Dóra Thoroddsen fæddist í Reykjavík 13. september 1948. Hún lést á Landspítala umvafin ástvinum 27. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Gunnar Thoroddsen lögfræðingur, borgarstjóri og forsætisráðherra, f. 29.12. 1910, d. 25.9 1983, og Vala Ásgeirsdóttir Thoroddsen húsfreyja, f. 8 .6. 1921, d. 15.3. 2005.

Systkini Dóru eru Ásgeir, f. 1942, Sigurður, f. 1944, og María, f. 1954.

Dóra giftist Jóhannesi Herði Bragasyni, f. 6.1. 1950, þann 29.5. 1970. Þau eignuðust eina dóttur, Völu Mörk Jóhannesdóttur Thoroddsen, f. 3.12. 1970. Dóra og Jóhannes skildu 1984.

Vala er gift Guðjóni Svanssyni, f. 21.9. 1969. Synir þeirra eru: 1) Viktor Gauti, f. 27.10. 1996, kvæntur Elísu Kristínu Sverrisdóttur, f. 12.11. 1996. Synir þeirra eru Alexander Emil, f. 26.8. 2021, og Elías Þór, f. 12.6. 2023. 2) Arnór Ingimundur, f. 22.12. 1998. 3) Patrekur Orri, f. 1.12. 2002. 4) Snorri Valur, f. 2.1. 2011.

Dóra fæddist í heimahúsi á Hávallagötu í Reykjavík. Hún gekk í Melaskóla, Hagaskóla og Menntaskólann í Reykjavík. Fór þá í Háskóla Íslands og lauk þaðan BA-prófi í bókasafnsfræði, almennri bókmenntafræði og íslensku í janúar 1973. Hún starfaði sem bókavörður á Borgarbókasafni með námi 1969-73, bókasafnsfræðingur þar 1973-85 og tók þá við deildarstjórastöðu Bústaðasafns Borgarbókasafns, síðar Kringlusafns, 1985. Dóra gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum um ævina, var meðal annars í stjórn BvfÍ 1986-7, var formaður í FAS 1984-6, sat í laganefnd BvfÍ og í ritnefnd um útgáfu bókasafnsfræðingatals frá 1995. Hún var fulltrúi starfsfólks Borgarbókasafns í Menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar frá 1986.

Dóra lét af störfum vegna aldurs 2015 og naut eftirlaunaáranna í samveru með fjölskyldu, ferðalögum, krossgátum og við lestur góðra bóka. Hún bjó lengst af í Vesturbænum, en flutti í Mosfellsbæ 2007 til að vera nálægt dóttur sinni og fjölskyldu. Ömmustrákarnir nýttu óspart tækifærin til að hlaupa yfir til ömmu í spjall og dekur og var hún þeim einstaklega kær og þeir henni. Hún bjó í Mosfellsbæ til æviloka.

Útför Dóru fer fram í Lágafellskirkju í dag, 5. júní 2024, klukkan 13.

Dóra hefði getað orðið einn fremsti rithöfundur Íslands ef hún hefði haft áhuga á því. Hún hafði ótrúlegt vald á textagerð, sögurnar í bréfunum sem hún skrifaði okkur Völu þegar við bjuggum í Danmörku urðu ljóslifandi í huga okkar þegar við lásum þær. Oftast var ljúfur húmor undirliggjandi. Hún sá það skondna í aðstæðum og lýsti þeim á sinn einstaka hátt.

Samband hennar og Völu, dóttur hennar, var alla tíð mjög fallegt. Þær voru á sama tíma mæðgur og bestu vinkonur og gátu talað um allt hvor við aðra. Ég man að þegar við Vala vorum að byrja að hittast þá töluðu þær saman í síma oft á dag, kvöddust yfirleitt þrisvar til fjórum sinnum af því að þeim datt alltaf eitthvað nýtt í hug að ræða þegar þær voru að enda samtalið.

Dóra var ekki mikið í því að segja fólki hvað það ætti að gera í lífinu, þvert á móti var hún áhugasöm um hvað fólk var að brasa og hugsa og gat sett sig inn í aðstæður fólks, sama hverjar þær voru. Hún gat verið ansi þrjósk og lét ekki hagga sér ef hún var búin að taka ákvörðun um eitthvað sem henni fannst mikilvægt. En fyrst og fremst var hún góð kona sem vildi öllum vel. Ömmustrákarnir hennar fengu allir mikið dekur þegar þeir fóru í heimsókn til ömmu Dóru og kettirnir okkar brostu hringinn þegar hún kom í heimsókn á hátíðardögum með rækjur og annan veislumat handa þeim.

