Í Götu í Hrunamannahreppi Fyrir framan bústað Valdimars, bróður Sigríðar, og Guðnýjar Lindu Magnúsdóttur, konu hans. Þar hefur fjölskyldan komið saman á hverju sumri um árabil og átt þar ógleymanlegar ánægjustundir.
Í Götu í Hrunamannahreppi Fyrir framan bústað Valdimars, bróður Sigríðar, og Guðnýjar Lindu Magnúsdóttur, konu hans. Þar hefur fjölskyldan komið saman á hverju sumri um árabil og átt þar ógleymanlegar ánægjustundir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríður Harðardóttir fæddist 5. júní 1949 í Reykjavík og ólst frá tveggja ára aldri upp í Ytri-Njarðvík og Keflavík. Hún gekk í Barnaskóla Keflavíkur og Gagnfræðaskóla Keflavíkur og lauk þar landsprófi 1965

Sigríður Harðardóttir fæddist 5. júní 1949 í Reykjavík og ólst frá tveggja ára aldri upp í Ytri-Njarðvík og Keflavík.

Hún gekk í Barnaskóla Keflavíkur og Gagnfræðaskóla Keflavíkur og lauk þar landsprófi 1965. Eftir landspróf fór hún í Menntaskólann á Laugarvatni og lauk stúdentsprófi 1969. Þaðan fór hún sama ár til Bandaríkjanna og lauk BA-prófi í enskum bókmenntum 1972. Frá Bandaríkjunum hélt hún til Lundúna þar sem hún starfaði hjá Loftleiðum þar til fyrsta dóttirin fæddist. Hún sneri aftur til Íslands 1975 og stundaði þá kennslu við Laugalækjarskóla og Flensborgarskóla í fjögur ár eða þar til hún hóf cand. mag.-nám í enskum bókmenntum við Háskóla Íslands.

Árið 1983 réð Sigríður sig til starfa við Ensk-íslensku orðabókina hjá Erni og Örlygi, bók sem var á sínum tíma bylting í gerð tvímálsorðabóka, og þar með voru örlög hennar ráðin því síðan hefur hún lengst af fengist við bókaútgáfu. Hún er einn höfunda Ensk-íslensku skólaorðabókarinnar/Ensk-íslensku orðabókarinnar. Að útgáfu þeirrar bókar lokinni varð hún annar tveggja ritstjóra Íslensku alfræðiorðabókarinnar sem kom út 1990.

Sigríður starfaði síðan sem deildarstjóri orðabókadeildar Arnar og Örlygs og stýrði þá m.a. útgáfu á Alfræði unga fólksins og Fransk-íslenskri orðabók ásamt fleirum. Árið 1995 var hún ráðin sem upplýsingafulltrúi Samkeppnisstofnunar en sneri aftur í bókaútgáfuna hjá Vöku-Helgafelli og ritstýrði þar m.a. bókinni Íslenskum fuglum. Árið 1998 réð hún sig sem aðalritstjóra hjá Genealogia Islandorum en árið 2001 stofnaði hún ásamt Iðunnarfjölskyldunni svonefndu JPV-útgáfu. Þar starfaði hún sem aðalritstjóri til 2007 og ritstýrði og hélt utan um útgáfu fjölda rita, þ. á m. Íslands í aldanna rás. Eftir sameiningu JPV-útgáfu og Máls og menningar sagði hún upp störfum og stofnaði Útgáfuþjónustuna.

Árið 2009 var Sigríður ráðin aðalritstjóri Háskólaútgáfunnar og starfaði þar til sjötugs. Hún sagði þó ekki skilið við bókaútgáfuna og tók m.a. að sér ritstjórn á ævisögu Sigurðar Þórarinssonar, Mynd af manni, eftir Sigrúnu Helgadóttur.

Bækur sem Sigríður hefur ritstýrt hafa margar hlotið tilnefningar og verðlaun og árið 2017 hlaut hún viðurkenningu frá Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag sitt í þágu skólans en þar segir að á þeim tíma sem hún hafi leitt ritstjórnarvinnu útgáfunnar hafi hún tekið þátt í „að lyfta grettistaki í átt til gæðastjórnunar bóka með ritrýningu og ritstjórn“.

