Lokun ungmennahússins Hamarsins í Hafnarfirði veldur áhyggjum, segir Árni Rúnar Þorvaldsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.
„Það er mjög óljóst hvað á að taka við af þessu. Það er verið að kasta út þekkingu og kunnáttu. Starfsfólk sem hefur verið að vinna þarna og byggt upp reynslu og farsælt starf,“ segir Árni við Morgunblaðið.
Bætir hann við að starfsemi Hamarsins hafi reynst jaðarsettum hópum bæjarins mikilvæg og um sé að ræða mikið reiðarslag fyrir þá einstaklinga.
Sú ákvörðun var tekin á sameiginlegum fundi fræðslu- og fjölskylduráðs í Hafnarfirði að leggja niður starfsemi ungmennahússins. Nefnir Árni í samtali við Morgunblaðið að ákvörðunin einkennist af leyndarhyggju og ólýðræðislegum vinnubrögðum meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.
Greinir Árni frá því að á fundinum, sem fór fram miðvikudaginn 29. maí sl., hafi verið mál á dagskrá um miðstöð ungs fólks í Hafnarfirði. Segir Árni að fulltrúar minnihlutans hafi aldrei fengið að kynna sér málið í aðdraganda fundarins. Hafi því verið margspurt á fundinum hvort hægt væri að fresta málinu en talað var fyrir daufum eyrum meirihlutans sem vildi klára málið.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði munu í dag leggja fram tvær tillögur á bæjarstjórnarfundi: Að samþykktir ráðanna verði afturkallaðar sem og uppsagnir starfsmanna Hamarsins.
Árni segir annan hluta af ólýðræðislegum vinnubrögðum meirihlutans vera samskiptaleysi þeirra við ungmennaráð bæjarins.
„Það er starfandi í bænum ungmennaráð sem hefur lengi verið að tala um ungmennahúsin í bænum og eflingu þeirra og kallað eftir samvinnu við bæjarstjórn. Það var ekki gert í aðdraganda þessarar ákvörðunar.“
Ungmennaráð Hafnarfjarðar, ásamt nemendafélagi Flensborgar og notendaráði Hamarsins, hefur sent frá sér opið bréf þar sem bæjarstjórn er hvött til að falla frá ákvörðun fræðslu- og fjölskylduráðs og tryggja áframhaldandi starfsemi Hamarsins. egillaaron@mbl.is