Tvenna Skagamaðurinn Tryggvi Hrafn Haraldsson, sem skoraði tvö mörk fyrir Val, með boltann á Meistaravöllum í Vesturbænum í gærkvöldi.
Tvenna Skagamaðurinn Tryggvi Hrafn Haraldsson, sem skoraði tvö mörk fyrir Val, með boltann á Meistaravöllum í Vesturbænum í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur hafði betur gegn KR, 5:3, í ótrúlegum leik í Bestu deild karla í fótbolta á Meistaravöllum í gærkvöldi. Með sigrinum fór Valur upp í 21 stig og er nú einu stigi frá Breiðabliki í öðru sæti og fjórum á eftir toppliði Víkings

Besta deildin

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Valur hafði betur gegn KR, 5:3, í ótrúlegum leik í Bestu deild karla í fótbolta á Meistaravöllum í gærkvöldi. Með sigrinum fór Valur upp í 21 stig og er nú einu stigi frá Breiðabliki í öðru sæti og fjórum á eftir toppliði Víkings. KR er í áttunda sæti með aðeins ellefu stig.

KR-ingar byrjuðu mun betur og var staðan orðin 2:0 fyrir heimamenn eftir aðeins sjö mínútur. Aron Sigurðarson kom KR á bragðið á 6. mínútu og Benoný Breki Andrésson gerði annað markið mínútu síðar.

Eftir það var komið að Valsmönnum og þeir Tryggvi Hrafn Haraldsson og Patrick Pedersen gerðu tvö mörk hvor fyrir leikhlé og staðan allt í einu 4:2 fyrir Val. KR-ingar voru í raun heppnir að munurinn var ekki meiri því Tryggvi Hrafn fór illa með tvö dauðafæri undir lok hálfleiksins.

Eins og oft vill verða í leikjum þar sem mikið er skorað í fyrri hálfleik róaðist leikurinn í þeim seinni. Gísli Laxdal Unnarsson gerði fimmta mark Vals á 74. mínútu, 14 mínútum eftir að Finnur Tómas Pálmason fékk beint rautt spjald, og Kristján Flóki Finnbogason klóraði í bakkann á lokamínútunni.

Valur skoraði einnig fimm mörk gegn Stjörnunni í síðustu umferð og hefur unnið fimm leiki af síðustu sex og ekki tapað frá 19. apríl. Valsarar ætla sér að vera með í toppbaráttunni til loka í ár.

Töluvert verr gengur hjá KR sem hefur aðeins unnið einn leik af síðustu sjö í öllum keppnum og tapað fjórum þeirra. Er sætið hjá Gregg Ryder væntanlega orðið verulega heitt.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson