhaldi og viðgerðum smitaðist yfir á börnin og það gerði einnig áhugi hans á ferðalögum innanlands. Margar skemmtilegustu minningarnar eru frá ferðalögum vestur eða í kringum landið og enn í dag skapa börnin slíkar minningar, nú með barnabörnum Matta. Að veiða og tína ber, að dytta að húsinu eða í garðinum. Viðgerðir í bílskúrnum. Aldrei féll honum verk úr hendi. Alltaf eitthvað að dunda og gera. Þannig munum við muna hann um ókomna tíð og ef hann settist niður þá var eitthvert barnabarnið komið í fangið um leið.

Stórfjölskyldan fyrir vestan átt hjarta hans og systkinin voru náin. Hann elskaði Vestfirðina og Arnardalinn. Þótt hann flytti snemma þaðan þá var það alltaf hans heima.

Þegar við hugsum til þess tíma sem við fjölskyldan fluttum inn á þau hjónin eitt árið og rifjum upp hvernig Matti tók á öllum málum, með sinni stóísku ró og þolinmæði gagnvart skæruliðunum Ásgeiri og Benna, þá var það eiginlega alveg einstakt. Hvað var eitt stykki þvottavél, þúsund skutl fram og til baka í Hafnarfjörð eða heil úldin frystikista á milli vina, honum fannst þetta bara ekkert mál og fannst þetta allt saman bara skemmtilegt bras. Alltaf bóngóður og ánægður með að fá að hafa fólkið sitt hjá sér.

Hann var eins og áður sagði ekki orðmargur, hann lét konu sinni það eftir en sat þess frekar ánægður og hlustaði eða laumaði sér út í bílskúr og lét konu sinni til dæmis eiginlega alveg eftir símann. Það var ekki hans tæki.

Í dag þökkum við fyrir að hafa verið hluti af ævi hans, erum þakklát fyrir allar minningarnar og minnumst hans hlýlega í hvert skipti sem við notum verkfæri sem við höfum nú fengið til afnota úr bílskúrnum góða.

Takk, elsku pabbi, tengdó og afi, njóttu nú í sumarlandinu með mömmu, við söknum þín nú þegar.

Þín

Jens, Dagný, Ásgeir
Óli og Benedikt Óliver.

Elsku besti afi, við kveðjum þig nú með sorg í hjarta, minningarnar ylja og þú munt alltaf eiga stað í hjarta okkar. Afi var einstaklega góður maður, hjálpsamur, samviskusamur, húmoristi, duglegur og hjartahlýr.

Afi hafði alltaf í nægu að snúast á Kársnesbrautinni, þar hafði hann garðinn sinn, bílskúrinn sinn, stóra bílaplanið og fallega húsið sitt. Þegar maður kom í heimsókn var hann oft í bílskúrnum að gera hitt og þetta, hann átti öll heimsins verkfæri fannst manni, allt var vel skipulagt og í röð og reglu, það var alltaf gaman að dunda í hinu og þessu í bílskúrnum, en það sem stóð oft upp úr var bílskúrslyktin, olíulykt sem okkur þótti frekar góð. Garðurinn var alltaf fínn, afi og amma höfðu gott lag á honum og voru bæði með græna fingur. Minningarnar frá Kársnesbrautinni eru ótal margar og erum við einstaklega þakklát fyrir þær.

Ferðin Vestur í Dýrafjörð með afa og ömmu árið 2020 er okkur afar dýrmæt. Þegar ég (Ísabella), Karel litli bróðir, mamma og pabbi fórum með ykkur ásamt Frigga, Brynjari og Helenu. Þar vorum við öll saman í litlum bústað sem rúmaði okkur varla, en við létum það ekki stoppa okkur og þetta gekk allt upp. Afi hafði keypt góð nagladekk á Land Cruiserinn og keyrt vestur, og fór létt með það. Afi og amma fóru þar í berjamó þegar veður leyfði. Það var einstaklega gaman að fara með ykkur á æskuslóðir ykkar í Arnardalinn og Keldudal. Í Arnardal rifjaði afi upp gamla tíma og var hann léttur í lund og glaður að segja frá gömlum tímum. Minningarnar lifa og erum við ævinlega þakklát fyrir þær elsku afi.

