Merkisstaður Kirkjan, gamla íbúðarhúsið og á milli þeirra stendur kaffihúsið þaðan sem er frábært útsýni á haf út.
Merkisstaður Kirkjan, gamla íbúðarhúsið og á milli þeirra stendur kaffihúsið þaðan sem er frábært útsýni á haf út. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hér á Hvalsnesi var á æskuárum okkar alltaf mikill gestagangur og hefð fyrir því að taka vel á móti fólki sem bar að garði. Á þeirri góðu hefð ætlum við að byggja hér og starfa,“ segir Margrét Tómasdóttir

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Hér á Hvalsnesi var á æskuárum okkar alltaf mikill gestagangur og hefð fyrir því að taka vel á móti fólki sem bar að garði. Á þeirri góðu hefð ætlum við að byggja hér og starfa,“ segir Margrét Tómasdóttir. Hún er ein fjögurra systra sem síðar í þessum mánuði ætla að opna Kaffi Golu á Hvalsnesi á Suðurnesjum. Heiti staðarins vísar til þess að oft er næðingur á þessum slóðum, það er fyrir opnu hafinu.

Hvalsnes er rétt sunnan við Sandgerði, en staðurinn er e.t.v. þekktastur fyrir hlaðna steinkirkju þar, sem var reist árið 1887. „Við systurnar eigum hér saman gamalt íbúðarhús og land og erum hér mikið. Hvergi er betra að vera,“ segir Margrét, velþekkt úr störfum sínum fyrr á tíð sem hjúkrunarfræðingur og skátahöfðingi Íslands. Systur hennar eru Anna Guðrún, Guðlaug Þóra og Magnea, dætur Tómasar Grétars Ólasonar og Guðlaugar Gísladóttur, en hún var frá Hvalsnesi. Þar bjuggu foreldrar hennar, þau Gísli G. Guðmundsson og Guðrún S. Pálsdóttir, og dótturdæturnar voru mikið hjá þeim í sínum uppvexti. Bundust staðnum þá sterkum böndum, sem haldist hafa.

Á sumrin eru ferðamenn komnir hingað heim að Hvalsnesi fyrir allar aldir, stundum mætir fólk frá Ameríku hingað strax eftir komuna til landsins enda er Leifsstöð hér skammt frá og oft fljúga vélarnar hér beint yfir þegar þær koma inn á Keflavíkurflugvöll. Margir ferðamenn koma til þess að taka myndir af fuglum. Þessu fólki verður gaman að sinna með veitingarekstri hér.“

Tónleikar á kostastað

Saman standa systurnar að fyrirtækinu Hvalsnessetur og á þess vegum er nú verið að byggja kaffihúsið sem stendur á grunni gamals fjóss og hlöðu. Raunar sjá systurnar fyrir sér að kaffihúið verði í framtíðinni menningarstaður, samanber viðburðaröðina Sumartónar í Hvalsneskirkju, þar sem á dagskrá eru tónleikar mánaðarlega í sumar.

Sögu Hallgríms Péturssonar sálmaskálds (1614-1674) verða gerð skil á sögusýningu í Kaffi Golu. Hallgrímur sagt á Hvalsnesi fyrir og um 1650 og gegndi þar prestþjónustu. Hann var þá nýlega kvæntur Guðríði Símonardóttur, Tyrkja-Guddu, sem svo var kölluð. Hún var í hópi þeirra sem var rænt í Vestmannaeyjum árið 1627 og seld í ánauð til Tyrklands. En þegar Gudda var laus úr prísundinni náðu þau Hallgrímur saman. Bjuggu lengst í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, en áður á Hvalsnesi og til eru ýmsar frásagnir um veru þeirra þar.

„Margt bendir til að hér hafi Hallgrímur og Gudda átt góðan tíma. Hvalsnes er um margt kostastaður og hér svalt enginn. Nú er ferðaþjónustan hér vaxandi og við viljum að þessi staður dafni,“ segir Margrét.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson