Tungumálið Leiksýning Nassims fjallar meðal annars um það hvernig tungumálið sameinar okkur og sundrar.
Tungumálið Leiksýning Nassims fjallar meðal annars um það hvernig tungumálið sameinar okkur og sundrar. — Ljósmynd/David Monteith-Hodge
Nýr leikari stígur á svið á hverju kvöldi í leiksýningu íranska leikskáldsins Nassims Soleimanpours, Nassim, á Listahátíð í Reykjavík. Um er að ræða nokkuð óhefðbundna leikhúsupplifun að því leyti að handritið bíður leikarans uppi á sviði í…

Snædís Björnsdóttir

snaedis@mbl.is

Nýr leikari stígur á svið á hverju kvöldi í leiksýningu íranska leikskáldsins Nassims Soleimanpours, Nassim, á Listahátíð í Reykjavík. Um er að ræða nokkuð óhefðbundna leikhúsupplifun að því leyti að handritið bíður leikarans uppi á sviði í innsigluðum kassa sem hann fær ekki aðgang að fyrr en sýningin hefst. Morgunblaðið ræddi við Nassim sem vildi reyndar ekki gefa of mikið upp um sýninguna sjálfa, enda ríkir um hana töluverð leynd.

Leiksýningin Nassim var upphaflega sett upp í Bush-leikhúsinu í London árið 2017 og hefur ferðast víða um heiminn síðan þá. Hún hefur til að mynda verið sýnd á kínversku, japönsku, kóresku og ensku, og nú í fyrsta sinn á íslensku. Nassim segir viðbrögðin við sýningunni hafa alls staðar verið góð og nefnir að sérstaklega hafi verið skemmtilegt að setja hana upp í New York þar sem hún var í sýningu í heila fimm mánuði. „En þá þurfti líka ansi marga leikara.“

Nassim segist ekki hafa fundið ýkja mikinn mun á viðbrögðum fólks við sýningunni á milli landa. „Við höfum ferðast út um allt, til stórra borga og lítilla, en staðsetningin skiptir ekki öllu máli. Mestu skiptir að halda gott partí. Mitt mottó er að ef maður vill eignast vini, þá eignast maður vini. Sama hvar maður er.“

Hann segir áhorfendur mega búast við tilfinningaríkri leikhúsupplifun. „Ég held að áhorfendur muni hlæja mikið. Þeir munu láta koma sér á óvart og upplifa margar tilfinningar undir lokin. Eða það hugsa ég.“

Forvitinn um tungumálið

Hugmyndin varð til í samvinnu við leikstjórann Omar Elerian sem Nassim lýsir sem góðum vini og vitorðsmanni í leiklistinni, eða sínum „partner in crime“. „Við kynntumst þegar ég flutti til Þýskalands árið 2015 og náðum strax vel saman. Á þessum tíma var ég að basla við að læra þýskuna en talaði þegar ensku, svolitla arabísku og svo farsí sem er móðurmál mitt. Omar er fjöltyngdur eins og ég og við fórum að velta alls konar fyrir okkur í sambandi við tungumálið, til dæmis hvað það þýði að eiga einhvers staðar heima og hvernig tungan bæði sundrar og sameinar. Þær vangaveltur urðu síðan upphafspunktur verksins.“

Leiksýningin heitir í höfuðið á Nassim sem er viðeigandi þar sem viðfangsefnið stendur honum afar nærri. „Nassim er mjög persónulegt verk eins og reyndar flestar mínar leiksýningar. Hún byggir mikið á minni eigin reynslu og segir frá því sem ég hef upplifað í gegnum ævina,“ segir Nassim og bætir við að á írönsku hafi flest nöfn einhverja þýðingu, rétt eins og á íslensku. „Nafnið mitt, Nassim, þýðir á írönsku gola eða hægur vindur. Þýðingin tengist sýningunni sjálfri en ég segi ekki meira um það vegna þess að ég vil ekki spilla fyrir áhorfendum.“