Dóra var traust, þolinmóð og alltaf tilbúin að ræða málin út frá alls konar vinklum. Hún var klettur sem við gátum alltaf treyst á. Skemmtilegur og ljóngáfaður klettur. Ég á eftir að sakna hennar, en ég á líka eftir að hugsa til hennar með þakklæti og væntumþykju í huga. Hún mun alltaf vera hluti af okkar lífi.

Guðjón Svansson.

Elsku systir okkar og mágkona, Dóra, er látin eftir skamma baráttu við krabbamein. Þegar meinið hafði breiðst út og ljóst að fram undan yrði strembin meðferð og nokkuð daufar vonir um árangur sagði Dóra: „Þetta er orðið gott.“ Og þeirri ákvörðun hennar varð ekki hnikað, þótt ástvinir hennar hafi reynt að telja henni hughvarf til þess að geta sinnt henni áfram af hlýju og umhyggju. Þegar við heimsóttum hana á spítalann og aðstæður allar voru ljósar var hjartnæmt að finna hve sterk hún var og í hugarró, jafnvel kímin um þetta allt. Henni datt ekki í hug að leggja byrðar á ástvini sína. Vissulega var þetta orðið gott. Dóra hafði skilað sínu, átti að baki giftusamlegt líf og óvenju gjörvilegan afkomendahóp. Hún lést á líknardeild Landspítalans þann 27. maí sl.

Við bræður vorum fjögurra og sex ára þegar Dóra fæddist. Eðlilega fannst okkur við hafa nokkurn stjórnunarrétt yfir henni. En fljótlega kom í ljós að hún lét ekki að stjórn. Hunsaði okkar viturlegu ráð. Hún sat inni og grúfði sig yfir bækur þegar við töldum útislark og boltaleiki nauðsynlega leið til þroska. Svo liðu árin og Dóra óx upp í fallega unga stúlku. Foreldrar okkar fluttu til Danmerkur, en Dóra dvaldi að mestu leyti á Íslandi vegna skólanáms. Hún naut frjálsræðisins, og viðleitni okkar bræðra að sinna göfugu uppeldishlutverki reyndist óyfirstíganlegt verkefni. En svo fljótt sé farið yfir sögu, þá lauk Dóra námi sínu með prýði, útskrifaðist m.a. sem bókasafnsfræðingur. Þá hafði hún einnig heillast af glæsimenninu og góðum félaga, Jóhannesi Bragasyni. Þau giftust og voru í hjónabandi í hálfan annan áratug. Ávöxtur sambúðar þeirra var mesta gæfa sem Dóru gat hlotnast, dóttirin Vala Mörk. Með dótturinni, Guðjóni tengdasyni og þeirra fjórum mannvænlegu sonum voru reistar stoðir undir það hamingjuríka líf sem Dóra naut.

Dóra gerði ekki miklar kröfur til ytri þæginda. Hún naut þess að sitja með bók í hendi eða krossgátur og hafa kisurnar malandi á gólfinu. Hún var tíðum í sumarbústað á Þingvöllum, þar sem hún fylgdist með gróðrinum, sá trén vaxa og gaf músunum á pallinum. Þar var oft yngri systir hennar, María, ásamt eiginmanninum Guðmundi. Þau þrjú voru miklir félagar og ferðuðust mikið saman. Þegar veikindin fóru að hrjá Dóru nú seinni part vetrar kom María frá Spáni, þar sem þau hjón búa, til þess að vera hjá systur sinni. Var hún Dóru ómetanleg hjálparhella.

Dóra hafði kærleiksríka nærveru. Hún var skýr í hugsun og hafði notalegan húmor. Henni þótti vænt um fólk og því leið vel í návist hennar.

Við söknum Dóru og biðjum Guð að styrkja ástvini hennar. Henni þótti svo vænt um ykkur öll.

Sigríður Halldóra og Ásgeir Thoroddsen, Sigríður og Sigurður G. Thoroddsen.

Sárt er að missa systur og bestu vinkonu.

Dóra var viskubrunnur minn, eldklár, fróð, mundi vel og hafði mjög góða þekkingu á öllu, þar á meðal á okkar ætt. Dóra las mikið og hratt. Danskar krossgátur voru í uppáhaldi hjá okkur en hún var sú sem kláraði þær alltaf.

