Þegar forsetakosningar eru farsællega að baki á Íslandi, eins og nú, telja landsmenn að þeim sé óhætt að horfa til sumarsins og þriggja mánaða sælu sem því fylgir, ef heppnin er með. Bent hefur verið á, og það réttilega, að umræða í kosningabaráttu um þetta virðulega embætti sé iðulega á skjön við veruleikann. Frambjóðendum eða fjölmiðlum er kennt um, en hvorugir bera alla sök.
Frambjóðendahópurinn var óvenjulega vel mannaður í fjölda núna og fjölmiðlamenn áttu ekki auðvelt með að draga upp mynd af embættinu, sem um var keppt, og varð umræðan fulltilkomumikil. En erfitt er við það að fást.
Við það bætist, að um embættið er að jafnaði ekki barist nema að meðaltali á tólf ára fresti og enginn man lengur hvað það var sem stjórnarskráin segir um það. Og sem betur fer hafa forsetarnir, þótt ólíkir séu, ekki kallað á sérstaka umræðu um embættið eða varpað reglubundið út til fjöldans spurningunni um það, um hvað það snúist. Enda ekki eftir slíku kallað þegar kosningar eru yfirstaðnar, fáum vikum síðar. Og þótt landsmenn kalli sjaldan eftir upplýsingum um viðfangsefni forsetans, þá treysta honum flestir til góðra verka.
Um sumt er forsetinn öfundsverður þegar hann er borinn við háttsetta menn, en einkum hina kjörnu. Þá er gert ráð fyrir því að þar gagnrýni hver annan og allt að því níði skóinn hver niður af öðrum. Það er talinn hluti af vinnunni. Hafi einhverjir komið ár sinni bærilega fyrir borð í fáein ár eða jafnvel mánuði, þá fær hinn hluti hópsins að heyra að það hafi verið með annarlegum hætti. Og sjaldnast njóta menn sanngirni í þeim leik. Þá hafa þeir iðulega áður slegist við sína „samherja“ í prófkjörum eða innan þingflokka og við pólitíska andstæðinga í kosningum. Leitast hefur verið við að væna „hina“ um annarlegan og óheiðarlegan leik og allir tapa að lokum, því að almenningur leggur trúnað á það sem er endurtekið. Á meðan „situr forsetinn á friðarstóli“ mældur öðru hverju í könnunum og þær segja að 90% þjóðarinnar séu mjög ánægð með hann.