[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Flestir lífeyrisþegar búa við það að fá ýmist of háar eða of lágar greiðslur frá Tryggingastofnun (TR) miðað við réttindi þeirra, sem er síðan leiðrétt þegar endanlegt uppgjör og endurreikningur fyrir liðið ár liggur fyrir. Í fyrra fengu rúmlega 52 þúsund lífeyrisþegar eða 78% allra lífeyrisþega ofgreiddan lífeyri og þurfa að endurgreiða. Miðgildi þessara ofgreiðslna er rúmlega 122 þúsund krónur.

Fjöldi þeirra sem fengu ofgreitt er svipaður en þó lítið eitt meiri en á árinu 2022 en þeir eru hins vegar miklu fleiri en á árinu 2021 þegar 51% lífeyrisþega var í skuld við TR og þurfti að endurgreiða.

„Ástæðurnar eru fyrst og fremst vegna verðbólgu- og vaxtastigs sem hefur haft mikil áhrif á lífeyrissjóðsgreiðslur og fjármagnstekjur,“ segir í greinargerð TR um uppgjörið, en þetta eru þær tekjur sem lífeyrisþegar eru einna helst að fá. Lífeyrisgreiðslur frá TR byggjast á þeim tekjuáætlunum sem lífeyrisþegar skila fram í tímann, þ.e.a.s. hvað þeir telja að þeir muni hafa í tekjur á komandi ári en þegar árið er gert upp við árlegan endurreikning er byggt á því hverjar raunverulegar tekjur voru samkvæmt staðfestum skattframtölum. Þá kemur í ljós hvort frávik hafa valdið því að um vangreiðslu eða ofgreiðslu var að ræða á liðnu ári.

Um tíu þúsund einstaklingar fengu of lágar lífeyrisgreiðslur í fyrra miðað við réttindi þeirra og eiga því inneign hjá stofnuninni. Miðgildi þessara inneigna er rúmlega 73 þúsund krónur og kemur fram í svari TR til blaðsins að búið sé að endurgreiða þeim inneignirnar, sem var gert 1. júní síðastliðinn.

Tryggingastofnun tók saman upplýsingar fyrir Morgunblaðið sem sýna hvernig upphæðir ofgreiðslna og inneigna dreifast innan hóps lífeyrisþega. Þar má sjá að flestir eða tæplega 34 þúsund einstaklingar (50,2%) skulda TR innan við 200 þúsund kr. vegna ofgreiðslna í fyrra. 13.580 einstaklingar (20,1%) eru með skuldir á bilinu 200 þúsund kr. til 600 þúsund kr. og 5.058 einstaklingar þurfa að endurgreiða stofnuninni 600 þúsund kr. eða hærri upphæðir vegna ofgreiðslu lífeyrisgreiðslna í fyrra.

„Almenna reglan er að kröfur beri að endurgreiða á 12 mánuðum og hefst innheimtan 1. september. Hægt er að dreifa greiðslum til lengri tíma ef það reynist íþyngjandi fyrir viðkomandi að endurgreiða,“ segir í svari TR.

Af þeim sem áttu inneignir áttu 6.535 einstaklingar (9,7%) inneignir undir 200 þúsund kr., 1.864 einstaklingar (2,8%) áttu inneignir á bilinu 200 til 600 þúsund kr. og 1.062 (1,6%) áttu inneignir upp á 600 þúsund eða hærri upphæð, sem þeir áttu allir að fá endurgreiddar 1. júní sl.

Af greiningu TR má einnig sjá að frávik frá réttum greiðslum, bæði ofgreiðslur og vangreiðslur, meðal allra lífeyrisþega var innan við 200 þúsund krónur hjá um 60% hópsins. „Í 23% tilvika eru frávik 200-600 þúsund kr. og frávik umfram 600.000 kr. eru í um 9% tilvika.“

Þeir sem fengu réttar lífeyrisgreiðslur í fyrra og eru því hvorki í skuld né eiga inneign hjá TR voru 5.533 talsins eða 8,1% allra lífeyrisþega á landinu.

Í umfjöllun á vef TR segir að „þrátt fyrir að lífeyrisþegar beri ábyrgð á að tekjuskráning sé sem réttust þá er starfsfólk TR stöðugt að leita leiða til þess að draga úr því misræmi sem getur orðið á milli tekjuáætlunar og rauntekna. Þannig er sífellt unnið að betra upplýsingaflæði milli TR og lífeyrissjóða sem og við skattyfirvöld.“

Höf.: Ómar Friðriksson