Aðspurður segist Nassim fullur eftirvæntingar fyrir því að koma til Íslands og vinna með íslenskum listamönnum. „Ég hef heyrt svo margt gott um Ísland, ekki síst varðandi náttúruna og tungumálið sem ég er sérstaklega forvitinn um. Þannig að nú hlakka ég til að koma og upplifa þetta allt sjálfur. Ég er mjög spenntur fyrir Listahátíð og að hitta fólkið sem stendur á bak við hana, en ég hef einmitt kynnst nokkrum úr Listahátíðarteyminu á ferðum mínum um heiminn og þekki listrænan stjórnanda hátíðarinnar, Vigdísi Jakobsdóttur, vel.“

Þá tekur Nassim fram að hann sé hrifinn af íslenska landsliðinu í fótbolta. „Það hefur vakið eftirtekt og ég hef oft haldið með því.“

Eins og að spila fótbolta

Að sögn Nassims hefur samvinna við leikarana gengið vel. En hvernig undirbúa leikararnir sig fyrir sýninguna ef þeir mega ekki lesa handritið og fá næstum ekkert vita? „Ég meina, hvernig undirbjuggum við okkur fyrir þetta samtal?“ svarar Nassim og beinir spurningunni til blaðamanns. „Núna erum við að ræða saman á ensku, sem er hvorki móðurmál mitt né þitt. Við höfum verið að gera þetta alla ævi. Á sama hátt hafa flytjendurnir haft alla ævina til þess að undirbúa sig fyrir það að standa á þessu sviði og ég treysti þeim til þess. Hvort sem þeir eru reyndir leikarar eða söngvarar, stjórnmálamenn eða uppistandarar – það hefur alltaf gengið upp. Það má eiginlega orða þetta þannig að þó að flytjendurnir fái ekki að æfa sig á hefðbundinn hátt að flytja verkið, þá hafi þeir í rauninni verið að æfa sig fyrir það alla ævi.

Talandi um fótbolta, þá er þetta svolítið eins og að spila fótboltaleik. Maður fer bara inn í augnablikið, með alla sína hæfni og tækni, og svo vinnum við þetta saman, ég, leikarinn og áhorfendurnir. Maður verður að treysta áhorfendum, þeir eru góður félagi, snjallir og hjálpsamir. Ef áhorfendur sjá mann detta þá styðja þeir mann á fætur. Leikreglurnar eru skýrar og það hjálpast allir að. Og þegar við leggjumst öll á eitt er ómögulegt annað en að það skili árangri. Þannig að þetta snýst í raun mikið um traust.“

Nassim verður sýnd í Iðnó í kvöld klukkan 20 og er það leikkonan Brynhildur Guðjónsdóttir sem stígur fyrst á svið. Halldóra Geirharðsdóttir flytur verkið síðan á sama tíma annað kvöld og á föstudagskvöld er röðin komin að Ingvari E. Sigurðssyni. Aðspurður segist Nassim hlakka til að hitta íslensku leikarana þrjá, sem verður þó ekki fyrr en á sýningarkvöldinu sjálfu. „Ég hitti leikarana aldrei fyrr en sýningin er hafin. Fyrir það eru þeir einir á báti.“

Morgunblaðið náði tali af Halldóru Geirharðsdóttur og fékk að heyra hvernig henni litist á það að taka þátt í sýningunni. Í samtali við blaðamann sagðist hún sjálf ekki mikið vita um sýninguna enda hefði hún lofað leikstjóranum að sleppa því að gúggla hana fyrir fram. Henni litist engu að síður afskaplega vel á. „Það er eiginlega fátt sem mér líst betur á heldur en einmitt þetta, að ganga auðmjúk upp á svið og gera mitt besta. Mig grunar satt að segja að ég sé búin að vera að undirbúa mig fyrir það alla ævi. Ég held að allt líf mitt komi með mér á þetta svið,“ segir hún hlæjandi.

Höf.: Snædís Björnsdóttir