Það sást langar leiðir að afi var mikill fjölskyldumaður, hann var alltaf glaður að fá okkur í heimsókn og tilbúinn að hlusta á og spjalla um hitt og þetta, amma átti það til að vilja hafa orðið og rifja upp hvert einasta smáatriði, sérstaklega þegar kom að ættum eða afmælisdögum, og hlustuðum við og afi með þolinmæði svo þetta myndi nú allt saman vera á hreinu.

Afi mátti ekkert illt sjá, þegar fjallað var um stríð í fréttum skildir þú ekkert í því hvers vegna þau þurftu að eiga sér stað, af hverju getur ekki verið friður á jörðinni sagðir þú oft.

Elsku afi, við vitum að þú ert kominn í faðminn hennar ömmu og það er gott að vita af þér í góðum höndum. Hún hefur tekið á móti þér með öllum kræsingunum sem hún kunni svo vel að gera.

Við elskum þig að eilífu, elsku afi, góða hvíld.

Kristín Ísabella Karelsdóttir, Matthías Örn Karelsson, Kolfinna Ýr Karelsdóttir, Karel Halldór Karelsson.

Nú hefur hann Matti móðurbróðir minn kvatt þessa jarðvist aðeins réttum fjórum mánuðum eftir að Jónína, konan hans, kvaddi. Matti var síðastur systkinanna frá Fremrihúsum í Arnardal. Þau voru alla tíð mjög samrýnd og í góðu sambandi hvert við annað.

Matta þekkti ég frá því að ég man eftir mér. Hann var einstaklega greiðvikinn og hjálpsamur maður sem alltaf var boðinn og búinn að hjálpa, ef hann hafði nokkur tök á því. Ef það bilaði hjá manni bíll og leitað var ráða hjá honum þá endaði það oft með því að hann gerði við bílinn. Einnig ef eitthvað þurfti laga heima við þá var yfirleitt hægt að fá ráð hjá honum um hvernig best væri að framkvæma það.

Hann var mikill fjölskyldumaður og fjölskyldan var honum allt. Hann og Jónína fylgdust vel með sínu fólki og hvöttu til dáða ef þeim fannst þörf á.

Þau voru ófá skiptin, þar sem hringt var í hann að vestan og hann beðinn um að kaupa varahluti. Venjulega bjargaði hann því fljótt og vel og kom hlutnum í flug eða á flutningabíl vestur.

Matti var skapgóður maður og ég man ekki eftir því að hafa séð hann skipta skapi þótt eflaust hafi hann gert það.

Yfirleitt komu þau Jónína vestur í Arnardal á sumrin, með börnin, og oft var það þannig að mest af tíma Matta fór í að aðstoða bræður sína við viðgerðir á ýmsum tækjum og í sveitastörfin. Þessi störf voru kærkomin tilbreyting frá daglegu amstri heima. Ferðalögin vestur tóku stundum tíu til fimmtán klukkustundir enda voru vegir þá allt aðrir en í dag og ökutækin ekki endilega af nýjustu gerð. Í seinni tíð heimsóttu Matti og Jónína oftast Dýrafjörðinn enda þótti þeim mjög vænt um Þingeyri þar sem þau höfðu kynnst.

Mikið var um að ættingjarnir að vestan gistu hjá Jónínu og Matta og í mínu minni var það sérstaklega í Skólagerðinu í Kópavogi. Húsnæðið var ekki stórt á mælikvarða dagsins í dag en alltaf var auðsótt mál að fá gistingu. Auðvitað hvíldi vinnan vegna gestanna fyrst og fremst á Jónínu en Matti skutlaðist út og suður með þá sem þess þurftu.

Með árunum fækkaði heimsóknunum enda allir með sína fjölskyldu og í nógu að snúast. Alltaf var samt jafn gaman að koma til þeirra Matta og Jónínu og alltaf tekið á móti gestum af höfðingsskap.

Sumarbústaðaferðir fjölskyldunnar hér á árum áður eru minnisstæðar og í seinni tíð árlegar útilegur við Apavatn. Þar var oftast mikið fjör.

Matti missti mikið þegar Jónína féll frá undir lok janúar á þessu ári.

Með Matta er genginn góður og traustur maður og við Silla kveðjum hann með þakklæti og söknuði og vottum öllum aðstandendum okkar dýpstu samúð! Minning um góðan mann lifir.

Silla og Jón.