Claudia Sheinbaum á aðaltorgi Mexíkóborgar. Síðustu sex ár hafa ekki einkennst af miklum framförum en samt er almenningur ánægður með AMLO.
Claudia Sheinbaum á aðaltorgi Mexíkóborgar. Síðustu sex ár hafa ekki einkennst af miklum framförum en samt er almenningur ánægður með AMLO. — AFP/Carl de Souza
Það er eilífðarverkefni stjórnmálafræðinga og hagfræðinga að finna svarið við því hvers vegna sumar þjóðir eru fátækar og aðrar ríkar. Heilt á litið virðist efnahagslegt frelsi veigamesta breytan en fleiri þættir koma oft við sögu

Það er eilífðarverkefni stjórnmálafræðinga og hagfræðinga að finna svarið við því hvers vegna sumar þjóðir eru fátækar og aðrar ríkar. Heilt á litið virðist efnahagslegt frelsi veigamesta breytan en fleiri þættir koma oft við sögu.

Hvaða gagn hefðu t.d. íbúar Hong Kong haft af öllu viðskiptafrelsinu ef ekki væri fyrir það að borgin býr að einstaklega góðri höfn af náttúrunnar hendi og gat líka myndað efnahagslega brú á milli Kína og alþjóðahagkerfisins? Áttu ekki vel heppnuð ríkisinngrip stóran þátt í velgengni Suður-Kóreu? Er nokkur furða að hitabeltissjúkdómar hafi haldið hagkerfum Afríku niðri? Og væri Evrópa rík ef það væri jafnerfitt að flytja vörur upp og niður Dóná og Rín og það er að sigla um Kongófljótið og Zambezi? Hafði Max Weber á réttu að standa þegar hann fullyrti að munurinn á ríkum þjóðum og fátækum skýrðist fyrst og fremst af því að vinnusemi og auðsöfnun varð að dyggð hjá mótmælendum á meðan kaþólikkar lifa meira í núinu?

Miðpunktur alheimsins

Hvers vegna er Mexíkó svona fátækt land? Mælingar sýna að það er ekki hægt að finna vinnusamari þjóð svo að ekki er leti um að kenna. Þar má finna gnótt af góðu ræktarlandi og ofan í jörðinni leynast bæði olía, gas og dýrmætir málmar. Sigla má gámaskipum í beinni línu til Evrópu, Asíu og Suður-Ameríku og hægt að flytja vörur landleiðina í norðurátt til ríkasta hagkerfis í heimi. Það var ekkert svo fjarri lagi hjá Aztekunum að halda að Mexíkó væri miðpunktur alheimsins.

Ég uppgötvaði svarið, að hluta, þegar ég leigði mér íbúð miðsvæðis í Mexíkóborg skömmu eftir íslenska bankahrunið. Í fyrstu leit raunar út fyrir að það yrði mikið vesen að finna einhvern sem myndi fallast á að leyfa útlendingi að leigja af sér íbúð en ég sá mér leik á borði og bað þjónustufulltrúann minn hjá Arionbanka að veita mér námslokalán og gat nælt mér í ágætis íbúð með því að bjóðast til að borga eins árs leigu fyrir fram. Lánið afgreiddum við yfir síma og ég er ekki einu sinni viss um að ég hafi þurft að senda pappíra í pósti – peningarnir birtust einfaldlega í netbankanum.

Munurinn á íslenskum og mexíkóskum veruleika blasti síðan við mér þegar kom að því að undirrita leigusamninginn. Aldrei nokkurn tíma hef ég skrifað undir svona þykkan samning, og rámar mig í að plaggið hafi verið ekki minna en 50 blaðsíður. Á hverja síðu þurfti ég að kvitta „AI“ og ætlaði verkefnið engan endi að taka. Á Íslandi var traustið í hámarki en í Mexíkó var traustið í algjöru lágmarki og flækjustigið á viðskiptum og samningagerð eftir því.

Vandinn er samfélagslegs eðlis og nær til allra stofnana þjóðfélagsins. Birtingarmyndirnar eru fjölmargar: mikil varkárni og tortryggni litar öll viðskipti, en spilling, vanhæfni og hátt flækjustig einkennir hið opinbera. Við þessar aðstæður virkar hagkerfið einfaldlega ekki eins og það ætti að gera.