Á yngri árum stundaði Sigríður íþróttir af kappi, keppti bæði í sundi og handbolta, og tók virkan þátt í skátahreyfingunni. Hún slóst síðar í hóp góðra kvenna sem sóttu árum saman leikfimistíma í Kramhúsinu hjá Elísabetu Guðmundsdóttur (Lellu). „Með þeim hef ég ferðast víða og notið með þeim yndislegra samverustunda. Síðar fór ég að stunda leikfimi í Háskólanum og fyrir tilstuðlan Auðar systur minnar er ég nú farin að leika mér í golfi.“

Tíu ára gömul fór Sigríður í sveit að Grafarbakka í Hrunamannahreppi til Sigrúnar Tómasdóttur og móður hennar Þóru. „Foreldrar mínir höfðu af veikum mætti reynt að koma upp trjágróðri suður með sjó en móðir mín ólst upp á Vesturhamri í Hafnarfirði, þeim gróðursæla stað, og foreldrarnir neituðu að gefast upp fyrir rokinu og sjávarseltunni fyrir sunnan. Þar og á frjósömum söndum Litlu-Laxár vaknaði áhugi minn á garðyrkju og í garðinum heima í Þrúðvangi á ég margar af mínum bestu stundum. Hinar sælustundirnar á ég með börnum mínum og barnabörnum og auðvitað með þeim mörgu góðu vinum sem ég hef verið svo lánsöm að eignast um ævina. Matargerð hefur líka verið ein af mínum ástríðum og þær eru óteljandi veislurnar sem haldnar hafa verið í Þrúðvangi.“

Af öðrum áhugamálum Sigríðar er helst að nefna verndun húsa og annarra menningarminja. „Eiginmaðurinn Páll hefur alla tíð verið mikill baráttumaður fyrir verndun húsa og smitaði mig fljótt af þeirri baráttu. Þegar til stóð að rífa niður gamla miðbæinn í Hafnarfirði, þar sem við hjónin bjuggum í þrettán ár, áttum við ásamt vinum okkar, Vilborgu Hauksdóttur, Borgþóri Arngrímssyni, Eddu Óskarsdóttur og Halldóri Hannessyni, frumkvæði að því að stofna samtökin Byggðavernd til að berjast gegn þeim áætlunum. Viðbrögð Hafnfirðinga voru slík að ákveðið var að endurskoða miðbæjarskipulagið og halda í gömlu byggðina í miðbænum.“ Síðar gerðust þau hjón meðlimir í samtökunum Europa Nostra sem berjast fyrir verndun menningarminja í Evrópu og sækja þau árlega þing samtakanna sem haldið er í ýmsum höfuðborgum Evrópu.

Fjölskylda

Eiginmaður Sigríðar er Páll V. Bjarnason, f. 6.3. 1946, arkitekt. Þau eru búsett á Laufásvegi 7 (Þrúðvangi), 101 Reykjavík. Foreldrar maka voru hjónin Össur Bjarni Össurarson, f. 24.11. 1914, d. 28.9. 1987, atvinnurekandi í Keflavík, og Ólöf Pálsdóttir, f. 9.11. 1909, d. 14.6. 2005, húsfreyja í Keflavík.

Börn Sigríðar og Páls eru 1) Ólöf, f. 16.1. 1974, arkitekt, búsett í Garðabæ. Maki: Hallgrímur Kristinsson framkvæmdastjóri. Börn: Hörður Sindri Guðmundsson, f. 2000, og Valur Guðmundsson, f. 2004; 2) Sigurrós, f. 27.2. 1977, viðskiptafræðingur, búsett í Reykjavík. Maki: Tryggvi Freyr Harðarson hagfræðingur. Börn: Hekla Sverrisdóttir, f. 2002, Hrafn Sverrisson, f. 2009, og Sölvi Sverrisson, f. 2015; 3) Þorgerður, f. 11.12. 1979, líftölfræðingur, búsett í Stokkhólmi. Maki: Arnaldur Hilmisson tölvunarfræðingur. Börn: Hilmir Páll, f. 2007, Héðinn, f. 2010, og Sigríður Bríet, f. 2012.

Systkini Sigríðar eru Valdimar Harðarson, f. 5.1. 1951, arkitekt, búsettur í Reykavík, og Auður Harðardóttir, f. 4.12. 1958, viðskiptafræðingur, búsett í Garðabæ.

Foreldrar Sigríðar voru hjónin Hörður Valdimarsson, f. 20.1. 1925, d. 16.8. 1998, atvinnurekandi í Keflavík, og Sigurrós Sigurðardóttir, f. 22.6. 1924, d. 10.7. 2003, húsmóðir í Keflavík.