Guðni Björnsson sendi mér góðan póst vegna umræðu um netverslun áfengis: Árni Helgason í Hólminum samdi þessa fyrir 60 árum: Hófdrykkjan er heldur flá henni er vont að þjóna hún er bara byrjun á að breyta manni í róna

Guðni Björnsson sendi mér góðan póst vegna umræðu um netverslun áfengis:

Árni Helgason í Hólminum samdi þessa fyrir 60 árum:

Hófdrykkjan er heldur flá

henni er vont að þjóna

hún er bara byrjun á

að breyta manni í róna.

Guðni bætti síðan við 31. maí 2024:

Baráttan er heldur blá

brátt mun engu þjóna.

Börnin setjast barinn á

sem breytir þeim í róna.

Svo að farið sé út í aðra sálma. Ég hef verið að lesa Japönsk ljóð frá liðnum öldum í þýðingu Helga Hálfdánarsonar. Þar segir í formála, að eftirlætis-ljóðform Japana sé staka af þeirri gerð, sem nefnd er tanka. Form hennar er bundið með þeim hætti, að 31 atkvæði skipast reglulega í 5 ljóðlínur, 5, 7, 5, 7 og 7 atkvæði í línu. Dæmi – Rödd vorsins:

Ef ekki væri

fyrir söng næturgalans

hvernig gæti þá

fjalla-þorpið hulið snjó

vitað af komu vorsins.

Munkurinn

Einungis nafn þitt

kom mér til að grípa þig,

meyjarblóm, og þú

mátt engum segja frá því

að ég hafi drýgt þá synd.

Limra eftir Björn Ingólfsson:

„Þegar við komum á Kjalveg

af kulda og langsvelti skalf eg,“

sagði Þórhalla og hló,

„ég hafði það þó

en Eyvindur króknaði alveg.“

Limran Grasbítur eftir Eyjólf Óskar Eyjólfsson:

Hún var hrífandi fögur og heit

sem himnesk og ilmandi sveit

í yndisleik sínum

hvar á ávölum línum

augu mín stóðu á beit.

Sigmundur í Belg í Mývatnssveit kvað:

Af öllu hjarta eg þess bið

andskotann grátandi

að flugna óbjarta forhert lið

fari í svarta helvítið.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir orti með nokkurri eftirsjá:

Loks er fúnar lífs míns tré

lágt í fölum sverði

ég eftir mörgu sjálfsagt sé

sem ég aldrei gerði.