Loðnubrestur kostar þjóðarbúið rúma 30 milljarða króna. Það er ekki endilega sú kæling á hagkerfinu sem við þurfum eins og sakir standa.
Loðnubrestur kostar þjóðarbúið rúma 30 milljarða króna. Það er ekki endilega sú kæling á hagkerfinu sem við þurfum eins og sakir standa. — Morgunblaðið/Börkur Kjartansson
Það fór svo sem ekki mikið fyrir þeim tölum sem birtust í nýjum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar í síðustu viku, þar sem fram kom að verg landsframleiðsla dróst saman um 4% á milli ára á fyrsta fjórðungi þessa árs

Það fór svo sem ekki mikið fyrir þeim tölum sem birtust í nýjum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar í síðustu viku, þar sem fram kom að verg landsframleiðsla dróst saman um 4% á milli ára á fyrsta fjórðungi þessa árs. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2020 sem samdráttur mælist í hagkerfinu.

Í þessu felast bæði góðar og slæmar fréttir. Góðu fréttirnar eru þær að samdráttur mun, í einföldu máli, ýta okkur nær vaxtalækkunum. Það er ekkert launungarmál að Seðlabankinn hefur með vaxtaákvörðunum sínum viljað kæla hagkerfið – sem mun leiða af sér minnkandi verðbólguþrýsting og að endingu minni verðbólgu. Gangi þetta eftir má vænta þess að Seðlabankinn lækki vexti, en hvenær og hversu mikið er ómögulegt að segja til um á þessum tímapunkti.

Slæmu fréttirnar eru aftur á móti þær að loðnubrestur er ein helsta ástæða fyrir minnkandi landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi. Vissulega er einkaneysla ekki að aukast, sem út af fyrir sig er jákvætt, en hún þyrfti að vera mun minni ef ætlunin er að kæla hagkerfið eftir formúlu Seðlabankans. Loðnubrestur leiðir hins vegar af sér töluverðan samdrátt í útflutningstekjum. Birgðir sjávarafurða voru tæpir 40 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en í ár nema þær aðeins um þremur milljörðum króna.

Þetta minnir okkur þó á hversu sjávarútvegurinn er mikilvægur í hagkerfinu okkar og hvað hann gerir mikið fyrir þjóðarbúskapinn. Það setur umræðu um sjávarútveg á liðnum árum í einkennilegt samhengi, þar sem meira er rætt um það hversu mikið á að skattleggja greinina og mögulega skipta verðmætunum með öðrum hætti heldur en það hvernig verðmætin verða raunverulega til. Sem er jú það sem skiptir mestu máli í þessu öllu saman.

Staðreyndin er sú að það er ekkert sjálfgefið í verðmætasköpun í sjávarútvegi. Til þess þarf djarfa einstaklinga sem eru tilbúnir til að leggja allt að veði, fjárfesta (oft með miklum skuldsetningum), leggja hart að sér í vinnu, mynda viðskiptasambönd, tryggja afhendingu á afurðum og þannig mætti lengi telja. Að ógleymdum þeim sem eru tilbúnir til að sækja sjóinn og fórna þannig verðmætum tíma frá sínum nánustu, oft við erfiðar og hættulegar aðstæður.

En þá aftur að vöxtunum og hagkerfinu. Heimilin eru mörg hver í skjóli, ef þannig má að orði komast, frá háum vöxtum. Margir hafa farið þá leið að færa sig yfir í verðtryggð lán til að viðhalda sömu ráðstöfunartekjum og áður, sem verður til þess að einkaneysla dregst ekki jafn mikið saman og hún ætti að gera (eða eins og Seðlabankinn vill að hún geri). Jafnvel þó svo að dregið hafi úr stórum fjárfestingum eins og bílakaupum eru heimilin dugleg á útgjaldahliðinni. Nú þegar sumarið er komið, í það minnsta að nafninu til, má vænta þess að fólk leggi ferðalög fyrir sig, hugi að því að gera við pallinn, geri vel við sig í mat og drykk og þannig mætti áfram telja. Sá verðbólguþrýstingur sem enn er til staðar er ekki að lækka í samræmi við það sem Seðlabankinn vill sjá og á meðan svo er þurfum við að bíða enn lengur eftir vaxtalækkunum. Sú bið gæti orðið lengri og erfiðari en við gerum okkur grein fyrir.