Gestur hefur þjálfað stjórnendur hér heima og erlendis.
Gestur hefur þjálfað stjórnendur hér heima og erlendis. — Morgunblaðið/Eyþór
Gestur K. Pálmason hefur haft í nógu að snúast í starfi sínu sem stjórnendaþjálfari hjá Complete á liðnum misserum. Hann starfar mikið erlendis en er þó með fasta starfsstöð hér á landi. Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?…

Gestur K. Pálmason hefur haft í nógu að snúast í starfi sínu sem stjórnendaþjálfari hjá Complete á liðnum misserum. Hann starfar mikið erlendis en er þó með fasta starfsstöð hér á landi.

Hverjar eru helstu áskoranirnar
í rekstrinum þessi misserin?

Mig langar að svara þessari spurningu frá tveimur sjónarhornum. Complete hefur verið í örum vexti sl. ár og þeir vita sem þekkja að skölun ráðgjafarfyrirtækja er jafnan mest krefjandi út frá því að finna rétta fólkið til starfa og síðan að sjá til þess að ferlarnir skalist með starfseminni án mikillar spennu. Frá sjónarhorni viðskiptavina okkar, sem margir hverjir eru stærstir í heimi í því sem þeir gera, þá hefur glíman við verðbólgu, fjármagnskostnað, ráðningar og helgun starfsfólks verið mjög ofarlega á baugi. Vinnumarkaður í Bandaríkjunum hefur t.d. verið á miklu flökti eftir covid-faraldurinn og jafnvægi ekki komist að fullu á enn. Þá er óhætt að segja að aukið flækjustig, pólitískur órói og örar breytingar snerti alla sem ég ræði við þessa dagana enda stórt kosningaár á heimsvísu.

Hvaða hugsuður hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Bandaríski heimspekingurinn Ken Wilber hefur haft gríðarleg áhrif á mig. Ég mæli eindregið með bókinni Cosmic Consciousness á Audible sem er í raun viðtal við hann ef einhverjir hafa áhuga á að ganga þann veg. Ég hef lesið flest það sem hann hefur gefið út og þykir mikil vigt í hans verkum sem nýtist mér daglega.

Hvernig heldurðu
þekkingu þinni við?

Ég uppgötvaði frjálsa mætingu þegar ég var í menntaskóla og skrópaði mig fljótlega út úr honum. Í kjölfarið samdi ég við sjálfan mig um að ég myndi alltaf taka eitt nám eða námskeið á hverju ári og hef staðið við það í 27 ár. Það hefur verið allt frá köfunarréttindum og meiraprófi yfir í markþjálfa- og MBA-nám. Ég les líka mjög mikið af alls kyns efni og áhugasvið mitt liggur víða. Þá nýt ég þess í starfi að fá að tala við margt fólk sem er ótrúlega vel að sér og ég læri mikið af.

Hugsarðu vel um líkamann?

Þar er rými til bætinga. Ég hef aldrei drukkið áfengi eða kaffi, líklega telur það eitthvað og tek svo rispur í að lyfta, hlaupa, synda og glíma þegar skrokkurinn ræður við það. Þá vinn ég markvisst með streitu. Það eina sem ég tek ekki syrpur í er að borða nammi og skyndibita. Sú neysla er óþarflega stöðug og ég þarf að fara í það mál.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?

Þyrfluflugmaður. Ég læt mig alltaf reglulega dreyma um það og hef nokkrum sinnum komist nálægt því að láta það verða að veruleika. Námið er dýrt og á þeim aldri sem ég er á núna myndi það líklega aldrei borga sig en ég er ekki tilbúinn að gefa þetta upp á bátinn alveg strax.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Klíníska sálfræði, guðfræði, heimspeki eða þerapíu – helst eitthvert bland af þessu öllu. Það er of mikið af fólki þarna úti sem glímir við allskonar og mig langar mjög mikið að hjálpa því. Það er algjör óhæfa að svo margir af samferðamönnum mínum þjáist af krísum sem má beintengja þroskabrautinni en finna enga leið. Persónulega þykir mér of lítið lagt upp úr jafningjastuðningi í samfélaginu og framhaldsnám í sálfræði og þerapíu of óaðgengilegt þeim sem ekki hafa grunnnám í þessum greinum. Það ætti að gefa fólki aukinn kost á að sækja sér fókuseraðra nám til að hjálpa öðrum.

Hvaða kosti og galla sérðu
við rekstrarumhverfið?

Kostirnir hér eru að það er tiltölulega auðvelt að tengja saman hugmyndir og fé til að koma hlutum í verk. Vil kasta kveðju á Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur fyrir að beita sér fyrir þeirri umgjörð á sínum tíma. Gallinn er að við erum lítil og því þak á skölun fyrirtækja. Við ættum því að horfa í auknum mæli út fyrir landsteinana þegar við erum að vinna hugmyndir. Þá er kostnaður mjög hár hér í alþjóðlegu tilliti og oft finnst mér eins og við gleymum að við erum í bullandi alþjóðlegri samkeppni á flestum sviðum – ekki síst um hæft fólk.

Hvað gerirðu til að fá orku
og innblástur í starfi?

Ég fæ orku frá fólki. Ég elska fólk í öllum sínum myndum og því ólíkara mér því betra. Að fá að starfa við að leggja öðrum lið eru forréttindi sem ég hef notið megnið af minni starfsævi. Síðan heillast ég oft af nýjum aðferðum, hugmyndum eða rannsóknum.

Hvaða lögum myndirðu breyta
ef þú værir einráður í einn dag?

Ég myndi breyta lögum um opinbera starfsmenn. Utan ákveðinna lykilstarfa hjá hinu opinbera sem við viljum verja fyrir pólitískum afskiptum held ég að það hollasta sem við gætum gert á vinnumarkaði væri að færa réttindi opinberra starfsmanna til samræmis við það sem gerist í einkageiranum. Þvert á það sem margir halda virkar hið opinbera ekki sem kerfi. Því er haldið uppi af fáum en ótrúlega helguðum einstaklingum sem við ættum ekki að láta brenna út með því að láta það vinna með fólki sem leggur ekki sitt af mörkum.

Ævi og störf

Menntun: Lögregluskóli ríkisins 2005, markþjálfun við Opna háskólann í Reykjavík 2013, MBA-nám við Háskóla Íslands 2022.

Störf: Sérsveit ríkislögreglustjóra 2006-2011, séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar 2011-2013, landamæradeild Lögreglustjórans á Suðurnesjum 2014-2017, Móttökumiðstöð umsækjenda um alþjóðlega vernd, 2017-2019, alþjóðlegur stjórnendaþjálfari hjá Complete frá 2020.

Áhugamál: Brasilískt jiu jitsu, tónlist, hljóðfæraleikur, löggæsla og mannlegur þroski

Fjölskylduhagir: Kvæntur Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, yfirlögfræðingi hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, og við eigum Dísu, Sigga og Soffíu.