Frammistaðan var heilt yfir flott og sigurinn verðskuldaður. Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn og ekki endilega ósanngjarnt að staðan var jöfn í leikhléi, þrátt fyrir að Ísland hafi komist yfir og Austurríki jafnað í lok hálfleiksins

Frammistaðan var heilt yfir flott og sigurinn verðskuldaður. Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn og ekki endilega ósanngjarnt að staðan var jöfn í leikhléi, þrátt fyrir að Ísland hafi komist yfir og Austurríki jafnað í lok hálfleiksins.

Austurríki skapaði sér sín færi, enda með vindinn í bakið, en íslenska liðið glímdi samt sem áður vel við sterkan mótvind. Ísland gerði vel í að komast yfir og vera með stjórn á leiknum stóran hluta hálfleiksins, í erfiðum aðstæðum.

Íslenska liðið lék með sterkan vind í bakið í seinni hálfleik og var mun sterkari aðilinn nær allan hálfleikinn. Ísland sótti án afláts eftir hlé, skapaði sér mörg hættuleg færi og skoraði verðskuldað sigurmark.

Það kom ekki á óvart að markið skyldi koma eftir hornspyrnu frá Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur, sem tók hverja hættulegu spyrnuna á fætur annarri. Hún lagði upp bæði mörk Íslands og var hættuleg allan tímann.

Hildur Antonsdóttir er orðin fastamaður í liðinu við hliðina á henni á miðjunni og þær voru góðar saman, eins og hin harðduglega Selma Sól Magnúsdóttir.

Fyrir aftan þær varðist íslenska liðið ágætlega og Fanney Inga Birkisdóttir hafði lítið að gera í markinu, sérstaklega í seinni hálfleik. Margir leikmenn spiluðu vel og Ísland átti sigurinn skilið. Fjögur verðskulduð stig gegn fínu austurrísku liði.