Aukin innri ólga í Evrópusambandinu

Kosningar til Evrópuþingsins hefjast á morgun og standa út helgina, en skoðanakannanir benda eindregið til þess að pópulískir, „róttækir hægriflokkar“ verði sigursælir í meirihluta hinna 27 aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB).

Deila má um hvernig má telja þá flokka til hægri; einstaklingsfrelsið er þeim fæstum hugleikið og flestir telja ríkisafskipti heillavænleg. Þeir hampa hins vegar margir þjóðlegum gildum og setja sig eindregið upp á móti óheftum straumi innflytjenda og hælisleitenda.

Á hinn bóginn draga þeir að mörgu leyti dám af stéttapólitík liðinnar aldar, segjast tala máli vinnandi fólks gegn ofurefli sérfræðingavaldsins, telja að kerfisflokkar til bæði hægri og vinstri hafi brugðist almenningi, jafnvel að lýðræðisfyrirkomulagið sjálft sé bilað. Hinn hefðbundni hægri-vinstri-ás stjórnmálanna á því ekki vel við um þá.

Evrópuþingið er að sönnu valdalítið, en sigur öfgaflokka mun breyta tóninum í pólitískri umræðu í ESB (frekari samruni og grænvæðing er að líkindum úr sögunni) og kann að gefa forsmekkinn að stjórnmálaþróun í aðildarríkjunum á næstu árum.

Það á ekki aðeins við um einhver einangruð jaðarríki ESB. Í Frakklandi er útlit fyrir að Rassemblement, flokkur Marine Le Pen, hljóti langflest atkvæði allra flokka, um þriðjung, en í Þýskalandi á Alternativ für Deutschland (AfD) góðar vonir um að verða næststærsti flokkurinn.

En hvað veldur þessari miklu fylgisaukningu „róttækra hægriflokka“? Þar eru útlendingamálin langfyrirferðarmest, en þau hafa víða reynt mikið á efnahagslega en einnig á menningu og sið.

Fleira kemur þó til. Þrálát verðbólga hefur skert kaupmátt og eignastöðu láglaunafólks verulega, en við bætist gremja vegna síaukins kostnaðar við „grænar“ umbreytingar, sem leggst af meiri þunga á láglaunafólk en aðra, og reiði vegna takmörkunar borgararéttinda í kórónuveirufaraldrinum með óljósum árangri kraumar enn í mörgum.

Öll er sú gagnrýni réttmæt og beinist eðli máls samkvæmt að helstu valdastofnunum, hvort heldur er hinum hefðbundnu kerfisflokkum, embættismannavaldinu eða Evrópusambandinu sjálfu. Það eru þær stofnanir sem fullvissuðu almenning um að þær hefðu fulla stjórn á ástandinu, tóku sér aukin völd og stóraukið skattfé, gerðu lítið úr óleystum vanda eða lokuðu beinlínis augunum fyrir honum. Og sökuðu í þokkabót þá, sem höfðu orð á því, um upplýsingaóreiðu.

Það er því vel skiljanlegt að stórir kjósendahópar hafi glatað trausti á kerfinu. Kerfinu, sem með beinum eða óbeinum hætti ber ábyrgð á því hvernig komið er, en hefur hafnað umbótakröfum, því kerfið veit að kerfið veit alltaf best.

Það þýðir hins vegar ekki að „róttæka hægrið“ eigi svör við vandanum. Hann hefur enda orðið til á löngum tíma, en líkurnar á því að nokkur þessara pópulísku flokka eigi til einföld, fljótleg og árangursrík svör við honum hverfandi. Hvað þá að þeir nái saman um þau eða hafi pólitískan slagkraft til annars en að vera á móti hinu og þessu.

Krafa AfD er að Þýskaland verði ávallt í fyrsta sæti, en efa má að Frakkarnir í Rassemblement samsinni því. Svipað er upp á teningnum í nær öllum hinum flokkunum, þar sem Svíþjóðardemókratar og danski Þjóðarflokkurinn eiga fátt sameiginlegt nema efasemdir um innflytjendastrauminn og félagslegar búsifjar af hans völdum, en ekki viðbrögðin. Eru þá ónefndar ótal uppákomur eins og þegar AfD var vikið úr þingmannahópi þjóðhyggjuflokka fyrir yfirlýsingar oddvitans Maximillians Krahs í liðnum mánuði um að liðsmenn SS hefðu nú ekki allir verið svo vondir menn.

Fátt bendir því til að yfirvofandi sigrar „róttækra hægriflokka“ í Evrópuþingskosningunum breyti á endanum miklu. En það mun ekki heldur leysa neinn fyrrgreindan vanda, sem við Evrópu blasir. Þvert á móti mun þeim að líkindum fjölga, sem líta svo á að Evrópusambandið sé ekki vandanum vaxið og almenningur afskiptur af valdastéttinni. Má ESB við aukinni innri ólgu ofan á annað?