Handknattleiksmarkvörðurinn Niklas Landin mun leggja landsliðsskóna á hilluna eftir Ólympíuleikana í París í sumar. Landin tilkynnti þetta í gærmorgun en hann er einn af betri markvörðum sögunnar. Hann hefur spilað 273 leiki með Danmörku og unnið alls fimm gullverðlaun á HM, EM og Ólympíuleikunum.
Serbinn Novak Djokovic, efsti maður heimslistans, þurfti heldur betur að taka á honum stóra sínum er hann mætti Argentínumanninum Francisco Cerundolo í fjórðu umferð Opna franska mótsins í tennis í gær. Eftir tæplega fimm klukkutíma leik vann Djokovic að lokum í fimm settum, 3:2. Daniil Medvedev féll hins vegar óvænt úr leik gegn Alex De Minaur, 3:1.
Enska C-deildarliðið Burton Albion hefur verið selt til hóps fjárfesta frá Norðurlöndum en í yfirlýsingu félagsins þar sem tilkynnt er um eigendaskiptin kemur fram að Íslendingar séu á meðal fjárfestanna. Norðmaðurinn Ole Jakob Strandhagen verður stjórnarformaður en hann var áður í stjórn Molde í Noregi. Benedikt Hareide, sonur landsliðsþjálfara Íslands, Åge Hareide, verður yfirmaður knattspyrnumála hjá Burton.
Handknattleiksþjálfarinn Guðmundur Helgi Pálsson hefur látið af störfum sem þjálfari kvennaliðs Aftureldingar. Samkvæmt tilkynningu félagsins óskaði Guðmundur sjálfur eftir því að hætta með liðið vegna persónulegrar ástæðu. Hann stýrði Aftureldingu í tvígang upp í efstu deild en liðið féll ári síðar í bæði skiptin.
Aston Villa hefur náð samkomulagi við Luton um kaup á enska knattspyrnumanninum Ross Barkley. Barkley mun ganga til liðs við Villa í júlí fyrir fimm milljónir punda. Barkley lék áður með Villa, tímabilið 2020-2021. Þá ólst hann upp hjá Everton og lék einnig með Chelsea.
Knattspyrnustjórinn Michael Carrick hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við enska félagið Middlesbrough. Carrick gerði garðinn frægan sem leikmaður Manchester United á árunum 2006 til 2018 en eftir leikmannsferilinn sneri hann sér að þjálfun. Carrick stýrði United í tveimur leikjum eftir að Ole Gunnar Solskjær var rekinn veturinn 2021. Tók hann við Middlesbrough í október 2022.
Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson er einn þeirra sem Antonio Conte vill fá til Napólí er hann tekur við liðinu eftir örfáa daga. Samkvæmt ítölskum miðlum mun Conte fá 250 milljónir evra til að eyða í sumarglugganum ef Victor Osimhen yfirgefur félagið. Albert er á óskalistanum ásamt Aretm Dovbyk framherja Genoa, Jacopo Fazzini, ungum leikmanni Empoli, Nehun Perez varnarmanni Udinese og Georguy Sudakov, hjá Shaktar Donetsk.