Í aðdraganda forsetakosninganna um helgina var iðulega talað um þau áhrif sem forseti Íslands gæti haft á erlendum vettvangi.
Erlendir blaðamenn hafa streymt til landsins til að fjalla um eldsumbrot á Reykjanesi, þótt endurtekningin hafi orðið til að draga úr aðdráttaraflinu, en umfjöllun erlendra miðla um forsetakosningarnar gaf hins vegar ekki til kynna að erlenda pressan biði í ofvæni eftir niðurstöðunni.
Reyndar má lesa um úrslit kosninganna í norrænum fjölmiðlum, en áhuginn virtist dvína þegar fjær dró. Vissulega greindu margir miðlar frá niðurstöðunni, en fréttirnar báru margar sömu fyrirsögnina, hvort sem það var á ensku, frönsku, spænsku eða þýsku: Viðskiptakonan Halla Tómasdóttir kjörin forseti Íslands. Heimildin virtist líka yfirleitt sú sama, fréttaveitan AFP.
Við leit var ekki að sjá að breska ríkisútvarpið, BBC, hefði sagt frá tíðindunum, en svissneska blaðið Neue Zürcher Zeitung var þó með blaðamann á staðnum. Frétt blaðsins var líka með öðrum hætti en nánast allar hinar sem finna má í fljótu bragði á netinu, og dró kannski frekar fram það sem fréttnæmast var við kosningarnar. „Fyrrverandi forsætisráðherra Íslands leggur allt undir – og tapar,“ sagði í fyrirsögn blaðsins.