En af hverju er ástandið svona miklu betra í Bandaríkjunum, stofnanir samfélagsins n.v. í lagi, ágætis traust í viðskiptum og allt á fljúgandi ferð? Einhvers staðar las ég mjög sannfærandi útskýringu sem var á þá leið að Bandaríkin fengu í vöggugjöf menningu þar sem einstaklingarnir eru jafnir og frjálsir en Mexíkó og mörg önnur lönd Rómönsku Ameríku eru enn að glíma við arfleifð lagskipts samfélagskerfis sem rekja má allt aftur til encomienda- og síðar repartimiento-kerfanna sem bæði fólu í sér að þvinga fólk í lægri lögum þjóðfélagsins til vinnu fyrir landeigendur. Strax í byrjun varð til gjá á milli almennings annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar, og undantekningalítið hafði auðmannastéttin ríkisvaldið í vasanum.

Almenningur elskar AMLO

Ef stiklað er á stóru í efnahagssögu Mexíkó litaðist tímabilið eftir seinni heimsstyrjöld af ágætis vexti í skjóli innflutningshafta. Hagkerfið staðnaði á 8. áratugnum og í kjölfarið kom frekar misheppnað skeið einkavæðingar- og frjálshyggjutilrauna á 9. áratugnum. NAFTA markaði stærstu kaflaskilin en í ár eru einmitt liðnir þrír áratugir síðan samningurinn tók gildi og galopnaði allan Norður-Ameríkumarkað svo að landsframleiðsla Mexíkó tók kipp. Uppgangurinn í Kína bitnaði reyndar á Mexíkó og ekki fyrr en á allra síðustu árum að Mexíkó tókst að verða aftur stærsta viðskiptaland Bandaríkjanna, m.a. þökk sé viðskiptastríði Trumps við Kína og auknum áhuga bandarískra stórfyrirtækja á að færa aðfangakeðjur nær sínum heimamarkaði (e. nearshoring) í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Þá hefur Kína orðið fórnarlamb eigin velgengni og er launakostnaður þar núna orðinn hærri en í Mexíkó.

Kannski markaði það líka kaflaskil þegar Andrés Manuel López Obrador náði kjöri sem forseti fyrir sex árum. Ég hef aldrei haldið neitt sérstaklega upp á AMLO, og finnst hann frekar dæmigerður vinstri lýðskrumari, en það breytir því ekki að hann er í miklum metum hjá mexíkóskum almenningi. Má raunar segja að með honum hafi hinn dæmigerði Mexíkói loksins eignast sinn fulltrúa á forsetastóli; AMLO brúaði gjána í samfélaginu svo að venjulegu fólki fannst það loksins eiga alvöruhlutdeild í því hvernig landinu væri stjórnað.

Það má deila um hvort Obrador skilaði af sér góðu búi. Taka verður með í reikninginn að hann fékk kórónuveirufaraldurinn í fangið, og með það til hliðsjónar er ástandið í Mexíkó alls ekki svo slæmt. Skuldir ríkissjóðs eru tiltölulega lágar í samanburði við önnur ríki í Mið- og Suður-Ameríku, og atvinnuleysi hefur ekki rokið upp þó að ríkisstjórn Obradors hafi snarhækkað lágmarkslaunin en lögbundin lágmarkslaun voru hvort eð er langt fyrir neðan meðallaun í landinu. Þrjú stór innviðaverkefni skrifast á Obrador: nýr flugvöllur í Mexíkóborg, lest á Yucatan-skaganum og ný olíuvinnslustöð í heimaríki forsetans en öll virðast þessi verkefni hafa farið fram úr áætlun og verið frekar mislukkuð, og auðvelt að halda að geðþótti frekar en vönduð forgangsröðun hafi ráðið því að ráðist var í þessar tilteknu framkvæmdir frekar en brýnni og arðbærari verkefni.

AMLO var líka mjög rausnarlegur á almannafé í aðdraganda kosninganna og stefnir í halla á fjárlögum sem mun jafngilda 5,9% af landsframleiðslu og hefur hallinn ekki verið meiri í fjóra áratugi. Fjármálaráðuneytið segir um tímabundið útgjaldaskot að ræða, m.a. vegna stóru innviðaverkefnanna, og að hallinn muni helmingast á næsta ári, – en ég trúi því þegar ég sé það.

