Snjór Við utanverðan Eyjafjörð í gærmorgun. Hvítt er yfir öllu 4. júní.
Snjór Við utanverðan Eyjafjörð í gærmorgun. Hvítt er yfir öllu 4. júní. — Ljósmynd/Aníta Elefsen
Sú vetrarhríð að vori sem nú gengur yfir landið mun vara fram á fimmtudag en eitthvað fram á föstudaginn á Vestfjörðum, segja veðurfræðingar. Kuldapollur er í háloftunum norðan við landið og úr honum hellist nú með þeim afleiðingum sem sést hafa síðasta sólarhringinn eða svo

Elínborg Una Einarsdóttir

Klara Ósk Kristinsdóttir

Sigurður Bogi Sævarsson

Sú vetrarhríð að vori sem nú gengur yfir landið mun vara fram á fimmtudag en eitthvað fram á föstudaginn á Vestfjörðum, segja veðurfræðingar. Kuldapollur er í háloftunum norðan við landið og úr honum hellist nú með þeim afleiðingum sem sést hafa síðasta sólarhringinn eða svo. Norðlæg átt gengur nú að landinu svo hitastig er lágt og víða snjókoma með skafrenningi. Þegar kemur fram undir helgina snýst svo í hægari vindátt en áfram verður fremur kalt miðað við árstíma.

Snjókoma og vetrarveður í júnímánuði nú er ekki einsdæmi, þótt vissulega sé þetta ekki algengt. „Við höfum séð svona áður,“ sagði Aníta Elefsen á Siglufirði sem var á leiðinni þaðan og inn á Akureyri í gærmorgun. Þá var þæfingsfærð á leiðinni milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, svo betra var að keyra hægt.

„Á veginum var svolítið slabb og leiðindi. Svo fórum við til baka eftir hádegi og þá var færið orðið miklu betra og aðeins að létta til,“ sagði Aníta.

Vegna óveðursins hafði verið gefin út appelsínugul viðvörun fyrir stóran hluta landsins. Sérstök gát var höfð á norðan- og austanverðu landinu og því var hringveginum milli Mývatns og Egilsstaða lokað. Þá var varað við éljagangi og krapa víða á vegunum, þar sem snjóruðningstæki voru á ferðinni.

Nokkur aðdragandi var að illviðrinu nú og því gátu bændur gert ráðstafanir með því að taka sauðfé á hús. Sauðburði er víðast hvar lokið og ær með lömb sín voru komnar á tún. Búast má þó við að um helgina megi sleppa fénu aftur út í gróandann. „Hér er vonskuveður, við erum í 200 metra hæð og það er töluverður renningur,“ sagði Ari Teitsson á Hrísum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu í samtali við mbl.is í gær. Hann er rúmlega áttræður, hefur búið alla tíð nyrðra og segist ekki muna svipað vorhret þar og nú gengur yfir.

Við virkjunina á Þeistareykjum í Suður-Þingeyjarsýslu voru tveggja metra háir skaflar. Starfsmenn Landsvirkjunar lentu í þæfingsfærð er þeir fóru til vinnu í gærmorgun og sögðust ekki á þessum tíma árs hafa upplifað veðráttu líka því sem er.

Höf.: Elínborg Una Einarsdóttir, Klara Ósk Kristinsdóttir