EM 2025
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mætir því austurríska í undankeppni Evrópumótsins 2025 á Laugardalsvelli klukkan 19.30 í kvöld í mikilvægum leik í baráttunni um að fara beint á lokamótið, sem fram fer í Sviss næsta sumar, og sleppa við umspil.
Eftir jafntefli liðanna í Austurríki á föstudaginn var, 1:1, eru þau bæði með fjögur stig í öðru og þriðja sæti A4-riðilsins. Tvö efstu liðin fara beint á EM á meðan liðin í þriðja og fjórða sæti fara í umspil.
Þýskaland er í afar góðum málum í toppsæti riðilsins með fullt hús stiga eftir þrjá leiki á meðan Pólland er án stiga á botninum.
Sigurliðið í kvöld tekur mjög stórt skref í áttina að Evrópumótinu. Geri liðin jafntefli eru góðar líkur á að markatala skeri úr um hvort liðið komist beint á mótið, en það fer eftir úrslitunum í tveimur síðustu umferðum riðilsins.
Engin meiðsli í hópnum
Staðan á íslenska liðinu er góð. Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari staðfesti á blaðamannafundi í gær að enginn leikmaður væri að glíma við meiðsli og að allir sem tóku þátt í leiknum í Austurríki væru klárir í slaginn. Hann er bjartsýnn fyrir leikinn.
„Ef við skoðum frammistöðuna úti var margt jákvætt og ég er bjartsýnn fyrir morgundaginn. Við förum inn í þennan leik á Laugardalsvelli til að vinna hann og það er ekkert annað sem kemst að hjá okkur.
Við vitum að við þurfum að hafa fyrir því og hugsanlega spila betur á morgun en við gerðum úti. Við erum sátt við margt sem við gerðum í síðasta leik,“ sagði Þorsteinn á fundinum sem fram fór í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum.
Veðurspáin er ekki sérlega góð og er spáð miklu roki á höfuðborgarsvæðinu á meðan leikurinn fer fram.
„Ég hef lítið kíkt á veðurspána en það er verið að tala um gula viðvörun. Við skoðum þetta fyrir leik og sjáum hvernig vindar blása. Við erum róleg yfir þessu og fyrir fram myndi ég halda að austurríska liðið sé meira órólegt yfir þessu,“ sagði landsliðsþjálfarinn.
Austurríki kom á óvart
Austurríska liðið kom Þorsteini og hans teymi á óvart með leik sínum á föstudaginn. Liðið er þekkt fyrir mikla hápressu en lítið var um hana gegn íslenska liðinu. Þorsteinn útilokar ekki að það breytist í seinni leiknum.
„Ég býst alveg eins við því að þær fari í hápressuna sína núna, en maður veit það ekki. Leikurinn þeirra kom okkur á óvart í Austurríki, þar sem þær sátu til baka, en núna verðum við tilbúin í hvort tveggja,“ sagði hann.
Þurfa að nýta færin
Þorsteinn sagði ekki mikið þurfa að breytast til að íslenska liðið fái þrjú stig í kvöld í staðinn fyrir eitt, sé horft á fyrri leikinn. Íslenska liðið skapaði sér fín færi til að skora fleiri mörk en inn vildi boltinn ekki.
Komu bæði mörkin í Austurríki úr vítaspyrnum. Fyrst skoraði Sarah Puntigam fyrir Austurríki á 26. mínútu eftir að Alexandra Jóhannsdóttir gerðist brotleg innan teigs. Landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir jafnaði á 76. mínútu með öðru víti og þar við sat.
„Við þurfum að skora og nýta færin betur. Við náðum að skapa okkur flott færi til að skora á meðan þær voru ekki að skapa mikið. Þær voru meira með boltann og komu með slatta af fyrirgjöfum. Við vörðumst því heilt yfir vel og sköpuðum okkar færi. Við þurfum að nýta þau færi núna.“
Þorsteinn var svo stuttorður er hann var spurður hvort von væri á mörgum breytingum á íslenska liðinu fyrir leikinn í kvöld. „Ég á nú ekki von á því,“ svaraði hann einfaldlega.
Ljóst er að í það minnsta ein breyting verður á austurríska liðinu. Markvörðurinn Manuela Zinsberger, sem stóð í markinu í leiknum ytra, hefur dregið sig úr hópnum. Andrea Gurtner hefur verið kölluð inn í hópinn í hennar stað.
Austurríska liðið ferðaðist með því íslenska eftir fyrri leikinn og hefur því verið hér á landi frá því á laugardag. Irena Fuhrmann þjálfari liðsins sagði við fjölmiðla ytra að það væri til að aðlagast tímamismuninum og losna við ferðastress.
Fimmta lokamótið í röð?
Austurríki hefur aðeins í tvígang komist á lokamót EM en í bæði skiptin gert góða hluti. Í Hollandi árið 2017 fór liðið alla leið í undanúrslit og endaði í þriðja sæti. Fimm árum síðar hafnaði liðið í sjöunda sæti á Englandi.
Ísland hefur leikið á fjórum síðustu Evrópumótum en aðeins unnið einn leik og einu sinni komist upp úr riðlinum, en það var í Svíþjóð árið 2013.