Arctic Adventures hefur samið um kaup á öllu hlutafé í ST Holding, móðurfélagi Special Tours, Whales of Iceland og Reykjavík Röst. Í tilkynningu frá Arctic Adventures kemur fram að fyrirtækin falli vel að starfsemi Arctic Adventures.
Special Tours hefur frá 1996 sérhæft sig í hafsækinni ferðaþjónustu allan ársins hring frá Reykjavík, svo sem hvalaskoðun og norðurljósaferðum. Reykjavík Röst er kaffihús með útsýni yfir gömlu höfnina í Reykjavík og Whales of Iceland er stærsta hvalasafn í Evrópu, staðsett á Granda og hefur notið mikilla vinsælda á undanförnum árum.
Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures, segir að kaupin komi til með að styrkja fjölbreytt framboð ferða og afþreyingar félagsins.
„Kaupin eru áfangi í vegferð okkar að byggja upp öflugt ferðaþjónustufélag og bjóða upp á fyrsta flokks ferðaþjónustu hér á landi. Íslensk ferðaþjónusta heldur áfram að vaxa jafnt og þétt og við ætlum að leggja okkur fram um að tryggja góða þjónustu og einstaka upplifun þeirra sem ferðast um landið. Kaupin styrkja þessi markmið,“ segir hann.
Ásta María Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Special Tours, segir að Special Tours og dótturfélög muni starfa með óbreyttu sniði.
„Með kaupum Arctic Adventures á Special Tours skapast tækifæri til að sameina krafta tveggja öflugra fyrirtækja í ferðaþjónustu sem deila ástríðu fyrir því að skapa ógleymanlegar upplifanir með viðskiptavinum sínum,“ segir hún.
Kaupin koma í kjölfar söluferlis í umsjón fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans og eru með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda.