Indland Galvaskir stuðningsmenn Narendras Modis fögnuðu ákaft í gær.
Indland Galvaskir stuðningsmenn Narendras Modis fögnuðu ákaft í gær. — AFP/Niharika Kulkarni
Narendra Modi forsætisráðherra Indlands lýsti í gær yfir sigri ríkisstjórnarflokkanna í þingkosningunum þar í landi, en frumniðurstöður þeirra bentu til þess að flokkur hans, BJP, hefði tapað nokkru fylgi

Sveinn Valfells

sveinnv@mbl.is

Narendra Modi forsætisráðherra Indlands lýsti í gær yfir sigri ríkisstjórnarflokkanna í þingkosningunum þar í landi, en frumniðurstöður þeirra bentu til þess að flokkur hans, BJP, hefði tapað nokkru fylgi.

BJP hafði fyrir kosningarnar hreinan meirihluta upp á eigin spýtur og hafði flokkurinn gert sér metnaðarfullar vonir um að ná um 400 þingsætum af 523. Þess í stað tapaði flokkurinn um 56 þingsætum, og var áætlað í gærkvöldi að BJP myndi einungis fá um 240 þingmenn. Samstarfsflokkar BJP í ríkisstjórninni fengu hins vegar nægt fylgi til að ríkisstjórnin gæti haldið áfram samstarfinu.

Modi hefur verið forsætisráðherra Indlands frá árinu 2014. Hann hefur lagt mikla áherslu á iðnvæðingu landsins, en í stjórnartíð hans hefur hagkerfi Indlands vaxið að meðaltali um 7% á ári.

Modi hefur einnig heitið því að útrýma spillingu sem þrífst innan stjórnkerfisins sem og fátækt en talið er að um 10% þjóðarinnar lifi undir fátæktarmörkum.

Kosningarnar fóru fram í sjö lotum frá 19. apríl til 1. júní, og eru þær umfangsmestu í sögunni. 986 milljónir manna voru á kjörskrá, eða um 12% jarðarbúa, og þar af tóku 648 milljónir þátt í kosningunum. Þær gengu þó ekki þrautalaust fyrir sig, en úrhellisrigning og miklar hitabylgjur settu svip sinn á framkvæmd þeirra.

Höf.: Sveinn Valfells