Pabbi okkar naut þess að lesa Hercule Poirot eftir Agöthu Christie og Sherlock Holmes eftir Conan Doyle og smitaði okkur systur af glæpasagnaáhuga. Stundum klippti pabbi forsíðuna af kiljunni ef myndir þar voru ógeðfelldar, Dóra las endinn fyrst og ef hann var ekki góður las hún ekki bókina, allt varð að enda vel.

Borgarferðir okkar byrjuðu á því að bræður okkar gáfu Dóru ferð í afmælisgjöf og að sjálfsögðu valdi hún mig sem fylgdarmann. Við gátum ekki hætt eftir það og fórum á hverju ári. Þetta voru „menningarferðir“, alltaf að minnsta kosti eitt safn skoðað í hverri borg. Dóra búin að kynna sér helstu staði og viðburði.

Elsku Dóra, ég var að gefa fuglunum hér í Barmahlíð, ekki undir pallinum eins og þú gerðir fyrir upphaflegu frumbyggjana.

Saknaðarkveðjur elsku stóra sys.

Þín litla sys,

María Kristín
Thoroddsen.

Tággrönn og tíguleg með kastaníurautt hár niður á mitt bak, örlítið túberað efst á hnakkanum og með þykkan topp fram á ennið.

Þannig man ég fyrst eftir Dóru frænku minni og mér fannst hún alveg ofboðslega töff. Fjölskyldan sagði að hún lægi alltaf í bókum sem gerði hana ennþá meira töff í mínum augum. Við vorum dætur náinna systra, Bjargar og Völu, og þótt ellefu ár skildu okkur að í aldri var sú staðreynd að við áttum sama afmælisdag og deildum áhuga á bókmenntum meðal þess sem styrkti bönd okkar.

Dóra var skarpgreind, víðsýn og ákaflega vel lesin. Heimakær, dálítið vanaföst og sjálfri sér nóg en félagslynd og hress á mannamótum. Húmor skorti hana ekki heldur og ekki síst fyrir sjálfri sér. Einhverju sinni eftir að hún flutti í Mosfellsbæinn, til að vera nær einkadótturinni Völu, tengdasyninum Gauja og dóttursonunum fjórum, hafði ég orð á hvað hún gæti valið úr mörgum fallegum gönguleiðum í Mosfellsbæ. Dóra horfði stundarkorn á mig og hristi síðan höfuðið. Elsku Sólveig, sagði hún með undrun í röddinni. Ég hélt nú að þú þekktir mig betur en þetta! Ég hef aldrei á ævinni farið í göngutúr, ég fer bara það sem ég þarf að fara og ekki skrefi lengra!

En þótt Dóra frænka væri ekki mikið fyrir hreyfingu þá er fólkið hennar sannkallaðir íþróttaálfar. Hljómþýð rödd hennar varð enn mýkri er nöfn þeirra bar á góma og ég fann alltaf hversu stolt hún var af sinni góðu og vel gerðu fjölskyldu. Missir þeirra allra er mikill.

Ég talaði síðast við Dóru í síma fyrir örfáum vikum. Hún vissi að hverju dró og hafði afþakkað meðferð. Sagðist ekki vilja ganga í gegnum enn meiri vanlíðan til að fresta hinu óumflýjanlega og kvaðst vera þakklát fyrir að kallið kæmi í réttri röð, því ekkert væri verra en að missa afkomendur sína. Hún var sjálfri sér lík í þessu samtali, hrein og bein, skynsöm án þess að vera með uppgerðarjákvæðni. Æðruleysið aðdáunarvert.

Fjölskyldunni votta ég mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Dóru Thoroddsen.

Sólveig Pálsdóttir.

Eitt af því mikilvægasta í lífinu er að eiga góða og samheldna fjölskyldu. Við Dóra ræddum oft um það hvað við værum heppnar að börnin okkar skyldu finna hvort annað og gefa okkur svo sína yndislegu afkomendur. Sonur minn hefði ekki getað verið heppnari með tengdamóður en Dóru. Eftir því sem ég kynntist henni betur mat ég hana meira. Hún gaf frá sér hlýju og umhyggju, var skemmtileg og fróð og alltaf vakandi yfir velferð fjölskyldunnar.

Meðan Guðjón, Vala og strákarnir bjuggu erlendis eða voru í löngum ferðalögum og okkur fannst orðið langt síðan við höfðum heyrt frá þeim áttum við ömmurnar nokkrar sameiginlegar „áhyggjustundir“. Sú sem fyrr fékk fréttir var þá fljót að láta hina vita.

