Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson og fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir voru kát eftir leik, eins og gefur að skilja.
„Mér fannst við vera líkleg allan seinni hálfleikinn,“ sagði Þorsteinn í viðtali við RÚV strax eftir leik.
„Þær voru í miklu basli með að leysa föstu leikatriðin okkar og við áttum að skora fleiri mörk. Ég hafði trú á þessu allan tímann. Mér fannst við vera heilt yfir með þrýsting á þeim. Þær eru góðar í fótbolta og það er ekki eins og við séum að spila á móti einhverjum byrjendum.
Þær lágu á okkur smá í fyrri hálfleik en sköpuðu varla færi. Mér finnst liðið vera að taka eitt og eitt skref fram á við og hafa gert í 18 mánuði finnst mér,“ bætti Þorsteinn við.
Glódís Perla var einnig glöð með sætan sigur í hávaðaroki og erfiðum aðstæðum.
„Gríðarlega mikilvægur sigur og mikil vinna bak við hann. Þetta voru ekki fullkomnar aðstæður en mikill baráttusigur. Tvö virkilega góð mörk sem við skorum,“ sagði Glódís. Hún var ánægð með frammistöðuna í leikjunum tveimur gegn Austurríki.
„Mér fannst við betri heilt yfir í báðum leikjum. Það var því mjög svo góð tilfinning að vera með stelpunum á vellinum í kvöld, allir að leggja sig 150% fram,“ sagði Glódís Perla.
Fleiri viðtöl við Glódísi, Þorstein og marga aðra leikmenn má nálgast á mbl.is/sport/efstadeild