Distópía Anya Taylor-Joy, Tom Burke og Chris Hemsworth í hlutverkum sínum í Furiosa: A Mad Max Saga.
Distópía Anya Taylor-Joy, Tom Burke og Chris Hemsworth í hlutverkum sínum í Furiosa: A Mad Max Saga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laugarásbíó, Sambíóin og Smárabíó Furiosa: A Mad Max Saga ★★★·· Leikstjórn: George Miller. Handrit: George Miller og Nico Lathouris. Aðalleikarar: Anya Taylor-Joy, Chris Hemsworth, Tom Burke og Alyla Browne. Ástralía og Bandaríkin, 2024. 148 mín.

kvikmyndir

Helgi Snær

Sigurðsson

Mad Max, eða Brjálaði Max eins og hann hét í íslenskum bíóauglýsingum hér í gamla daga, í túlkun leikarans Mels Gibsons, spratt fram á sjónarsviðið árið 1979 í kvikmynd ástralska leikstjórans Georges Millers sem skrifaði einnig handritið í samvinnu við James nokkurn McCausland. Var handritið byggt á dystópískri sögu Millers og Byrons Kennedys. Max, réttu nafni Max Rockatansky, sló í gegn og sneri aftur á hvíta tjaldið í tvígang, í Mad Max 2 árið 1981 og Mad Max Beyond Thunderdome árið 1985 sem ofanritaður minnist þess að hafa séð í bíói, þá 11 eða 12 ára. Max lék Mel nokkur Gibson og þótti mikið karlmenni.

Max var upphaflega lögreglumaður í Ástralíu framtíðarinnar þar sem óöld ríkir út af miklum skorti á nauðsynjum en þó alltaf nóg til af bensíni fyrir kappakstur og alls konar bílaat. Eiginkona Max og barn voru myrt af bifhjólagengi og hefndi hann þeirra grimmilega og hóf síðan að flakka um eyðilönd Ástralíu.

Mad Max-myndirnar eru núna orðnar fimm, sú nýjasta nú komin í bíó og enn og aftur er Miller við stjórnvölinn, orðinn 79 ára og ætti því að vera því kominn á eftirlaun. Ef marka má fréttir úr heimi kvikmyndanna hefur Miller ekki enn sagt skilið við Óða Max því fleiri myndir eru víst í bígerð. Hvaðan Miller fær orkuna í þetta havarí er illskiljanlegt því þetta er flókin og kostnaðarsöm kvikmyndagerð.

Tom Hardy var prýðilegur í hlutverki Max í Fury Road sem frumsýnd var árið 2015 en Charlize Theron var þar algjör senuþjófur, einhver harðasti nagli í kvennaflokki sem sést hefur á hvíta tjaldinu fyrr og síðar. Nýjasta myndin heitir eftir aðalsöguhetjunni, Furiosu, sem leikin er af Önyu Taylor-Joy en í fyrri hlutanum af ungri stúlku, Alylu Brown. Joy segir varla orð fyrr en undir lok myndarinnar og stendur sig sérstaklega vel þegar litið er til þess, þarf að leika nær eingöngu með svipbrigðum og augunum. Hún er prýðilegasta kvenhetja og býsna sannfærandi hörkutól, nýtur sín auk þess vel undir stýri en þar fer stór hluti myndarinnar auðvitað fram, líkt og fyrri myndir. Áhrifamestu atriðin sýna stórfurðulega „bílabardaga“ upp á líf og dauða, eins og í fyrri myndum. Heimur Óða Max er tilfinningasnauður og ljótur karlaheimur, heimur háværra og reykspúandi bíla og annarra furðulegra ökutækja. Harka og limlestingar eru daglegt brauð og mannslífin lítils sem einskis virði. Þeir hörðustu lifa af, nema hvað.