Þegar móðir mín lést sagði Dóra við mig: „Það er svo sárt þegar þeir fara sem hafa alltaf verið til.“

Þótt ég hafi ekki kynnst Dóru fyrr en á fullorðinsárum finnst mér eins og „hún hafi alltaf verið til“. Ég er þakklát fyrir okkar góðu kynni, margar góðar og skemmtilegar samverustundir og okkar sameiginlegu fjölskyldu.

Enda þetta á minningarljóði eftir systur mína:

Kveðja

Á björtu sumarkvöldi

horfin kvölin.

Þú farin inn í sólarlagið

þar sem blómin drúpa höfði

og kyrrðin hvíslar

góða nótt

Þökk fyrir allt

(Þórdís Guðjónsdóttir)

Elsku Vala mín og þið öll. Ömmu Dóru verður sárt saknað, en minning hennar mun lifa.

Steinunn (Steina).

Lífið getur breyst ótrúlega fljótt, maður trúir varla atburðarásinni og nær engan veginn utan um það sem gerðist. Þannig var það þegar Dóra vinkona mín kvaddi þennan heim, eftir stutta sjúkrahúslegu. Hún var þó búin að þjást lengur, en naglinn hún Dóra var ekki að kveinka sér.

Við Dóra nutum góðrar vináttu í 60 ár. Leiðir okkar lágu fyrst saman í Menntaskólanum í Reykjavík, þegar við Dóra lentum í sama bekk. Við sátum saman fjórar stelpur, þ.e. þrjár Guðrúnar og ein Dóra. Við vorum algjörar samlokur, bæði í skóla og frítímum. Dóra var mikið „tískufrík“, há og grönn, með sítt hár og síðan topp, flott eins og Twiggy. Dóra fræddi okkur um Mary Quant og Carnaby Street og við stofnuðum saumaklúbb, prjónuðum röndótta trefla og styttum kjólana okkar til að tolla í tískunni. Við hlustuðum á Bítlaplötur og töluðum og hlógum, því lífið var svo skemmtilegt. Svo var ekki alveg ónýtt að fara í saumaklúbb á Bessastaði, þegar Dóra bjó þar hjá afa sínum.

Árin eftir stúdentspróf fórum við Dóra oft í ferðir innanlands, í sumarbústað og eyddum góðum tíma í Kaupmannahöfn með kærustunum okkar. Árin liðu og við stofnuðum fjölskyldur, byggðum upp heimili og starfsframa. Við fórum í ólíkar áttir í námi og störfum, en áttum alltaf vináttuna. Dóra var fyrst okkar vinkvenna til að giftast og eignast barn, hana Völu, sem varð eftirlæti allra. Það var ótrúlega gaman hjá litlu fjölskyldunum okkar.

Svo fórum við að flakka um heiminn og flytjast til útlanda, og við sáumst minna um tíma, en tókum upp þráðinn aftur og hittumst reglulega, helst einu sinni í mánuði og fengum okkur gott að borða saman. Vináttan hefur bara endalaust verið að styrkjast.

Dóra var einstök manneskja, umhyggjusöm og skilningsrík; alltaf jákvæð og hógvær. Bókasafnsfræðingurinn Dóra var mjög skipulögð og nákvæm, sem elskaði krossgátur og alls kyns orðaþrautir. Þegar við hittumst var mikið rætt um bækur, en passað upp á að halda öðru til haga, svo sem fréttum af fjölskyldu og vinum, það helsta úr þjóðlífi og menningu, og missa heldur ekkert úr fréttum af fræga fólkinu.

Við Guðrún Þórs hittum Dóru bara nokkrum dögum fyrir andlátið og var þá mikið hlegið eins og alltaf, þegar við sökktum okkur ofan í minningar og rifjuðum upp ótrúlegustu ævintýri. Við ræddum um daginn og veginn, og meira að segja um dönsku krúnudjásnin og Flatatungufjalirnar í Skagafirði; við fundum alltaf tengingar við ævintýrin okkar, hve fjarlægt sem það kann að virðast. Það er gott að eiga minningarnar um ógleymanlegar stundir saman.

Við kveðjum Dóru með miklum söknuði. Elsku Vala, þú varst alltaf augasteinninn hennar Dóru, hún var svo stolt af þér, elskaði að segja okkur frá þér og fjölskyldunni þinni, ævintýrum og sigrum og af barnabörnunum sem voru henni svo dýrmæt. Guð gefi ykkur styrk til að takast á við missinn og sorgina.

Ég votta fjölskyldunni mína dýpstu samúð.

Guðrún Björt Yngvadóttir.