Tilbúinn Ísak Bergmann Jóhannesson er mættur til London þar sem Ísland mætir Englandi á Wembley á föstudagskvöldið kemur.
Tilbúinn Ísak Bergmann Jóhannesson er mættur til London þar sem Ísland mætir Englandi á Wembley á föstudagskvöldið kemur. — Ljósmynd/KSÍ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísak Bergmann Jóhannesson, landsliðsmaður í knattspyrnu, vonast til þess að geta leikið áfram með þýska félaginu Düsseldorf á næsta tímabili. Ef ekki, er hann spenntur fyrir því að fara til Gent í Belgíu

Í London

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Ísak Bergmann Jóhannesson, landsliðsmaður í knattspyrnu, vonast til þess að geta leikið áfram með þýska félaginu Düsseldorf á næsta tímabili. Ef ekki, er hann spenntur fyrir því að fara til Gent í Belgíu.

Sísti kosturinn er hins vegar að snúa aftur til FC Köbenhavn í Danmörku sem lánaði hann til Düsseldorf í byrjun síðasta tímabils.

„Það var geðveik ákvörðun að fara til Düsseldorf, tímabilið þar var mjög skemmtilegt, og allir í kringum félagið hjálpuðu mér ótrúlega mikið. Mér og kærustunni líður afskaplega vel í Düsseldorf, en það er ekki í okkar höndum að vera þar áfram,“ sagði Ísak þegar Morgunblaðið ræddi við hann eftir æfingu íslenska landsliðsins í London í gær.

„Það er klásúla í lánssamningnum milli FCK og Düsseldorf sem Þjóðverjarnir eru á fullu að reyna að virkja. Við sjáum hvað gerist, ef það tekst ekki er ég aftur orðinn leikmaður FCK þar sem ég á tvö ár eftir af samningi.

Düsseldorf má, samkvæmt klásúlunni, kaupa mig á ákveðnu og hagstæðu verði, en hefur stuttan tíma til þess. Þetta er því óljóst, svona er að vera fótboltamaður, en mig langar klárlega að vera áfram í Düsseldorf. Það væri draumurinn. En ég stjórna því ekki.“

Geggjað í Düsseldorf

Fortuna Düsseldorf er gamalgróið félag og þeir sem muna langt aftur í tímann minnast þess að Atli Eðvaldsson og Pétur Ormslev spiluðu með liðinu á níunda áratug síðustu aldar.

„Þetta er alveg geðveikt félag. Það eru 52 þúsund áhorfendur á heimaleikjunum, völlurinn er magnaður og borgin geggjuð. Þetta lið á að vera í Bundesligunni og við vorum ótrúlega nálægt því að komast þangað,“ sagði Ísak en Düsseldorf missti af því á allra tæpasta hátt að komast upp um deild í vor.

Þetta var mjög sorglegt

Düsseldorf vann þá nágranna sína í Bochum, 3:0, í fyrri umspilsleik liðanna á útivelli en tapaði svo heimaleiknum 3:0 og vítaspyrnukeppni í kjölfarið.

„Þetta var mjög svekkjandi. Mér fannst hausinn á mönnum vera þannig eftir sigurinn í fyrri leiknum að þetta væri komið.

Við vorum vítaspyrnu frá því að komast í Bundesliguna þegar upp var staðið. Þetta var mjög sorglegt en það var gott að koma hingað til London og hitta strákana og hreinsa hugann,“ sagði Ísak sem nú býr sig undir vináttulandsleik Íslands og Englands á Wembley á föstudagskvöldið.

Mun klárlega skoða Gent

Hugur hans stefnir til Belgíu ef ekkert verður af áframhaldi hjá Düsseldorf en Gent hefur sýnt Ísaki áhuga.

„Ef ég verð ekki áfram hjá Düsseldorf þá skoða ég áfram í kringum mig. Ég átti mjög flott tímabil í Þýskalandi og stefni ekki að því að vera áfram í FCK, þannig að það er fullt af hlutum í gangi. Umboðsmaðurinn minn sér um það núna, ég einbeiti mér að þessum landsleikjum og svo fer ég í frí.

Ef klásúlan hjá Düsseldorf fer ekki í gegn mun ég klárlega skoða þetta hjá Gent. Belgíska deildin er mjög sterk og Gent er sterkt lið. Ég þarf að velja rétt núna, mig langar til að spila skemmtilegan fótbolta í góðu liði þannig að það yrði gaman ef það gengi eftir,“ sagði Ísak Bergmann Jóhannesson.

Höf.: Víðir Sigurðsson