Vandamál bíða úrlausnar

Um helgina kusu Mexíkóar sér nýjan forseta og sigraði Claudia Sheinbaum með miklum yfirburðum. Sheinbaum kemur úr herbúðum Obradors og hefur sagst ætla að fylgja sömu stefnu í öllum meginatriðum. Stjórnmálaflokkur Obradors, Morena, rakaði líka til sín atkvæðum í þing- og sveitarstjórnarkosningum sem haldnar voru samhliða forsetakosningunni svo að Sheinbaum ætti að geta látið hendur standa fram úr ermum þegar hún tekur við völdum 1. október.

Markaðurinn brást reyndar ekkert of vel við fréttunum af sigri Sheinbaum. Pesóinn veiktist um 3,3% og mexíkóska hlutabréfavísitalan rýrnaði um 4,8% en fjárfestar hafa áhyggjur af róttækum stjórnarskrárbreytingum sem Obrador vill koma í gegn og Sheinbaum styður, og fælu m.a. í sér að dómarar við hæstarétt og meðlimir landskjörstjórnar yrðu valdir með beinni kosningu. Telja gagnrýnendur slíka lagabreytingu til þess fallna að skapa aukna pólitíska áhættu, séð frá sjónarhorni fjárfesta og atvinnurekenda.

Sheinbaum býður af sér góðan þokka. Hún er með doktorsgráðu í orkuverkfræði og verður 62 ára síðar í mánuðinum. Karlremba hefur lengi verið sterk í mexíkóskri menningu og þykir mörgum það sérstaklega ánægjulegt, og til marks um nýja tíma, að kona skuli loksins hafa verið valin í valdamesta embætti landsins.

Hvað stefnumálin snertir hafa svör Sheinbaum verið svolítið loðin, s.s. þegar hún hefur verið spurð hvernig hún hyggist loka fjárlagagatinu. Sumir telja líklegt að fjármálageirinn verði barinn eins og piñata til að bæta stöðu ríkissjóðs en háir stýrivextir hafa leitt til methagnaðar hjá mexíkóskum bönkum og eru þeir flestir í eigu spænskra og bandarískra alþjóðabanka sem kjósendur hafa litla samúð með.

Merkilegt nokk hækkaði Obrador ekki skatta og réðst í staðinn í átak gegn skattaundanskotum, en þrátt fyrir að skattprósentan sé í meðallagi í Mexíkó þá er landið í neðsta sæti af OECD-ríkjunum þegar skattheimta hins opinbera er mæld sem hlutfall af landsframleiðslu. Er það ósköp skiljanlegt að fólk og fyrirtæki hafi lítinn áhuga á að greiða í sameiginlega sjóði enda upplifunin að þau fái ekki peninganna virði til baka í formi þjónustu og innviða.

Sheinbaum, sem er sérfræðingur í loftslagsmálum, erfir líka rekstrarvanda ríkisolíufélagsins Pemex, og viðvarandi glæpa- og ofbeldisvanda í landinu. Glæpagengi vaða enn uppi og er það lýsandi fyrir ástandið að af þeim mikla fjölda fólks sem var í framboði fyrir stórkosningar helgarinnar voru 36 myrtir í aðdraganda kosninganna.

Ekkert hef ég heyrt eða lesið um að Sheinbaum hyggist bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja, en það er ekki að ástæðulausu að meirihluti mexíkóskra fyrirtækja og launþega tilheyrir neðanjarðarhagkerfinu: skrifræðið er þungt í vöfum og þannig var það nýlega reiknað út að mexíkóskt fyrirtæki sem vill hafa allt sitt á hreinu þarf að meðaltali að verja meira en 240 vinnustundum ár hvert í að gera upp við mexíkósk skattyfirvöld.

Í grein í The Economist lýsti mexíkóskur einyrki því þannig að þó að reksturinn væri í blóma dytti honum ekki í hug að stækka hann því þá myndi skattbyrðin rjúka upp, hann fengi stéttarfélögin á bakið, og þar að auki myndu glæpagengin byrja að krefja hann um verndarfé.