Barist í Bensínbæ

Sögusviðið er enn á ný Ástralía framtíðarinnar, að loknu kjarnorkustríði. Eftirlifendur berjast fyrir því litla sem til er af ferskvatni og ræktanlegu landi í auðninni. Svæði eitt, sem kallað er „græna svæði hinna mörgu mæðra“, er öðrum eftirsóttara því þar má finna ferskvatn og hægt að stunda landbúnað. Óprúttnir villimenn rekast þar dag einn á unga stúlku, Furiosu, ræna henni og færa leiðtoga sínum, Dr. Dementusi (sem leikinn er af vöðvatröllinu Chris Hemsworth sem að þessu sinni er með fáránlegt gervinef). Furiosa verður fangi hans og reynir doktorinn allt hvað hann getur að finna græna svæðið en án árangurs. Furiosa er þögul sem gröfin og þá ekki síst eftir að hafa verið neydd til að horfa upp á móður sína myrta af Dementusi og hans gengi. Nokkru síðar gerir Dementus árás á Gastown, þ.e. Bensínbæ, afgirt virki þar sem óárennilegur óþokki sem kom við sögu í síðustu mynd, Immortan Joe, ræður ríkjum. Eftir stuttar og snarpar friðarviðræður fær Dementus hluta af Gastown í skiptum fyrir Furiosu og lækni nokkurn stórskrítinn. Svo hlaupið sé hratt fyrir þessa stórfurðulegu og oft á tíðum illskiljanlegu sögu þá tekur Joy í öðrum þriðjungi myndar við hlutverki Furiosu og hún á sannarlega harma að hefna. Tekst henni að ráða niðurlögum hins óða Dementusar?

Eins og við mátti búast og lesa má er þetta stórskrítin saga úr þeim furðuheimi sem George Miller færði okkur fyrst í Mad Max árið 1979 (Morgunblaðið birti dóm um hana með snilldarfyrirsögninni „Hjólafól“) og auðvitað magnað að hann sé enn að. Síðasta mynd, Mad Max: Fury Road, var magnað sjónarspil, besta myndin um Max þá sem nú, og krafturinn slíkur að maður sat þreyttur eftir í bíósal að sýningu lokinni.

Furiosa er ögn rólegri en þó nóg af hasar að hætti Millers með frábærri myndatöku og dúndrandi hljóðmynd. Ef ekki væri fyrir þessi atriði, þar sem menn berjast með bílum upp á líf og dauða og svífa um loftin, ýmist á stöngum eða vélknúnum svifdrekum, væri þetta heldur þunnur þrettándi. Taylor-Joy er flott kvenhetja og fullkomið val á leikkonu í hlutverk Furiosu en ekki verður það sama sagt um Hemsworth. Hann er beinlínis hlægilegur með fáránlegt gervinef og furðulegan hreim og auk þess alltaf ber að ofan svo sýna megi þrútna vöðvana. Þótt ekki sé mikil krafa gerð um raunsæi í þessum myndum virkar þetta undarlegt og passar ekki við heildarmyndina. Hemsworth er skemmtilegur, það verður ekki af honum tekið, en persónan ætti alls ekki að vera jafnspaugileg og hún er í hans túlkun. Dr. Dementus ætti að vera ógnandi, enda aðalillmenni myndarinnar, en hann er bara of kjánalegur til þess í túlkun Hemsworth.

Of löng atrenna

Líkt og í fleiri kvikmyndum, þar sem rakin er forsaga persóna, fer alltof langur tími í slíka frásögn í þessari. Um klukkustund er liðin þegar aðalleikkonan, Anya Taylor-Joy, birtist loksins. Fram að því fylgjumst við með barnungri Furiosu og raunum hennar og þann hluta hefði mátt stytta, um helming að minnsta kosti. Fólk fer heldur ekki í bíó á Mad Max-mynd til að sjá langar samningaviðræður ljótra karla. Það er lítið gaman að horfa á stangarstökkvara taka ótal atrennur og hætta við, aftur og aftur, þar til hann loksins stekkur, ekki satt? Eða hafa bíógestir kannski svona mikinn áhuga á forsögu Furiosu? Ég leyfi mér að efast um það, til þess er þetta of mikil vitleysa. Það sem gerir myndina þess virði að sjá í bíói, þegar öllu er á botninn hvolft, er allt annað en handritið og sagan, þ.e. eru brellurnar, myndatakan, litirnir, hljóðmyndin og áhættuatriðin. Allt er það tilkomumikið.